Minningarorð um Jóhannes Bergsveinsson 1932-2021

Svefneyjar út þig seiddu.
Sólin af himni var,
og dillandi stjörnur og dularfull tungl
dönsuðu uppi þar.


Sjónhending fram á sundið
svanhvítur bátur rann
með útskorið stýri og ísaumað segl
og ástfanginn draumamann.


Svefneyja til þú sigldir.
Sjórinn var spegilgler
en dillandi stjörnur og dularfullt tungl
dönsuðu fyrir þér.


Eilífðarbáran undan
eyjunum byrgði sig,
en fallega stúlkan þín fagnandi beið
í fjörunni og kyssti þig.

(Kristinn Pétursson)

Ekkert var eins merkilegt og Breiðafjarðareyjar. Þar var þögnin dýpst, kyrrðin mest og þar ríkti fegurðin ein. Vestureyjarnar og Hvallátur voru auðvitað í mestu uppáhaldi hjá Jóhannesi Bergsveinssyni, tengdaföður mínum, sem við kveðjum í dag.

Jóa kynntist ég þegar leiðir okkar Ellu, dóttur hans, lágu saman í október 2015. Þótt ég væri sannarlega enginn unglingur þegar ég hitti hann í fyrsta sinn þá var dálítill fiðringur í sálartetrinu þegar stundin kom. Ég rétti fram hægri höndina, en hann þá vinstri og mér fannst mér hafa mistekist því Ella var búin að segja mér frá slysinu sem lamaði hægri handlegg hans. En kankvíst brosið og glettnin í augunum sem gægðust upp yfir gleraugun sögðu mér að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þetta gerðist. Hann tók mér opnum örmum og við urðum vinir frá fyrstu stundu.

Jói var mikill og góður sögumaður og síðustu ár skrifaði hann margar smásögur og frásagnir frá æskuárum sínum. Í sögu sinni „Hænsnakofinn“, segir hann frá því hvernig á því stóð að eyjaklasinn Hvallátur varð honum svo hugleikinn. Þegar breskur her gekk á land í Reykjavík í maí 1940 þótti heimili fjölskyldu hans við Ránargötu ekki öruggt skjól fyrir fjörmikinn gutta á áttunda ári. Húsið stóð hættulega nærri höfninni ef til þess kæmi að Þjóðverjar myndu senda hingað sprengjuflugvélar. Jói var því sendur í sveit vestur í Hvallátur ásamt Önnu föðursystur sinni en móðir hans og systkini voru send austur að Ásólfsstöðum. Í Látrum varð hann eitt með náttúrunni, sjónum, túnunum og dýrunum. Þangað leitaði hugurinn stöðugt og minningarnar þaðan urðu hans hugarfró þegar þrekið og þrótturinn til líkamlegra verka dofnaði síðustu árin.

Eftir andlát Auðar konu hans árið 2013 bjó Jóhannes einn í íbúð þeirra við Bárugötu. Maðurinn sem kunni varla að sjóða vatn að sögn barna sinna lagði sig fram um að læra eldamennsku, keypti kokkabækur og öll möguleg eldhúsáhöld sem gætu létt honum lífið. Árangurinn af eldamennskunni fer kannski ekki í sögubækurnar en viljinn var sannarlega til staðar.

Jóhannes talaði um það að hann vildi helst kveðja þessa jarðvist að heimili sínu en örlögin höguðu því þó þannig að hann var fluttur á Landspítalann í Fossvogi tveimur dögum fyrir andlátið. Þar kvaddi hann, saddur lífdaga og í sátt við Guð og menn, að morgni 22. júní sl.

Að leiðarlokum þakka ég Jóhannesi fyrir samfylgdina, börnum hans og fjölskyldu allri votta ég samúð. Blessuð sé minning Jóhannesar Bergsveinssonar.

30. júní 2021

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu