Category Archives: Fjölskyldan

30 daga Bio Effect húðmeðferð einfaldlega virkar

Ég var svo heppin að fá 30 daga Bio Effect vörur í afmælisgjöf í desember. Þar sem ég var nú bara að verða 51 árs þá skildi ég ekki alveg hvað var verið að gefa mér svona fínar snyrtivörur en þegar mér var bent á að þessi kíló sem ég hef tapað af sjálfri mér síðustu 18 mánuði hafi skilið eftir slappa húð hér og þar, m.a. í andlitinu, þá tók ég gleði mína á ný.

Það var nú líka þannig að ég hafði tekið eftir talsvert drjúgum baugum undir augum og því að broshrukkurnar voru heldur fleiri og dýpri en ég átti að venjast. Ég tókst því á við áskorunina um 30 daga notkun á þessu undraefni og sá sannarlega ekki eftir því. Ég bar 3-4 dropa tvisvar sinnum á dag á andlitið á mér, líka í kringum augun, og viti menn. Þetta virkar!

Ég er ekki mikið fyrir snyrtivörur svona almennt og hef ekki notað mikið af þeim í gegnum tíðina. Þess vegna átti ég ekki von á miklum árangri, en ég verð sannarlega að endurskoða þá afstöðu því 30 daga Bio Effect húðmeðferðin virkar. Það er einfaldlega þannig. BioEffect30

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Konráð Kristinsson – minning

Að eiga vin er vandmeðfarið,
að eiga vin er dýrmæt gjöf.
Vin, sem hlustar, huggar, styður,
hughreystir og gefur von.
Vin sem biður bænir þínar,
brosandi þér gefur ráð.
Eflir þig í hversdagsleika
til að drýgja nýja dáð.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

 

Konni gamli og IngóLjóðlínurnar hér að ofan gætu allt eins hafa verið samdar um okkur Konráð Ó. Kristinsson, minn kæra vin sem verður til grafar borinn í dag. Við Konni gamli, eins og hann var jafnan nefndur til aðgreiningar frá Konráð syni sínum, vorum miklir og góðir vinir. Ekki aðeins vegna þess að Konni yngri var og er mágur minn og ekki aðeins vegna þess að við Konni gamli erum ákafir stuðningsmenn Breiðabliks, heldur líka og ekki síður vegna þess að við bárum gæfu til þess að frá fyrstu tíð voru samskipti okkar mörkuð af virðingu fyrir hvoru öðru.

Continue reading Konráð Kristinsson – minning

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Drottningin mín – mamma

Nöfnurnar og bestu vinkonur - Ingibjörg og Ingibjörg
Nöfnurnar og bestu vinkonur – Ingibjörg og Ingibjörg

Elsku mamma mín kvaddi þennan heim að morgni þriðjudagsins 12. febrúar. Hún hafði átt við erfið veikindi að stríða um nokkurra ára skeið sem þjökuðu hana bæði líkamlega og andlega. En alltaf var samt stutt í brosið, alltaf var hún blíð og alltaf jákvæð.

Sem barn og unglingur tekur maður foreldrum sínum sem sjálfsögðum hlut, rétt eins og sólin kemur upp að morgni þá eru mamma og pabbi til staðar. En eftir því sem tíminn líður gerir maður sér grein fyrir því hvað maður er í raun heppinn að eiga þessar föstu stjörnur í lífinu og af tveim skærum stjörnum þá skein mamma skærast. Hún var leiðarljósið mitt, drottningin, hetjan mín og mín besta fyrirmynd. Alltaf gat ég komið til mömmu og leitað ráða, ef hún var ekki alveg sammála þá sagði hún það aldrei beinum orðum heldur reyndi að vísa mér leiðina og benda á að kannski mætti gera hlutina öðruvísi.

Continue reading Drottningin mín – mamma

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu