Atli Heiðar Þórsson – Minning
Farðu í friði góði vinur
þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný. (Magnús Eiríksson)
þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný. (Magnús Eiríksson)
Atli Þórsson var vinur minn. Hann var vandaður maður og fór ekki í manngreinarálit. Hann var ekki maður margra orða þó hann hafi sannarlega haft skarpar og skýrar skoðanir á hlutunum og lét ekki sitt eftir liggja í rökræðum um hin ýmsu málefni. Hann var málafylgjumaður og ef hann batt tryggð sína við eitthvert málefni þá máttir þú vita að hann myndi verja þann málstað. Hann var Bliki fram í fingurgóma, var fórnfús og taldi ekki eftir sér að leggja fram vinnustundir til félagsins síns þegar þess var óskað. Breytti þá engu hvort um var að ræða að vinna á Gull- og Silfurmótinu eða vera í meistaraflokksráði karla eða kvenna. Hann vann jafnt fyrir alla.
Þær eru ófáar veislurnar sem við Atli sóttum bæði og bera tvær þeirra hæst. Annars vegar uppskeruhátíð knattspyrnudeildar Breiðabliks þar sem við Atli stigum „brúðardans“ með miklum stæl. Hitt var partýið sem stóð í sólarhring og Atli var fremstur meðal jafningja þegar vinirnir tóku atriði úr kvikmyndinni Full Mounty. Þetta eru stundir sem eru algjörlega ógleymanlegar þeim sem voru viðstaddir.
Það var aldrei neitt vesen á Atla og það var svo sem alveg dæmigert af honum að kveðja eins og hann gerir nú. Skyndilega og án fyrirvara. Atla Heiðars Þórssonar verður saknað. Minning hans lifir.