Konráð Kristinsson – minning

Að eiga vin er vandmeðfarið,
að eiga vin er dýrmæt gjöf.
Vin, sem hlustar, huggar, styður,
hughreystir og gefur von.
Vin sem biður bænir þínar,
brosandi þér gefur ráð.
Eflir þig í hversdagsleika
til að drýgja nýja dáð.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

 

Konni gamli og IngóLjóðlínurnar hér að ofan gætu allt eins hafa verið samdar um okkur Konráð Ó. Kristinsson, minn kæra vin sem verður til grafar borinn í dag. Við Konni gamli, eins og hann var jafnan nefndur til aðgreiningar frá Konráð syni sínum, vorum miklir og góðir vinir. Ekki aðeins vegna þess að Konni yngri var og er mágur minn og ekki aðeins vegna þess að við Konni gamli erum ákafir stuðningsmenn Breiðabliks, heldur líka og ekki síður vegna þess að við bárum gæfu til þess að frá fyrstu tíð voru samskipti okkar mörkuð af virðingu fyrir hvoru öðru.

Mér dettur ekki í hug að bera störf okkar Konna gamla í þágu Breiðabliks saman, þar var ég sporgöngumaður hans á öllum sviðum. En ég fann það fljótt að við fundum samsvörun hvort hjá öðru gagnvart þessum störfum og við gátum leitað hvor til annars um ráð og stuðning. Ég þó sýnu oftar til hans en hann til mín.

Eftir að störfum okkar fyrir félagið lauk hittumst við gjarnan á vellinum, þar sem brekkan var okkar staður og jafnvel röltum við okkur „hinu megin“ þegar ekki blés nægilega vel fyrir okkar fólki. Konni flutti sín hvatningarorð í hljóði meðan ég gólaði yfir allan Kópavogsdalinn „Áfram Breiðablik“.

Svo hittumst við auðvitað í veislum og fjölskylduboðum. Ein veisla lifir umfram aðrar. 75 ára afmæli Konráðs þar sem aðeins nánasta fjölskylda var samankomin og ég ákvað að slá í eina ræðu vini mínum til handa. Þar fullyrti ég að þegar Konni yngri kvæntist Binnu systur minni þá hafi hann kvænst mér í leiðinni, og meinti með því að afmælisbarnið væri mér ekki síðri tengdafaðir en Binnu. Nokkrir viðstaddir hváðu við en vinur minn brosti í kampinn og þau María, eiginkona hans, sendu mér vink um að þau skildu hvað átt var við.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu