Erna Aradóttir – minning

Erna Aradóttir var vinkona foreldra minna. Hún var hollsystir mömmu úr hjúkrunarkvennaskólanum og besti nágranni sem hægt var að hugsa sér á Álfhólsveginum. Erna var aldrei nefnd á nafn án þess að Böddi fylgdi með. Erna og Böddi. Fastir punktar í tilveru fjörmikillar stúlku sem ólst upp í óbyggðum Kópavogs, og nánast óbyggðum Kópavogi, þar sem Víghólar voru rétt sunnan við æskuheimilið.  

Sem örverpi foreldra minna fékk ég lengst systkina minna að fylgja með þegar foreldrunum var boðið í kvöldverð til Ernu og Bödda. Þá var öllu til tjaldað og alltaf var „flott í boðinu“. Heimili Ernu og Bödda var glæsilegt og löngum sat ég og dáðist að stórkostlegum listaverkum eftir þjóðþekkta listamenn. Mest dáðist ég að litlu verki eftir Nínu Tryggvadóttur á það gat ég endalaust horft og notið.

Erna varð bjargvættur minn oftar en einu sinni. Minnisstæðast er þó þegar ég tók að mér barnapössun í tvær vikur meðan mamma, pabbi, Sigrún systir og Gunni maður hennar fóru í ferð til Kanaríeyja. Þá tók ég að mér að gæta Guðrúnar Hörpu systurdóttur minnar en hún var þá um 18 mánaða. Harpa veiktist á meðan hún var í minni umsjón og var með háan hita allan tímann. Þó ég ætti systkini um allan Kópavog hitti þannig á að þetta ár var ekkert þeirra og mér nærri til aðstoðar þegar hitinn fór í 40 gráður. Þá var gott að leita til Ernu sem hughreysti mig og gaf mér blíðlega þau ráð, í tvígang, að hafa sambandi við næturlækni. Ég átti að standa á eigin fótum.

Árin líða og lífið tekur við. Gamlir nágrannar og kærir vinir gleymast þó ekki og einhverra hluta vegna hefur hugur minn á síðustu árum leitað mjög til Ernu Ara. Ég leit til hennar á Sléttuveginn fyrir um ári síðan og áttum við góða stund þar og rifjuðum upp gamla tíma. Ég hitti Ernu síðast þegar hún kom og var viðstödd útför pabba í nóvember. Þótti mér afskaplega vænt um það að sjá hana þar ásamt Soffíu dóttur sinni og Jóa tengdó.

Ernu og Bödda færi ég þakkir fyrir allt það góða sem þau gerðu fyrir mig, okkur systkinin og foreldra okkar. Minning þeirra lifir. Soffíu, Jóa og dætrum þeirra færi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ég leit í heimsókn til Ernu á Sléttuveginn þann 25. janúar 2023. Mikið var það skemmtilegt og það sem hún var hissa að sjá mig.
Tekið á móti kærri vinkonu í 50 ára afmæli mínu í desember 2013.
Pabbi og Erna í afmæli mínu 2013. Nú eru þau öll sameinuð, mamma, pabbi, Erna og Böddi, og væntanlega er flott í boðinu eins og alltaf.
Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu