Skrifum okkar eigin sögu

Í morgun rak ég augun í bók nokkra sem gefin var út árið 2012 og nefnist Íþróttabókin. ÍSÍ – Saga og samfélag í 100 ár en bókin var gefin út í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ árið 2012. Þetta er gríðarlega efnismikil bók, 520 síður sem eru fylltar af texta og myndum af 100 ára ferli.

Nú er það svo að ég hef frá áttunda áratugnum haft áhuga á og skipt mér talsvert af knattspyrnu kvenna. Mestmegnis hef ég starfað fyrir félagið mitt Breiðablik en einnig kom ég að stofnun ÍK árið 1976, setið í kvennanefnd KSÍ (fyrst árið 1986) og í stjórn KSÍ í átta ár frá 2002-2010. Einnig hef ég frá árinu 1985 skrifað talsvert um íþróttir kvenna í Þjóðviljann, DV og Morgunblaðið og einhverja aðra fjölmiðla. Ég tel mig því vera nokkuð vel að mér í sögu knattspyrnu kvenna.

Þegar ég sá bókina vakti hún eðlilega áhuga minn og ég blaðaði í gegnum hana. Í sjálfhverfu minni leitaði ég þó fyrst að mínu eigin nafni og fann mynd af mér og frásögn sem ég skrifaði á bloggið mitt af upplifun minni þegar strákarnir okkar unnu til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Bejing árið 2008. Það var mögnuð stund og öllum ógleymanleg.

En svo hætti ég nú að dást að sjálfri mér og fór að leita að alvöru íþróttahetjum knattspyrnunnar s.s. Rósu Áslaugu Valdimarsdóttur, fyrsta fyrirliða kvennalandsliðsins í knattspyrnu, Ástu B. Gunnlaugsdóttur, Ástu Maríu Reynisdóttur, Bryndísi Einarsdóttur, Edda Garðarsdóttir, Guðrúnu Sæmundsdóttur, Guðríði Guðjónsdóttur, Margréti Rannveigu Ólafsdóttur, Rakel Ögmundsdóttir, Erlu Hendriksdóttur, Helenu Ólafsdóttur og Vöndu Sigurgeirsdóttur, en tvær hinar síðastnefndu þjálfuðu A-landslið kvenna fyrir árið 2012. Landsliðsþjálfararnir Logi Ólafsson og Jörundur Áki Sveinsson, sem báðir tóku tvisvar við þjálfun kvennalandsliðsins er heldur að engu getið.

Meira að segja Katrínar Jónsdóttur er aðeins getið þegar rætt var um laun leikmanna og afkomumöguleika þeirra. Hvergi er þess getið að hún hafi verið fyrsti leikmaðurinn til að ná 100 landsleikjum. Ég man það ekki í fljótu bragði hvenær hún rauf 100 leikja múrinn en hún lauk ferli sínum árið 2013 og hafði þá leikið 133 landsleiki svo það hefur líkast til verið árið 2009-2011 eða innan þess tímaramma sem bókin fjallar um.

Þó ég hafi glaðst í hjarta mínu þegar ég sá nafn mitt í bókinni þá lokaði ég henni með döprum huga vegna þeirra fjölda íþróttakvenna sem í engu er getið þrátt fyrir þeirra miklu afrek í íþróttasögunni.

Einn þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu sagði einhvern tímann að menn þyrftu að „skrifa sína eigin sögu“. Það hefur greinilega tekist.

Umrædd tilvitnun í Íþróttabókinni.

 

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu