Einar Ragnar Sumarliðason – minning

Í sjötugsafmæli Einars þann 28. febrúar 2020.

Að sitja hér að morgni útfarardags Einars Sumarliðasonar og reyna að festa hugsanir mínar á blað er nánast ómögulegt. Þau eru nefnilega svo mörg árin þar sem spor okkar Einars lágu saman og Breiðablik var miðpunkturinn okkar.

Ég man fyrst eftir Einari í sumarhúsinu sem komið hafði verið niður við gervigrasvöllinn og þjónaði sem félagsheimili okkar Blika áður en Smárinn kom til. Ég held ég hafi aldrei komið þangað án þess að Einar hafi verið þar fyrir. Oftar en ekki í félagsskap Atla Þórssonar, Konráðs Kristinssonar og Jóns Inga Ragnarssonar. Nú hafa þeir félagar allir safnast til feðra sinna og efast ég ekki um að þeir sem áður voru gengnir hafi tekið vel á móti Einari – sennilegast er það þó að Atli hafi skammað hann fyrir það að koma alltof snemma. Svo hafa þeir fallist í faðma.

Þeir Einar, Atli og Konni gamli sáu nánast hvern einasta leik Breiðabliks í öllum flokkum karla og kvenna. En þegar meistaraflokkarnir léku á Kópavogsvelli voru þeir svo forsjálir að velja sér stað gengt gömlu stúkunni og fylgdust með í skjóli við gamla færanlega skólastofu sem hafði verið komið þar fyrir. Þarna stóðu þeir á besta stað félagarnir nánast nákvæmlega þar sem miðjan á nýju stúkunni eru í dag. Þarna var besti staðurinn – þarna fengu þeir að láta skoðanir sínar á leiknum í ljós án afskipta annarra vallargesta.

Einar og Atli Þórsson í fimmtugsafmæli mínu 3. desember 2013.

Einar Ragnar Sumarliðason var öðlingur. Hann leiðbeindi ungum íþróttaiðkendum um góða siði, sagði þeim hvernig ganga átti um íþróttahúsið Smárann og var þolinmóður gagnvart þeim sem ekki náðu leiðbeiningunum í fyrsta sinn, annað eða jafnvel þriðja. Ég held hann hafi unnið þá, sem ekki fylgdu reglum, á sitt band með því að verða vinur þeirra. Talaði við þá sem jafningja og sýndi þeim raunverulegan áhuga. Þannig vann hann alla.

Við Elín vorum svo lánsamar að eiga þess kost að fagna með Einari sjötugsafmæli hans, sem ég hélt reyndar að væri sextugs afmæli, þann 28. febrúar 2020. Þar var Einar í essinu sínu. Umvafinn stórfjölskyldunni og allir voru velkomnir í afmælið. Aldursbilið var sennilega ríflega 70 ár milli þess yngsta og þess elsta í boðinu. Þarna er Einari rétt lýst, það má og á enginn að vera útundan. Allir eru jafnir fyrir Guði, mönnum og Einari.

Að leiðarlokum viljum við systur, Ingó, Sigrún, Binna og Bubba ásamt mökum okkar færa fjölskyldu Einars, Ásdísi, Gísla, Rögnu, Möggu og Eyrúnu innilegar samúðarkveðjur. Einars verður sárt saknað en minning hans lifir

Elsku Einar – þakka þér fyrir allt og allt mikli mannvinur.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu