Bleikju sashimi

bleikjusashimiSíðustu ár hafa bragðlaukarnir mínir farið að kunna að meta sushi og sashimi. Fyrst og síðast ber að þakka það Hinna frænda mínum, stórkokki og snillingi. Hann var duglegur að búa til sushi handa mér sem var 100% án skelfisks og þegar ég komst uppá bragðið varð ég óstöðvandi. En seinna meir hefur sashimi komið sterkar inn hjá mér. Sashimi er í raun hrár fiskur sem er búið að blanda með kryddjurtum og sósu og er alveg dásamlega góður ef hann er rétt gerður.

Í dag ákvað ég að reyna þetta sjálf og mér fannst mér takast afbragðs vel til og þegar svo ber undir þá deili ég uppskrift með ykkur. Eins og venjulega eru engar mælieiningar, maður þarf bara að hafa tilfinningu fyrir þessu.

Bleikju sashimi

  • fersk bleikja
  • vorlaukur
  • steinselja
  • engifer
  • sesam olía
  • sesam fræ
  • lime

Ég byrjaði á því að roðrífa bleikjuflökin og skar síðan fiskinn í þunnar sneiðar ca 1×0,5 cm. Þá klippti ég niður vorlauk í skál setti síðan fiskinn saman við og hrærði þessu saman með skeið. Þá hellti ég sesam olíu yfir, ekki of mikið betra að bæta við smátt og smátt. Loks reif ég niður (eða saxaði) ferskt engifer og steinselju og bætti við og í lokin fór vænn slurkur af sesam fræjum.

Með þessu er borið fram ferskt lime sem hver og einn ræður hversu mikið er sett út á fiskinn.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu