Pönnusteikt lifur með smjörsteiktum eplum og grænmeti

Ég held að tilraunaeldhús Ingibjargar hafi aldrei náð öðrum eins hæðum og hún náði í dag, já í hádeginu í dag, 1. september. Ég fór í morgun í verulega góðan göngutúr í Salalaugina, synti í um 15 mínútur og gekk síðan heim aftur með smá viðkomu í Krónunni þar sem ég fjárfesti í ýmsu hollu góðgæti.

Þegar heim var komið var mín orðin dálítið svöng og ákvað að skella í gamlan og góðan sunnudagshádegisverð. Í ísskápnum mátti finna sitt lítið af hvoru girnilegu m.a. lambalifur sem var tilbúin til eldunar. Að auki mátti finna þar dýrindis salatblöndu frá Lambhaga og heimagerða sykurskerta jarðaberjasultu sem ég hafði keypt á Hamraborgarhátíðinni í gær.

Úr varð virkilega góð máltíð og ákaflega holl.

Innihald:

  • lambalifur
  • epli
  • salat
  • jarðaber
  • vínber
  • Sukrin púðursykur
  • smjör
  • kókosolía
  • hveiti
  • salt
  • pipar

Aðferð:

Hreinsaðu himnuna af lambalifrinni og sneiddu hana niður í ca. 1,5-2 cm þykkar sneiðar. Settu smá hveiti í skál og veltu lifrinni uppúr hveitinu, það á að vera þunnt lag af hveiti á hverjum bita en ef þú vilt ekki nota hveiti má líka sleppa því.

Afhýddu eplin, kjarnhreinsaðu og skerðu í skífur.

Bræddu smá smjör og kókosolíu á meðalheita pönnu og settu eplin þar á stráðu smá púðursykri yfir hverja sneið og steiktu í um 2 mínútur eða þar til eplið hefur brúnast. Snúðu eplunum þá við og steiktu í aðrar 2 mínútur. Taktu eplin til hliðar.

Bættu kókosolíu á pönnuna ef þarf og steiktu lifrina á pönnunni í ca 3 mínútur á hvorri hlið. Þú finnur þegar lifrin er steikt á því að hún verður stífari við steikingu. Taktu svo lifrina af og leyfði henni að hvílast.

Settu salat á disk ásamt vínberjum, jarðarberjum, skerðu niður eplin og bættu þeim á og loks lifrinni. Mér finnst gott að sneiða lifrina niður áður en hún fer á diskinn en það er auðvitað smekksatriði. Borið fram með jarðaberjasultu eða öðru góðu sultutau.

Verði þér að góðu!

Snöggsteikt lifur með eplum og salati

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu