Langeldað úrbeinað lambalæri

Eins og flestum er kunnugt þá var ég svo heppin að vinna 15 kg. af úrvals lambakjöti frá www.lambakjot.is núna um jólin. Ég hef fengið fólk í mat og boðið uppá þessa dásemd og mér finnst ég toppa mig í hvert sinn. Í kvöld kom pabbi í mat til mín ásamt Erlu frænku, Kristleifi menni hennar og Gunni Stellu dóttur þeirra. Þetta var ansi huggulegt matarboð og var gerður virkilega góður rómur að lærinu sem ég bauð uppá.

Eins og venjulega þá las ég mér til um nokkrar aðferðir við að hægelda lærið og endaði síðan á minni eigin aðferð.

Innihald:

 • lambalæri
 • gulrætur
 • sæt kartafla
 • bökunarkartafla
 • laukur
 • rauðlaukur
 • hvítlaukur
 • ólífuolía
 • nautakraftur
 • salt
 • pipar

Ég byrjaði á því að úrbeina lærið, las aðeins til um það hjá lækninum í eldhúsinu og tókst bara vel til. Þá skar ég niður grænmetið, allt nema sellerírótina og setti í botninn á þykkbotna potti. Þá tók ég kjötið og setti ofaná, saltaði og pipraði og setti í ofninn sem ég hafði stillt á 70 gráður ca. Þar fékk kjötið að dóla sér í tæpan sólarhring.

Ég tók beinin úr lærinu, setti í pott og sauð ásamt kjötkrafti og bætti síðan um 2 bollum af soði í pottinn með kjötinu en geymdi afganginn til að nota í sósuna.

Ca. klukkustund áður en gestirnir komu, hækkaði ég hitann á ofninum í 120 gráður. Eftir 45 mínútur tók ég kjötið úr pottinum, setti á ofnskúffu og undir grillið í ofninum þar til það hafði “poppast” aðeins og myndast skorpa. Þá leyfði ég kjötinu að hvílast í ofninum.

Þetta bar ég fram með sellerírótarmauki, sósu, salati og baunum.

úrbeinað lambalæri, hægeldað

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu