Category Archives: Greinar

Spá Dollýjar fyrir árið 2017 komin á vefinn

Dulfríður Jósefína hefur talað

Það verður mynduð ríkisstjórn strax í fyrstu viku ársins, ef hún verður þá ekki bara mynduð núna strax á næstu dögum. Hún verður skipuð þingmönnum frá Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð og mun Framsóknarflokkurinn standa með þessari ríkisstjórn ef á þarf að halda. Þeir Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi munu bindast tryggðarböndum og þegar líður á árið mun Framsóknarflokkurinn koma inní ríkisstjórnina í stað Bjartrar framtíðar sem mun koma verulega löskuð út úr þessu samstarfi með þeim Engeyjarfrændum.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Hver þarf samfélagsmiðla þegar við höfum Bensó?

Nýtt ár, 2017, þýðir að það eru liðin 28 ár síðan ég gerðist Hólmari um stund.

Já haustið 1989 mætti ég vestur í Hólm, blaut á bak við eyrun – ætlaði að skrifa eins og eina BA ritgerð í sagnfræði um leið og ég reyndi mig við að leiðbeina 10 ára bekk, 4. bekk. Þar voru snillingar eins og Una Péturs, Bergþór, Röggurnar, Stebbi Sigga Júl og Jóhanna Heiðdal, bara svo minnst sé á nokkra. En svo kom á daginn að ég átti hreint ekki bara að kenna þessum snillingum, nei unglingarnir biðu mín líka Ragna Freyja, tvíburarnir Hafþór og Sævar, Þorgeir Ingiberg, Finnur Sig og Þórey Thorlacius. Þeim átti ég að kenna sitt lítið af hvoru, m.a. dönsku – og ég sem hélt að Hólmarar myndu vera góðir við mig! Hvernig átti ég á 26. aldursári að geta fetað í fótspor goðsagnar eins og Stellu dönskukennara?

Continue reading Hver þarf samfélagsmiðla þegar við höfum Bensó?

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Í minningu vinar – Friðjón Fannar Hermannsson

Í hverfulleika lífsins, hvergi finn ég skjól
hamingjan er ekki öllum gefin.
Því hugsa ég um ljósið er leggst ég í mitt ból
hvort lýsi það að morgni, þar er efinn.

Í dag fékk ég fréttir af óvæntu fráfalli vinar míns Friðjóns Fannars Hermannssonar. Hann var einn af strákunum mínum í Ekkó. Fjörmikill drengur, stuttur í annan endann en þeir voru svo sem fleiri þannig í þessum hópi. Hjálpsamur var hann og duglegur, enda skáti og félagsmálatröll hið mesta. Strax þarna, þegar hann er 13-15 ára gamall var ljóst að hann yrði, er hann yxi úr grasi, drengur góður eins og sagt er í Íslendingasögunum.

Friðjón var alltaf kankvís við gamla leiðbeinandann sinn úr Ekkó og Þinghól. Við hittumst gjarnan á vellinum, eitilharðir Blikar bæði tvö, og þó það liðu mánuðir og jafnvel ár var alltaf stutt í brosið, knúsið og krafturinn sá sami og í Ekkó forðum.

Friðjón er einn þeirra sem skilur eftir sig margar góðar og ljúfar minningar. Hans verður sárt saknað.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Persónukjör

Ekki man ég eftir því að hafa verið í jafnmiklum erfiðleikum með að finna mér stað á hinu pólitíska litrófi eins og fyrir þessar kosningar. Samt er ég búin að setja niður lista þar sem ég tel upp nokkur þau atriði sem ég legg áherslu á í þessum kosningum:

  1. Landspítali við Hringbraut strax
  2. Úrbætur í húsnæðismálum, lifandi leigumarkaður
  3. Sanngjörn renta af auðlindunum
  4. Böndum komið á ferðamannaiðnaðinn
  5. Úrbætur í öldrunarmálum, mannsæmandi framkoma við eldri borgara
  6. Hófleg stefna í innflytjendamálum þar sem áhersla er á mannúð
  7. Rætt verði af alvöru um gjaldeyrismál og íslensku krónuna
  8. Kosið um aðildarviðræður við ESB

Sjálfsagt eru fleiri atriði sem ég gæti talið upp hér en eitt nefni ég þó sem mér finnst að eigi klárlega að vera framarlega á listanum góða og það er að kosningalöggjöfinni verði breytt í átt að persónukjöri. Ég er sannfærð um að margir kjósendur eru í sama vanda og ég, veit ekki alveg hvaða lista það á að kjósa því bæði eru ekki öll stefnumál flokksins manni að skapi og svo leynast þar einstaklingar sem ekki hafa nægilega skemmtilegan og góðan kjörþokka (kurteislega orðað – þú mátt nota hvaða orð sem þú vilt en ég treysti því að þú vitir hvað ég á við).

Það eru 11 listar í framboði – ellefu (eða eru þeir tólf?)!

Sumir geta ekki kosið A listann því þar er Páll Valur í framboði, aðrir geta ekki kosið B því þeir vilja að Willum þjálfi KR, C listinn er ómögulegur því Óttarr er pönkari og svo framvegis. Allir sínar hafa ástæður og eiga til þess fullan rétt. En það eru líka sumir sem vill helst kjósa þessa þrjá einstaklinga því þeir treysta þeim best allra, en geta það ekki því þeir eru ekki í “réttum” flokki.

Ég vildi gjarnan geta raðað saman því fólki sem ég treysti best til að stýra þjóðarskútunni og þér að segja þá er ég í þessum vandræðum vegna þess að á flestum listum eru einstalingar sem ég ber ekki fullt traust til.

Ég vil geta kosið fólk sem mér finnst deila skoðunum með mér sama hvar í flokki það stendur. Hver og einn stjórnmálamaður á að vera bundinn af sinni eigin sannfæringu en ekki festur á klafa flokksins. Ég er sannfærð um að ef tekið verði upp persónukjör þá muni stjórn landsins verða mun betri en áður. Persónukjör verður til þess að stjórnmálamennirnir okkar muni vanda sig meira, bæði innan þings og utan.

Þeirra eigin heiður er að veði.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Var Valdi galdramaður?

ValdiValdi gamli vallarvörður var í hugum margra okkar krakkanna sem stunduðum það að hanga á Vallargerðisvelli galdramaður. Hann kunni allt og gat allt, og hann var strangur – en samt bara mátulega. Við reyndum auðvitað, eins og krakka er von, að ganga aðeins lengra en hann leyfði, en mörkin voru skýr í hans huga og yfir þau fór maður bara einu sinni.

Valdi var handlaginn, gerði við net og galdraði blöðrur úr boltum og átti alltaf til bót þannig að hægt var að sparka í boltann aftur. Hann hélt úti nokkrum kynslóðum knattspyrnufólks í Kópavogi sem dáðu hann og dýrkuðu og báru fyrir honum óttablandna virðingu. Auðvitað án hans vitundar.

Á mínu heimili var alltaf talað um Valda fisksala, en hann rak fiskbúð í húsi KRON á Álfhólsvegi 32, en á þeirri góðu götu var ég alin upp og Valdi bjó þar líka. En ég kynnist þó ekki Valda fyrr en hann var orðinn vallarvörður og í mínum huga og langsamlega flestra jafningja minna var hann þekktur sem Valdi vallarvörður.

Ég sagði í upphafi að Valdi hafi í hugum okkar krakkanna verið galdramaður. Ég er nokkuð viss um að hann væri stoltur af þeirri nafngift. Hann var alinn upp meðal galdramanna á Ströndum, nánar tiltekið á Látrum í Aðalvík en þaðan flutti hann til Reykjavíkur árið 1946 en ári seinna flutti hann ásamt Rósu konu sinni í sumarbústað í Kópavogi og byggði sér og sístækkandi fjölskyldu sinni reisulegt hús við Álfhólsveg. Í bænum okkar bjó hann alla tíð síðan.

Hann var Kópavogsbúi með stóru K-i og barðist einarðlega fyrir öllum þeim sem minna máttu sín. Sigurjón sonur Valda orðar þetta vel þegar hann segir í minningargrein um föður sinn: “Að mörgu leyti var karl faðir minn einstakur maður sem alltaf vildi gefa af sér og gleðja þá sem í kringum hann voru. Hann var þó einnig nokkur bardagamaður og þoldi illa óréttlæti sem aðrir urðu fyrir.

Knattspyrnustúlkur úr Kópavogi nutu baráttumannsins svo sannarlega og hann, að öðrum ólöstuðum er sá sem lagði grunninn að því veldi sem Breiðablik varð og er í knattspyrnu kvenna á Íslandi. Hann stóð til að mynda fyrir fyrsta opinbera knattspyrnuleik stúlkna í Kópavogi þegar Austur- og Vesturbær öttu kappi árið 1967. Hann kom á fót skólamóti grunnskólabarna í knattspyrnu árið 1969 og lagði á það þunga áherslu að keppt yrði bæði í stúlkna og piltaflokki. Þessum mótum hélt hann, ásamt nokkrum fleirum góðum mönnum, úti í um 20 ár og til marks um umfangið má nefna að árið 1985 voru þátttakendur 406 og í blaðagrein um mótið er sérstaklega til þess tekið að helmingur iðkenda hafi verið stúlkur og helmingur drengir.

Valdi var eitilharður Bliki og hann varð virkur í félagsstarfinu fljótlega eftir stofnfund félagsins árið 1950. Þrjátíu og þremur árum síðar, árið 1983, hringir hann í DV og er greinilega mikið niðri fyrir. Þá hafði knattspyrnuþjálfari, sem ráðinn hafði verið til Breiðabliks, að hans sögn: “eyðilagt mikið uppbyggingarstarf í knattspyrnu sem hefur átt sér stað hér undanfarin ár” og hér æfðu aðkomumenn með liðinu á sama tíma og leikmenn sem fæddir eru í Breiðabliki eru á förum eða eru að hætta. Valdi lauk reiðilestri sínum með því að spyrja: “Hvað er orðið af öllum þeim strákum sem hafa haldið merki Breiðabliks á lofti? Fá þeir ekki tækifæri að spreyta sig vegna þess að aðkomumenn eru byrjaðir að ráða hér ríkjum?

Þarna talaði baráttumaðurinn, sá sem vildi að menn uppskeri eins og þeir sá.

Já Valdi var ekkert að skafa utan af hlutunum. Hann var baráttumaður af gamla skólanum og mátti ekki sjá óréttlæti nokkurs staðar. Á árunum frá 1980 og langt fram á tíunda áratug síðustu aldar átti knattspyrna kvenna verulega undir högg að sækja. Stöðugt fleiri stúlkur sóttu knattspyrnuæfingar á sama tíma og “kerfið” var ekki alltaf tilbúið til að taka á móti stelpunum. En Valdi gamli vallarvörður var sannarlega haukur í þeirra horni. Hann barðist mjög hart fyrir framþróun mótahalds fyrir stelpurnar á ársþingum KSÍ og lét til sín taka á opinberum vettvangi vegna þess.

Árið 1989 skrifar hann í blöðin og leggur fram tillögu á ársþing KSÍ þar sem hann leggur til breytingar á keppnisfyrirkomulagi í yngri flokkum kvenna þannig að leiktími 2. og 3. flokks verði lengri og að 3. flokkur spili á stórum velli. Hann segir m.a.: “Það nær ekki nokkurri átt að 12-14 ára stúlkur séu að spila á litlum völlum eins og 5. og 6. flokkur pilta gerir. Þær eru einfaldlega of stórar fyrir slíkt … Auk þess gengur ekki að Íslandsmótið hjá þeim standi yfir eina helgi og sé síðan úrslitakeppni

Nokkrum vikum síðar dregur hann aftur fram blað og penna og ítrekar kröfur um breytingar á fyrirkomulagi yngri flokka kvenna. Framsýni hans var viðbrugðið því hann lagði til í tillögum sínum að komið yrði á fót 4. og 5. flokkur kvenna. Honum varð að ósk sinni fyrir 4. flokk en Íslandsmót í 5. flokki stúlkna var fyrst haldið árið 2005, en það hét Hnátumót áður.

Valdi lagði línurnar fyrir mig og margar fleiri sem um árabil börðust fyrir framgangi kvenna í knattspyrnu. Hann kenndi okkur að þola ekki órétt, hann leiddi baráttuna og gafst ekki upp. Það gerðum við ekki heldur og orðin hans um stelpur í fótbolta þyrftu að eiga það takmark að komast í landsliðið varð leiðarljós svo ótal margra stúlkna í Breiðabliki. Valdi sagði árið 1989 þegar ekkert var kvennalandsliðið en lofað hafði verið að endurvekja stúlknalandslið:

Knattspyrna kvenna er staðreynd og komin til að vera. Stúlknalandslið er gott og gilt en landslið er efsta þrepið. Landslið er takmark sem stúlkur eiga að geta stefnt að til jafns við pilta.

Í huga ungrar stúlku af Álfhólsveginum var Valdi galdramaður. Hann gat allt og hjá honum áttum við krakkarnir alltaf skjól. Seinna í huga ungrar konu af Álfhólsveginum var Valdi galdramaður. Hann sneiddi niður appelsínur í kílóavís, hellti uppá te og kaffi og bakaði dásamlegar jólakökur og hann gat lagað allt sem afvega fór, hvort sem það var í stórum vélum eða nosturslegur saumur sem þurfti að laga á bolta eða klæði.

Valdi var galdramaður og ég er ekki frá því að hann var einn þeirra sem lagði til sprek í bálið sem brann í mér fyrir knattspyrnu kvenna í Kópavogi og á Íslandi. Hann lagði línurnar, markaði sporin og sjálf var ég bara sporgöngukona, þakklát fyrir að hafa kynnst Valda vini mínum vallarverði.

Þau voru nokkur, eldra fólkið, sem við sem þá vorum yngri fylgdumst með og horfðum upp til á leikjum, Hulda P fór þar fremst í flokki ásamt, Þórhalli manni sínum, Diddi hennar Helgu Kristjáns og svo Konni gamli sem var lengur en elstu menn muna liðsstjóri meistaraflokks karla. Þau mættu öll á kvennaleikina líka og létu vel í sér heyra. Helga er sú eina þessara sem hér eru upptalin sem enn mætir á völlinn holdi klædd, en ég er sannfærð um að þau hin eru hér með okkur því þetta var staðurinn þeirra. Helga orðaði það líka svo vel hvernig manni leið þegar fregnin um andlát Valda barst okkur. Hún segir að hún hafi verið „stödd á Kópavogsvelli að horfa á leik. Leikurinn varð á andartaki að aukaatriði. Völlurinn varð að stærðar minnismerki um Valda um leið og hann vakti ljúfsárar minningar um löngu liðin töp og sæta sigra sem við upplifðum saman. Augu mín hvörfluðu að staðnum þar sem skódinn hans stóð jafnan á leikjum Breiðabliks þannig að kona hans Rósa, sem er fötluð, gæti horft á.“ Sá staður er hér við suðaustur hluta stúkunnar.

Kópavogur og Breiðablik eru ríkari fyrir það lán að Valdi flutti í sumarbústað í Kópavogi árið 1947.

 

 

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Stelpum bannað að spila í takkaskóm á grasi

„Stelpum var bannað að spila á takkaskóm á grasi.“ – Kópavogsblaðið

Ingibjörg Hinriksdóttir.

Ingibjörg Hinriksdóttir er ein þeirra sem hvað ákafast hafa rutt brautina fyrir knattspyrnu kvenna hjá Breiðabliki.

Kópavogur er vagga knattspyrnu kvenna á landinu og Ingibjörg Hinriksdóttir er ein þeirra sem hvað ákafast hafa rutt brautina hjá Breiðabliki. Sjálf vill hún þó gera sem minnst úr því. „Brautryðjandinn er eiginlega Valdi gamli vallarvörður á Vallargerðisvelli sem árið 1969 vildi að stelpur í Kópavogi fengu að æfa fótbolta. Synir hans; Valdimar, Brynjar og Sigurjón fengu að æfa og leika knattspyrnu en dætur hans; Rósa og Kristín Silvía sátu eftir. Þær vildu líka spila fótbolta og Valdi hleypti þeim út á völlinn.

Valdimar Kristinn Valdimarsson, heitinn, eða Valdi vallarvörður eins og hann var oftast nefndur er lengst til vinstri á þessari mynd ásamt stúlkum í einum af fyrstu árgöngum í yngri flokka starfi Breiðabliks í knattspyrnu kvenna. Goðsögnin Haraldur Erlendsson er lengst til hægri.

Valdimar Kristinn Valdimarsson, heitinn, eða Valdi vallarvörður eins og hann var oftast nefndur, er lengst til vinstri á þessari mynd ásamt stúlkum í einum af fyrstu árgöngum í yngri flokka starfi Breiðabliks í knattspyrnu kvenna. Goðsögnin Haraldur Erlendsson er lengst til hægri. Mynd úr safni Breiðabliks.

Sjálf var ég í austurbænum og tók þátt í að stofna ÍK árið 1976 með pabba mínum, Hinriki Lárussyni, og fleirum. Hann hefur aldrei verið sérlegur aðdáandi Breiðabliks og vildi frekar að ég léki mér í fótbolta á skólalóðinni eða með strákunum í ÍK. Þar vorum við nokkrar eins og Magga Sig og einhverjar fleiri og seinna komu til liðs við okkur leikmenn eins og systurnar, Þóra og Ásthildur Helgadætur, sem varla stóðu út úr hnefa á þessum tíma.“

Fyrsta Gull- og silfurmótið
Ég hafði farið á nokkrar æfingar hjá Breiðabliki, gat náttúrulega ekki mikið svo ég tók dómaraprófið árið 1982. Örfáum árum siðar efndu þeir Sigurður Steinþórsson og Sveinn Skúlason til æfingamóts fyrir ungar stúlkur, sem þeir nefndu Gull-og silfurmótið, í höfuðið á verslun Sigurðar, Gull- og silfur. Dætur þeirra fengu nefnilega ekki að fara á nein æfingamót á meðan jafnaldrar þeirra og bekkjarbræður fóru á Pollamót í Vestmannaeyjum. Svona þróast þetta. En þetta voru auðvitað aðrir tímar. Á þessu fyrsta móti var bara einn flokkur sem keppti og aðeins fjögur eða fimm lið. Allur ágóði af fyrstu mótunum fór í að senda Blikastelpur í viku æfingaferð til Laugavatns. Síðar tók knattspyrnudeild Breiðabliks yfir þetta mót og ágóðinn dreifðist í allt yngri flokka starfið. Mótið, sem núna heitir Símamótið, er gríðarlega umfangsmikið batterí í dag.“

Breiðablik árið 1972

Breiðablik alltaf barist fyrir jafnrétti
Hvers vegna náði knattspyrna kvenna að festa svona djúpar rætur í Kópavogi?
„Það tel ég að megi meðal annars rekja til þess að Gull- og silfurmótið, sem við köllum Símamótið í dag, náði mjög fljótt að festa sig í sessi auk þess sem fyrsti gullaldartími Breiðabliks var einmitt á þessum árum. Þær urðu Íslandsmeistarar 1977, ´79, ´80, ´81, ´83 og ´90 og unnu tvöfalt ´81, ´82 og ´83. Það hafði gríðarlega mikið að segja. Breiðablik var, að ég tel, fyrsta félagið til að bjóða upp á yngri flokka þjálfun í knattspyrnu kvenna og er nú með alveg niður í 8. flokk. Áður voru bara tveir flokkar sem æfðu; meistaraflokkur og „yngri.“ Breiðablik hefur alltaf staðið sterkt við bakið á rétti stelpna til að iðka knattspyrnu og barist fyrir jafnrétti. Stelpum var til dæmis bannað að spila á takkaskóm á grasi undir lok síðustu aldar, vegna þess að vallarstjórar, sem margir hverjir eru einstaklega sérlundaðir menn, töldu að þær skemmdu það meira en strákarnir. Að hugsa sér, einföld eðlisfræði um hraða, þyngd og fallþunga er fljót að afsanna slíkar kreddur! En svona var þetta. Það hefur kostað blóð, svita og tár að breyta viðhorfum en sem betur fer er staðan gjörbreytt núna.“

Hvernig voru fyrstu gull- og silfurmótin?
„Mótið var fyrst á Smárahvammsvelli og óx út frá því. Það var rosalega gaman. Ég fyllti bílinn minn af Tommahamborgurum, sem var nú aðallinn þá, eftir keppnisdaginn og mætti með á kvöldvöku í Digranesinu. Linda P, alheimsfegurðardrottning, afhenti verðlaun og Maggi Scheving sýndi þrekæfingar. Þetta var sko ekkert slor,“ segir Ingibjörg og brosir. „Það er margs að minnast og flestar bestu knattspyrnukonur landsins hafa stigið fyrstu skrefin sín á mótinu okkar hér í Kópavogsdalnum. Ég man sérstaklega eftir hvað flest lið voru skíthrædd að mæta ÍBV, hérna um árið. Þær voru þá ekki eiginlega að fara að spila gegn ÍBV heldur miklu frekar gegn Margréti Láru sem þær réðu ekkert við. Auk hennar má nefna og Þóru Helgadóttur, Katrínu Jónsdóttir, Ásthildi, Möggu Óla, Söru Björk og margar fleiri. Þær léku allar hér á mótinu. Það jákvæaðasta í þessu er að hér er uppeldisstöð knattspyrnu kvenna á Íslandi og mun vera um ókomna tíð. Símamótið er „fyrst og fremst.“ Fyrsta mót sinnar tegundar og langfremst á landinu. Mótið hefur fest sig svo í sessi að hér mæta fyrrum leikmenn á mótinu með dætur sínar og hafa jafnvel mætt hér í mörg herrans ár, sem leikmenn, þjálfarar og nú mæður. Hér mætast kynslóðirnar og það er svo merkilegt að það er alltaf sólskin þegar þetta mót fer fram. Ég man eftir nokkrum mótum þar sem sólin skein frá fimmtudegi en uppúr klukkan þrjú á sunnudegi fór að rigna en það var bara til að vökva vellina,“ segir Ingibjörg Hinriksdóttir.

Þessi grein birtist í Kópavogsblaðinu 16. júlí 2014.

 

„Stelpum var bannað að spila á takkaskóm á grasi.“

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

30 daga Bio Effect húðmeðferð einfaldlega virkar

Ég var svo heppin að fá 30 daga Bio Effect vörur í afmælisgjöf í desember. Þar sem ég var nú bara að verða 51 árs þá skildi ég ekki alveg hvað var verið að gefa mér svona fínar snyrtivörur en þegar mér var bent á að þessi kíló sem ég hef tapað af sjálfri mér síðustu 18 mánuði hafi skilið eftir slappa húð hér og þar, m.a. í andlitinu, þá tók ég gleði mína á ný.

Það var nú líka þannig að ég hafði tekið eftir talsvert drjúgum baugum undir augum og því að broshrukkurnar voru heldur fleiri og dýpri en ég átti að venjast. Ég tókst því á við áskorunina um 30 daga notkun á þessu undraefni og sá sannarlega ekki eftir því. Ég bar 3-4 dropa tvisvar sinnum á dag á andlitið á mér, líka í kringum augun, og viti menn. Þetta virkar!

Ég er ekki mikið fyrir snyrtivörur svona almennt og hef ekki notað mikið af þeim í gegnum tíðina. Þess vegna átti ég ekki von á miklum árangri, en ég verð sannarlega að endurskoða þá afstöðu því 30 daga Bio Effect húðmeðferðin virkar. Það er einfaldlega þannig. BioEffect30

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu