Satay kjúklingasalat

Eftir vel heppnað tilraunaeldhús í gærkvöldi ætlaði ég ekki að leggja í annað enda hafði ég boðið pabba gamla í mat og þá er nú betra að vera ekki með neina tilraunastarfsemi. En svo hugsaði ég með sjálfri mér, ‘af hverju sýni ég honum ekki hvað það er sem ég hef verið að bæta inní mataræðið mitt og gef honum bragðprufu?’

En auðvitað gat ég ekki haldið mig við eitthvert hefðbundið – eitthvað sem ég hef gert áður – heldur þurfti ég að gera eitthvað aðeins öðruvísi. Úr varð dýrindis Satay kjúklingasalat sem pabbi gamli hrósaði í hástert – já hann var mjög ánægður með matinn en sagði þó að hann myndi ekki gera svona sjálfur, það væri alltof mikið af innihaldsefnum :-).

Innihald:

  • kjúklingabringur
  • satay sósa (ég var með satay- og kókoshnetusósu frá deSIAM sem var afbragð)
  • kókosolía
  • salatblanda frá Lambhaga
  • hvítkál
  • gulrætur
  • jarðarber
  • vínber
  • hnetublanda með rúsínum
  • sólþurrkaðir tómatar

Kjúklingabringur skornar langsum í um 1 cm. breiðar sneiðar og marineraðar í sósunni í ca. 30 mínútur.

Á meðan er salatið skolað og skorið niður ásamt hvítkálinu, berjunum og sólþurrkuðu tómötunum (ég var reyndar með sólþurrkaða tómata sem eru ekki niðursoðnir í olíu heldur þurrkaðir og voru þeir mjög góðir). þetta er allt blandað saman í skál, gulrætur rifnar yfir og því næst er hnetunum hellt yfir.

Þá er kókosolían hituð á pönnu og kjúklingurinn steiktur í gegn áður en hann er sneiddur niður og dreift yfir salatið.

Borið fram með íslensku ísköldu kranavatni!

En af því að mér tókst ekki að ná mynd af þessum dýrðarinnar rétti þá set ég hér inn mynd af sósunni sem ég notaði, en hún fæst í Víði.

Satay sósa

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu