20 ár frá afreki Völu Flosadóttur

Mér finnst tæpt að trúa því að það séu 20 ár liðin frá því að ég sat á kjaftfullum Ólympíuleikvanginum í Sydney á ljúfum vordegi, 25. september árið 2000. Ástralir voru nærri gengnir af göflunum þegar Cathy Freeman vann 400 metra hlaupið í græna geimveru búningnum sínum.

Þetta ár lögðum við Brynja Guðjónsdóttir heimsálfur undir fót og dvöldum í Ástralíu í tæpar 5 vikur. Gjörsamlega geggjaður tími. En við vorum aldeilis ekki einar á Ólympíuleikvangingum þennan vordag því metfjöldi áhorfenda var á vellinum, 112.524 – og trúið mér. Maður fann alveg fyrir því.

Magnað kvöld

Vala og Cathy voru heldur ekki einar. Þarna sáum við líka Michael Johnson hlaupa til sigurs í 400 metra hlaupi, Haile Gebrselassie vann 10.000 metra hlaupið, Jonathan Edwards sigraði þrístökkið, María Mutola var nokkrum skrefum á undan Stephanie Graf og Kelly Holmes í mark í 800 metra hlaupi og Guðrún okkar Arnardóttir hljóp sig inní úrslitin í 400 metra grindahlaupi þetta magnaða kvöld.

Við Brynja sátum við annan endann á ólympíuleikvanginum beint fyrir neðan okkur var stangastökksgryfjan. Stökkin hennar Völu voru frábærlega vel útfærð og þegar leið á keppnina urðum við Brynja, og fleiri Íslendingar sem þarna voru staddir, æ háværari og uppvöðslusamari meðal áhorfenda. Ég hafði keypt mér videó vél í Singapoor á leið okkar til Ástralíu og hún var óspart notuð þetta kvöld. Upptökur af síðasta stökki Völu sýna að æsingurinn hjá mér var full mikill en stemmingin kemst vel til skila. Sjáðu bara!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu