Bimba frænka – minning

Ingibjörg Pétursdóttir, Bimba frænka, var uppáhalds frænka mín af öllum í veröldinni. Það sem ég var montin af því að vera nafna hennar. Hún var fyrirmyndin mín í góðum siðum og ung stúlka dreymdi mig um að ferðast til ókunnra landa og fjarlægra heimsálfa og vera eins og Bimba frænka.

Bimba var svo óendanlega fyndin og skemmtileg. Í hvert sinn sem hún stóð upp í veislum og hélt ræðu (sem var nánast alltaf) þá loksins þagnaði ég og hlustaði af andakt, veltist svo um af hlátri og hugsaði, þennan brandara verð ég að muna í næstu veislu.

Ingibjargirnar, Bimba og Böggý (móðir mín), voru ekki bara frænkur heldur líka einstaklega góðar vinkonur. Bimba skrifaði nöfnu sinni á ferðalögum og engin bréf voru jafn spennandi og bréfin hennar. Samband þeirra tveggja var einstakt alla tíð og allt til síðustu stundar.

Þegar á bjátaði hjá hvorri þeirra fór hin í heimsókn og veitti stuðning. Oftar en ekki fékk ég að fljóta með. Minnisstæð er mér heimsókn til Bimbu á Grensásdeildina og var það í fyrsta sinn sem varð vitni að því að Bimba væri sorgmædd yfir þeim spilum sem henni voru gefin. Hún hafði gengið í gegnum svo ótal margt, fékk Parkinson sjúkdóminn ung kona, og í hennar anda hélt hún upp á endurfæðingu sína eftir heilaaðgerð þar sem hún hlustaði á Bítlana meðan krukkað var í hana. Aðgerðin sú veitti henni skammvinnt frelsi en svo sló henni aftur niður. Heilablóðfall varð síðar til þess að auk þess að eiga erfitt með alla hreyfingu var málið tekið frá henni. „Ég skil ekki Böggý, hvers vegna Guð er svona vondur við mig“ sagði hún við mömmu í þessari heimsókn okkar á Grensás.

En Bimba lét ekki veikindi sín aftra sér frá því að líta til með mömmu á hennar síðustu mánuðum. Eitt sinn sótti ég Bimbu og fór með hana í heimsókn til mömmu á Vífilsstaði. Myndirnar sem ég tók af þeim frænkum, skálandi í sherrý og hlægjandi úr sér lungun eru dýrmætar minningar. Og síðasta símtal sem móðir mín átti var einmitt við Bimbu, fimm dögum áður en mamma dó. Bimba vissi að hverju stefndi og vildi fá að kveðja frænku sína, en þá var mamma orðin of veikburða til að taka á móti gestum svo símtal varð að duga.

Nú hafa þær frænkur hist á ný í annarri vídd, sjálfsagt eru þær búnar að draga fram sherrýflösku og  kveikja sér í sígó. Bimba er búin að stinga gervitönnum upp í sig og segir brandara á meðan mamma pissar í sig af hlátri.

Um leið og ég votta Einari, börnum þeirra öllum, tengdabörnum og barnabörnum mínar dýpstu samúð langar mig að senda Bimbu þessa kveðju sem ég orti til hennar 2014.

Bimba er algjört bjútíkvín
enda er hún frænka mín.
Hennar húmor kætir mann
hundrað skrítlur konan kann.
Hún risa hjarta í brjósti ber
hamingjan með henni fer.
Hún er fegurst allra meyja
aldrei hefur lært að þegja.
Þú ert myndin fyrir mín
alltaf lít ég upp til þín.
En núna fer ég fjótt í bingó
farvel kæra – kveðja Ingó

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu