Lambapottréttur með rótargrænmeti og perlubyggi

Um daginn var ég svo heppin að fá einn lambaskrokk frá henni Hörpu frænku minni. Ég ákvað að úrbeina allt nema lærin og á talsvert af gómsætu lambakjöti í kistunni minni. Í dag kom loksins að því að ég ákvað að elda eitthvað og valdi poka sem innihélt gúllas eða stroganoff bita, ekki endilega bestu bitarnir í bænum en ljómandi góðir samt.

Ég fékk innblástur frá lækninum í eldhúsinu, einu sinni sem oftar, en hann hefur skrifað um lambapottrétt frá Lancasterskíri ef ég man rétt þar sem hann notar lauk og rótargrænmeti með lambinu. Mín útgáfa bar keim af því og svona gerði ég.

 • lambakjöt
 • laukur
 • gulrætur
 • sellerí
 • sæt kartafla
 • belgbaunir
 • smjör
 • salt
 • pipar
 • grænmetissoð (ég sauð saman tening og vatn)
 • perlubygg

Ég byrjaði á því að taka góða steypta pottinn minn frá Ikea og smurði hann að innan með smjöri. Þá sneiddi ég niður einn lauk og setti helming af honum í botninn á pottinum, þá skar ég niður kartöflur og gulrætur og lagði ofaná laukinn. Þar ofaná kom síðan lambakjötið, salt og pipar og loks setti ég aftur lauk, gulrætur, kartöflur, sellerí og nokkrar belgbaunir sem ég keypti í Kosti.

Þá hellti ég grænmetissoðinu ofaná, lokaði pottinum og setti í 200 gráðu heitan ofn í um klukkutíma. Þá tók ég pottinn út og setti perlubyggið út í soðið en það þarf 15 mínútur í suðutíma.

Og vá hvað þetta var gott – og hollt því ég notaði talsvert mikið meira af grænmeti en kjöti en kjötið er alls ekki slæmur kostur.

Ég er viss um að það væri hrikalega gott múv að setja sýrðan rjóma ofaná réttinn þegar hann er borinn fram en ég setti hann í súpuskál.

Verð ykkur að góðu 🙂

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu