Gulli málari – minning

Ekkert líf er öðru æðra.
Allra bíða sömu lok.
Það er mikilvægt að þiggja
gjafir bæði og dáð,
góðra manna vönduð ráð
.
(Stefán Hilmarsson)

Þá er hann Gulli málari farinn á vit Ásu sinnar. Gulla finnst mér ég hafi þekkt alla tíð. Hann var jú pabbi hennar Ástu B. vinkonu minnar og Óskars bróður hennar. Gulli bjó samt ekki með þeim systkinum á Álfhólsveginum þar sem við Ásta og Óskar vorum nágrannar. Hann var engu að síður alltaf nálægur. Mætti á alla fótboltaleiki sem Ásta spilaði og háa röddin hans fór ekki framhjá neinum sem fylgdist með.

Gulli var gull af manni, og var mér alltaf góður, fyrir það er ég þakklát. Hann velti sér ekki upp úr jarðneskum auði en hann var gjafmildur og hjartahlýju átti hann í ótöldu magni. Hjá Gulla mætti manni breiðasta bros sem fyrirfinnst í veröldinni. Bros sem börnin hans bæði erfðu og hafa gengið niður til þeirra niðja.

Gulli fór ekki alltaf vel með sig, vann mikið og var ósérhlífinn. Hann fékk sykursýki sem hafði af honum báða fætur við hné og sýkin var farin að ganga ansi nærri sjón hans undir það síðasta. Þá var gott að njóta aðstoðar og umhyggju frá Ásu, Ástu og Óskari.

Með söknuði og virðingu kveð ég Gulla málara. Börnum hans, stjúpbörnum, barnabörnum og öðrum ættingjum og vinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu