Drottningin mín – mamma

Nöfnurnar og bestu vinkonur - Ingibjörg og Ingibjörg
Nöfnurnar og bestu vinkonur – Ingibjörg og Ingibjörg

Elsku mamma mín kvaddi þennan heim að morgni þriðjudagsins 12. febrúar. Hún hafði átt við erfið veikindi að stríða um nokkurra ára skeið sem þjökuðu hana bæði líkamlega og andlega. En alltaf var samt stutt í brosið, alltaf var hún blíð og alltaf jákvæð.

Sem barn og unglingur tekur maður foreldrum sínum sem sjálfsögðum hlut, rétt eins og sólin kemur upp að morgni þá eru mamma og pabbi til staðar. En eftir því sem tíminn líður gerir maður sér grein fyrir því hvað maður er í raun heppinn að eiga þessar föstu stjörnur í lífinu og af tveim skærum stjörnum þá skein mamma skærast. Hún var leiðarljósið mitt, drottningin, hetjan mín og mín besta fyrirmynd. Alltaf gat ég komið til mömmu og leitað ráða, ef hún var ekki alveg sammála þá sagði hún það aldrei beinum orðum heldur reyndi að vísa mér leiðina og benda á að kannski mætti gera hlutina öðruvísi.

Mamma var duglegasta kona sem ég hef kynnst. Aðeins 31 árs að aldri höfðu þau pabbi fyrir 8 manna fjölskyldu að sjá. Það eru ekki nema sterkasta fólk sem getur verið með sex börn á framfæri sem eru fædd á aðeins 7 ára tímabili, tvo líflega stráka og fjórar kröfuharðar stelpur. Þetta gerði mamma án þess að kvarta nokkru sinni. Frá því ég man eftir mér var mamma alltaf að vinna. Hún var frábær húsmóðir, eldaði besta mat í heimi og ef einhvern vantaði aur þá dró hún upp veskið og gaukaði að manni smáræði. Heitur matur í hádeginu, saltfiskur og skata á laugardögum og alltaf lambalæri eða hryggur á sunnudögum. Það var bara sjálfsagt.

Á seinni árum naut ég þess að geta ferðast með mömmu og pabba út um allt land og erlendis. Mér fannst það forréttindi að eiga þess kost og í dag er ég svo óendanlega þakklát fyrir allar góðu stundirnar okkar saman. Ferðin til Parísar er mér minnisstæð. Þá hafði mamma verið ansi slæm í lungunum um nokkurt skeið og ekki beint í formi fyrir mikið klifur. Einn daginn lá leið okkar að Sacre Coure kirkjunni þangað sem við fórum með neðanjarðarlestinni og þegar við komum á leiðarenda þá tók mamma ekki í mál að taka lyftuna upp. Leið okkar upp tröppurnar úr lestinni tók góðan tíma, enda tröppurnar upp yfir 200 talsins. Sömuleiðis er ferð kvenleggsins til Calpe mér dýrmæt minning. Þar héldum við systur og dætur þeirra a.m.k. tvisvar sinnum uppá afmælið hennar mömmu, skemmtum okkur og nutum þess að eiga yndislega viku saman.

Dýrmætastar eru þó stundirnar með mömmu síðustu ár eftir að sjúkdómarnir, lungnaþemba og alzheimers, fóru að stjórna lífi hennar. Minningar úr ferðum okkar í sumarbústað bæði við Úlfljótsvatn og ekki síður að Flúðum eru ómetanlegar. Þar kom stórfjölskyldan saman, ungir og eldri og alltaf var mamma miðpunkturinn. Í faðmi hennar vildu yngstu börnin vera og þau eldri kepptust um að þjóna henni enda var hún drottningin okkar.

Elsku mamma mín, ég á eftir að sakna þín endalaust og eins og ég sagði við þig á dánarbeðinu þá munt þú vera í hjarta mínu að eilífu. Ég elska þig mamma mín.

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín dóttir, Ingibjörg

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu