Hinrik Pétursson Lárusson 1932-2023

Þau voru þung sporin þegar við systkinin fylgdum pabba síðasta spölinn, en þó var okkur létt. Óminnið sem hann hafði barist við síðustu misseri og versnandi heilsa var orðið óbærilegt, bæði fyrir Hinnar Lár og okkur sem stóðum honum næst.

Hinni Lár var stór maður á svo margan hátt, hann var það kannski ekki í efni, en í anda voru fáir stærri en hann. Þau elstu okkar muna eftir því þegar fjölskyldan flutti inn í nýja flotta húsið á Álfhólsvegi 80 í Kópavogi. Mamma og pabbi ný orðin þrjátíu og eins árs með fimm börn og það sjötta á leiðinni. Sagan segir að þegar pabbi fór til bankastjórans til að falast eftir láni fyrir húsinu hafi bankastjórinn horft á hann og sagt að þetta hús væri allt of stórt. En þegar pabbi sagði að þangað myndi flytja átta manna fjölskylda var bankastjórinn fljótur að gefa eftir og lánið var veitt með það sama.

Þó pabbi hafi flutt frá Akureyri rétt ríflega tvítugur þá leit hann alltaf á sig sem Akureyring fyrst en Kópavogur, sem fóstraði hann í rúm 60 ár, var í öðru sæti. Þegar alzheimers sjúkdómurinn greip hann fyrir ríflega fimm árum síðan leitaði hugur hans æ oftar norður og síðustu mánuði var hann sannfærður um að hann væri staddur á fallegu Akureyri, pabbi hans kom í heimsókn og mamma var hjá honum stöku sinnum. Það var fyrir okkur börnin hans bæði fallegt og ógnvekjandi í senn.

Pabbi var ævintýramaður og hafði gríðarlega þörf fyrir að hafa eitthvað fyrir stafni. Hann var óhræddur við að taka áhættu í lífinu og stofnaði fjöldann allan af fyrirtækjum, fiskbúð, verslun, trésmíðaverkstæði og harðfiskverslun, svo eitthvað sé nefnt og já hann stofnaði ÍK, Íþróttafélag Kópavogs tvisvar!

Hinni Lár gerði mjög margt fyrir fólkið sitt og þá sem voru honum nákomnir. Hann ætlaðist ekki endilega til þess að fá formlegar eða miklar þakkir fyrir þau viðvik sem hann gerði og að sama skapi sá hann ekki alltaf tilefni til þakklætis þegar honum voru greiðar gerðir. Það sem þurfti að gera það var gert – punktur!

Pabbi var frændrækinn og þótti gaman að kíkja í heimsókn til skyldfólks síns. Þær heimsóknir hafa verið vel metnar. Það hefur sýnt sig síðustu daga þegar okkur systkinunum hafa borist fjöldinn allur af skilaboðum og kveðjum vegna fráfalls hans. Hann naut virðingar víða og langt út fyrir það sem við gerðum okkur nokkru sinni grein fyrir.

Hinni Lár vildi ekki neitt umstang við andlát sitt, hann kvaddi þennan heim saddur lífdaga þann 16. nóvember sl. og var jarðsunginn í kyrrþey frá Lindakirkju í Kópavogi viku síðar. Við trúum því að nú sé hann í Draumalandinu þar sem mamma, litli drengurinn þeirra sem dó tveggja daga, Bragi heitinn, eiginmaður Guðbjargar systur, systkini pabba og önnur skyldmenni sem kvatt hafa okkur, hafi tekið fagnandi á móti honum.

Blessuð sé minning Hinna Lár.

Ó, leyf mér þig að leiða
Til landsins fjalla heiða
Með sælu sumrin löng
Þar angar blómabreiða
Við blíðan fuglasöng
Þar aðeins yndi fann ég
Þar aðeins við mig kann ég
Þar batt mig tryggðaband;
Því þar er allt sem ann ég
Það er mitt draumaland.

Guðmundur Magnússon

Ingó, Dúa, Binna, Bubba og Siggi Hinnabörn

Æviágrip

Hinrik Pétursson Lárusson var fæddur á Akureyri 3. júní 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ fimmtudaginn 16. nóvember 2023.

Hinrik var sonur hjónanna Guðnýjar Sigríðar Hjálmarsdóttur verkakonu, f. 29.10.1902, d. 27.3.1986 og Lárusar Kristins Hinrikssonar bifreiðarstjóra, f. 20.05.1901, d. 05.11.1982. Hinrik var næst yngstur fjögurra systkina. Elst var Valgerður f. 18. mars 1925, Sigrún Jóna f. 16. apríl 1929 og Ólafur f. 15. september 1934. Hinn 29. ágúst 1955 gekk Hinrik að eiga Ingibjörgu Sigurðardóttur (Böggý), hjúkrunarkonu og framhaldsskólakennara, f. 21. júní 1932, d. 12. febrúar 2013. Hinrik og Ingibjörg eignuðust sjö börn, sem eru:

1) Lárus, f. 28.2.1956, eiginkona hans er Sheryl Nicola Phenicon f. 1981. Sonur þeirra er Benedikt Josiah f. 2020. Fyrri eiginkona Lárusar var Freygerður A. Baldursdóttir, f. 1955 hún lést árið 2014. Börn þeirra eru Baldur f. 1978 og Guðrún Elva f. 1980. 2) Sigurður f. 28.2.1956 eiginkona hans er Elsa Jenny Halldórsdóttir, f. 1956. Fyrri eiginkona Sigurðar er Fanney Benedikta Ellertsdóttir, f. 1961. Börn þeirra eru Ingibjörg Vala f. 1981, Ellert Sigþór Breiðfjörð f. 1984 og Halla Björg f. 1989. Börn Elsu eru Árni Már f. 1974 og Anna Borg f. 1983. 3) drengur f. 07.08.1958, d. 09.08.1958. 4) Guðbjörg f. 02.10.1959 eiginmaður hennar var Bragi Reynir Axelsson f. 1954, d. 1995. Dóttir þeirra er Inga Jóna f. 1990. Áður átti Guðbjörg Hinrik Inga Guðbjargarson f. 1979 og Þorgrím Gunnar Eiríksson f. 1982. 5) Bryndís f. 06.07.1961 eiginmaður hennar er Konráð Konráðsson f. 1961. Börn þeirra eru Unnur Ýr f. 1984, María f. 1987 og Sigurður Örn f. 1989. 6) Sigrún f. 02.08.1962 eiginmaður hennar er Þórir Gíslason f. 1960, dætur Sigrúnar og Gunnars Helga Guðmundssonar f. 1953 eru Guðrún Harpa f. 1982, Ásdís Rut f. 1984 og Jóhanna Björg f. 1986. Synir Þóris eru Jón Arnar f. 1988 og Lárus Þór f. 1992. 7) Ingibjörg f. 03.12.1963, eiginkona hennar er Elín Jóhannesdóttir f. 1971, börn Elínar eru Garðar Már f. 1995 og Helga Kristín f. 2002.

Afkomendur Hinna og Böggýar í beinan legg, sem enn eru á lífi, eru 46 talsins. 

Hinrik, Hinni Lár, var alinn upp á Hríseyjargötu 9 á Akureyri þar sem hann naut þess að vera í nálægð við sjóinn og náttúruna. Fljótlega hneigðist hugur hans til íþrótta og þá sérstaklega knattspyrnu og þótti hann liðtækur knattspyrnumaður. Hann fór ungur á sjó og var ræsir á síldarplaninu á Siglufirði þegar hann var nýlega fermdur. Hinni hitti Ingibjörgu (Böggý), verðandi eiginkonu sína, þegar hún var í verknámi í hjúkrun á Akureyri, þau trúlofuðust 1954, fluttist suður til Reykjavíkur ári síðar og gengu í hjónaband sama ár. Hinni starfaði við ýmislegt í gegnum tíðina en þekktastur var hann líklega sem Hinni í Hinnabúð sem hann stofnaði í bílskúrnum á Álfhólsvegi 80 í Kópavogi, þar sem þau Böggý höfðu komið sér upp myndarlegu húsi fyrir sig og öll börnin. Hinrik var mikill áhugamaður um íþróttir, hann var knattspyrnumaður með Þór Akureyri og Fram, var milliríkjadómari árin 1975 til 1977, þá var hann einn af stofnendum ÍK, Íþróttafélags Kópavogs, árið 1976. Á efri árum gekk Hinni til liðs við GKG, Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar, og varð golfið fljótt hans helsta áhugamál.

Útför Hinriks fór fram í kyrrþey frá Lindakirkju fimmtudaginn 23. nóvember sl.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu