Súkkulaðimús marengskaka

Höfundur: Bjarni Viðar Sigurðsson keramiker.
Undirbúningur 1 klst – Framleiðsla 45 mínútur – Fyrir 10 – 12 manns

  • 6 egg  skipt í eggjahvítur og eggjarauður
  • 350 g sykur
  • 2,5 msk kakó
  • 200 g dökkt súkkulaði, brætt
  • 1 msk instant kaffi
  • 6 dl rjómi, þeyttur

Stillið ofninn á 150 gráður. Setjið bökunarpappír á fjórar bökunarplötur og teiknið 22 cm hringi á 3 plötur og geymið fjórðu plötuna fyrir fingurmarengsinn.

Setjið eggjahvíturnar í hreina þurra skál og látið standa í nokkrar mínutur eða þar til þær ná stofuhita. Þeytið þar til eggjahvíturnar eru létt þeyttar. Setjið þá sykurinn í eggjahvíturnar, skeið fyrir skeið. Þegar sykurinn er allur kominn í, þeytið í 5-10 mínútur, eða þar til blandan er þykk og glansandi og allur sykurinn er leystur upp. Setjið loks kakóið í blönduna og blandið varlega með sleif.

Marengsblönduna þarf að deila í fjóra hluta, setja á plöturnar þrjár og fjórða hlutann í poka til að sprauta fingurna út. Búið til 3 marengsbotna og síðan sprauta fjórðu blönduna í fingurlanga marengsstangir. Mega vera stuttir og fleiri. Bakið botnana í 45 mínútur, eða þar til marengsinn er ljós og stökkur. Fingurmarengsinn þarf þó minni bakstur, svo gott er að baka þá sér ef hægt er. Þegar bakstri er lokið er slökkt á ofninum og marengsinn látinn kólna í ofninum.

Bræðið súkkulaðið. Leysið upp instant kaffi í 1 matskeið af vatni.  Þeytið eggjarauður og kaffi saman þar til að það er vel blandað saman og glansandi. Bætið súkkulaðinu við og blandið áfram, þó ekki lengi, eða þar til þetta hefur blandast ágætlega. 

Þeytið rjóma.  Setjið 1/3 af þeyttum rjómanum í súkkulaðiblönduna og blandið vel með sleif. Setjið síðan alla blönduna í restina af rjómanum og blandið vel með sleif. Setjið blönduna í kæli þar til blandan er köld og þykk.

Kakan er sett saman á eftirfarandi hátt:

Setjið marengsbotn á kökudisk. Setjið súkkulaðimús ofan á hann.  Setjið næsta marengsbotn ofan á og aftur súkkulaðimús ofan á.  Þriðji botninn fer ofan á og þá fer restin af súkkulaðimúsinni ofan á og á allar hliðar á kökkunni. Setjið þá fingurmarengsinn einn af hverjum á hliðina á kökunni og fyllið þannig kantinn á kökunni.  Ofan á fer einnig fingurmarengs til skreytingar.  Þegar allur marengs er kominn á þá er sigtað kakó yfir kökuna. 

Nú er kakan tilbúin og þarf að fara í kæli svo hún nái að þétta sig. Þessi kaka er líka frábær sem desert og alltaf betri daginn eftir og þarnæsta dag líka. Algjör súkkulaðibomba.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu