Ljóta baunasúpan

Af einskærri leti réðist ég í tilraunaeldhús í kvöld. Í hádeginu í dag var boðið uppá þorramat í vinnunni og ég var búin að salta mig í spað svo ég setti í eina holla grænmetissúpu.

En af því að ég hef aldrei gert þessa súpu fyrr og af því að ég vildi prufa eitthvað nýtt (var sko með símann hjá pizzufyrirtækinu hjá mér) þá gramsaði ég smá stund í ísskápnum og efri skápum.

Útkoman varð ljótasta súpa sem ég hef nokkru sinni séð, en hún var ágætlega bragðgóð og þegar mér hefur tekist að finna leið til að gera hana huggulegri útlits mun ég sjálfsagt reyna aftur.

Eftirfarandi hráefni fór í súpuna:

  • laukur, sneiddur
  • púrrulaikur, sneiddur
  • sellerí, skorið í bita
  • hvítkál, sneitt
  • gulrætur, skornar í bita
  • kartöflur afhýddar og skornar í bita
  • nýrnabaunir úr dós
  • kjúklingakraftur
  • vatn

Ég byrjaði á því að svissa laukinn í olíu í potti, setti síðan sellerí og hvítkál með. Þvínæst skolaði ég nýrnabaunirnar og setti síðan í pottinn ásamt vatni þannig að það flaut yfir það sem var komið í pottinn. Þá setti ég gulrætur og kartöflur útí, bætti við örlitlu vatni og setti kjúklingatening í pottinn (1 knorr teningur passar í súpu fyrir 4).

Þvínæst hrærði ég aðeins í pottinum, setti lokið á og leyfði þessu að malla í ca. 15 mínútur.

Þegar ég tók lokið af pottinum brá mér verulega, þetta var sú ljótasta súpa sem ég hef augum litið og var komin með númerið hjá pizzuframleiðandanum í hugann en ákvað engu að síður að smakka og viti menn, þetta var prýðilega góð súpa.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu