Fiskur í ofni – A la Biggi Blö

Birgir L. Blöndal var yfirmaður minn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til fjölda ára. Hann var einn örfárra manna hér á landi á sem hafði löggiltan smekk og leituðum við gjarnan til hans þegar breytingar innanhúss- eða utan stóðu yfir og svo er hann einstakur sælkeri þegar kemur að mat og víni.

Hann kom með þessa uppskrift í vinnuna einn daginn og þykir mér líklegt að hann hafi boðið Áslaugu sinni uppá þennan rétt kvöldið áður. Mér finnst þetta mjög gott og mæli fullkomlega með þessum einfalda rétti.

Ýsuflök – meðalstór
1 meðalstór laukur
1/2 purrulaukur
1 gúrka
1 grænmetisteningur
4 gulrætur
salt
karrý
hveiti
grænt krydd (s.s. dill og/eða basil)
sítróna
rjómi eða mjólk

Laukur, gulrætur og gúrka skorin í bita og strimla og látin krauma í smjöri í 10-15 mínútur. Síðast er gúrkan sett út í . Teningur, salt og karrý sett með. Fiskur roðflettur, sítrónan kreist yfir, skorinn í bita og lagður ofan á grænmetið og látinn krauma með í 8 mínútur. Hafið lokið á pönnunni. Hveiti og kryddi blandað í hristara og rjómi hristur saman við og hellt yfir fiskinn og grænmetið. Hrært varlega í svo fiskstykkin verði heil.
Gott að hafa hrísgrjón með!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu