Sushi hrísgrjón

Ég hef haft mikinn áhuga á matargerð, eins og lýðnum er sjálfsagt ljóst. En lengi vel hafði ég enga trú á því að hrár fiskur að hætti Japana, sushi, ætti við mig og mína bragðlauka. Hinni frændi minn, sá mikli listakokkur, hafði hins vegar tvisvar gefið mér þennan rétt og mér féll stax vel við fiskitartar, sashimi og nigri en hins vegar féll maki (rúllurnar með þanginu) mér alls ekki í geð.

Í kvöld reyndi ég í fyrsta sinn að búa til nigri, sem ég kalla kodda, en ég hafði farið á “mini” námskeið hjá Hinna fyrir nokkrum vikum. Ég verð að hrósa mér fyrir árangurinn, þetta er brilljant gott.

Hrísgrjónin eru aðalmálið. Þau þarf að þvo vel og skola þannig að vatnið sem rennur af þeim er tært og flott, svo þarf að láta renna vel af þeim áður en þau fara í pottinn. Þar sem það er búið að skola þau vel þá mælir Hinni með því að hafa hrísgrjón og vatn í jöfnum hlutföllum. Suðan er látin koma upp í pott og eftir að hún hefur komið upp eru þau látin sjóða á lágum hita í 15 mínútur, svo standa þau í pottinum í aðrar 15 mínútur. Á þessum hálftíma verður að gæta þess að falla ekki í þá freistni að opna lokið á pottinum, það hleypir út gufu og kælir suðuna og má bara alls ekki gera.

Á meðan grjónin hitna má blanda saman vökvanum sem hellt er yfir hrísgrjónin þegar þau hafa verið soðin. Í þá blöndu er notað 70 gr. af hrísgrjóna ediki, 25 gr. sykur, 30 gr. af Mirin og 8 gr. af salti. Þetta er allt mælt mjög nákvæmlega, sett í pott og hitað þar til sykurinn er uppleystur. Það má alls ekki sjóða þennan vökva.

Hrísgrjónin eru tekin úr pottinum og sett helst á trébakka eða annan þann bakka sem hefur smávegis barma því nú þarf að hella yfir þau vökvanum sem var búinn til. Nota á trésleif eða tréspaða til að hræra vökvanum saman við en það er alls ekki víst að það þurfi að nota allan vökvann. Hann ætti þó að vera nærri lagi fyrir 500 gr. af hrísgrjónum. Þegar vökvanum er hellt yfir grjónin þarf að gæta þess að þau kólni hratt og vel. Í Japan ku það vera þannig að það stendur jafnvel fólk yfir þessum bökkum með blævængi til að flýta fyrir kólnuninni.

Hvað um það, eftir að grjónin eru tilbúin þvær maður sér virkilega vel um hendurnar, setur vatn í skál vætir lófana og útbýr kodda í hæfilegri stærð. Þá er sett ögn af wasabi á hverja rúllu og loks fiskurinn ofaná. Þetta er borið fram með niðursoðnu engiferi og soyja sósu.

Athugið að sushi á ekki að bera fram kalt, heldur við stofuhita. Það er því rétt að taka það út úr ísskáp ef það hefur verið það a.m.k. 30 mínútum áður en það er borðað.

Verði ykkur að góðu.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu