Ofnbakaður þorskur með blómkáli og blaðlauk

Úff … ég er algjörlega forfallin fyrir eldunaraðferðinni sem Ragnar Freyr, læknirinn í eldhúsinu, kynnti fyrir mér í einu blogginu sínu. Það gengur út á það að krydda fisk, setja hann á álpappír í blússheitan hofn (með grilli) og steikja fiskinn í um 7 mínútur. Þessi aðferð er algjört gull og gerir fiskinn safaríkan og dásamlega góðan.

Áður en ég fór heim úr vinnunni í dag leitaði ég eftir uppskrift þar sem væri þorskur og blómkál og ég fann eina slíka (sjá hér). Ég ákvað að vera ekkert að prenta þetta út lagði það aðeins á minnið hvað væri í uppskriftinni enda vildi svo vel til að innihaldsefnin átti ég flest í ísskápnum hjá mér. Útkoman var frábær – algjörlega frábær en svona gerði ég þetta.

Innihald

 • þorskur
 • blómkál
 • blaðlaukur
 • rauð paprika
 • sinnep (ég átti sinnep úr Mosfellsbakaríi)
 • majones
 • sýrður rjómi með graslauk
 • ólífuolía
 • primadonna ostur
 • karrý
 • paprika
 • salt
 • pipar
 • cummin

Ég byrjaði á því að setja majones, sýrðan rjóma og sinnep í skál, bætti við kryddi (öllu nema cummin) út í og hrærði vel. Smakkaði þetta aðeins til þar til ég var sátt við bragðið.

Þá smurði ég eldfast mót með ólífuolíu, brytjaði blómkálið, laukinn og paprikuna niður og setti í mótið og hellti sósunni yfir. Þetta setti ég í 175 gráðu heitan ofn og bakaði í um 30 mínútur.

Á meðan klæddi ég grunna ofnskúffu með álpappír, lagði þorskbitana þar á og kryddaði með cummin, papriku og pipar. Þarna var grænmetið orðið vel bakað svo ég tók það úr ofninum, blússhitaði hann 275 gráður og grill og skellti skúffunni í miðjan ofninn. Þar fékk fiskurinn að malla í um 7 mínútur. Þá tók ég hann út og lagði ofaná grænmetið og sósuna í eldfasta mótinu og bar fram. Þetta var algjörlega frábær matur 🙂

Fiskur með blómkáli og blaðlauk
Fiskur með blómkáli og blaðlauk
Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu