Katalónskur saltfiskréttur

Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fv. bæjarstjóri á Ísafirði sendi mér þennan rétt. Hann segir eftirfarandi um réttinn:

Sérstakt bragð er af þessum saltfiskrétti. Samspil saltfisks, beikons og rósmaríns er mjög gott og hentar því vel að drekka bragðmikið rauðvín með réttinum. (Fyrir þá sem vilja drekka vín með slíkum rétti. Hvítvín er auðvitað gott líka en þetta byggir vitanlega á smekk hvers og eins).

Hægt er að setja rósmaríngreinarnar út í og taka þær svo úr áður en rétturinn er settur í ofninn. Ég hef ekki gert það og ekki fundið að þær fari í taugarnar á fólki þó þær fari til hliðar á disknum. Sumir klippa rósmarínið smátt og láta það fara með.

Mig grunar reyndar að landsliðskokkurinn Hafliði Halldórsson, bróðir Halldórs, hafi haft hönd í bagga þegar þessi réttur var útbúinn.

Katalónskur saltfiskréttur

fyrir 4-6

  • 800 g saltfiskur, útvatnaður og beinhreinsaður
  • ½ dl. hveiti
  • 3 msk. jómfrúarolía
  • 75 g beikon, skorið í fína strimla
  • 1-2 laukar, saxaðir
  • 6-12 hvítlauksgeirar, skornir í sneiðar
  • 1 kvistur ferskt rósmarín
  • ½ rauð paprika, skorin í sneiðar (litlar)
  • ½ græn paprika, skorin í sneiðar (litlar)
  • 1 dl. rauðvín
  • 3 dl. fisksoð (fiskteningar)
  • 6 tómatar
  • 100 g möndluspænir
  • nýmalað salt og svartur pipar

Skerið saltfiskinn í jafna bita. Veltið honum upp úr hveitinu (fínt að setja hveitið og fiskinn í plastpoka og losna þannig við óhreina fingur) og steikið á viðloðunarfrírri pönnu í mjög heitri ólífuolíunni (jómfrúarolíunni). Látið saltfiskstykkin á fat og kryddið með svörtum pipar (rétt að dusta yfir).

Steikið því næst beikonið, laukinn, hvítlaukinn og paprikurnar í ólífuolíunni í

Bætið rósmarínlaufunum og rauðvíninu saman við, látið suðuna koma upp og hellið þá fisksoðinu út í. Látið nú allt sjóða saman í u.þ.b. 10 mínútur.

Skerið tómatana í tvennt og fjarlægið kjarnann með skeið. Skerið tómatkjötið í litla teninga. Þurristið möndluspænina (t.d. á pönnu) og malið þá í matvinnsluvél (eða bara í könnu með skeið, það er alveg nóg). Þegar sósan er soðin er tómatbitunum og möndlunum bætt út í. Ristaðar möndlurnar þykkja sósuna, jafnframt því að gefa gott bragð.

Saltið og piprið eftir smekk. Það er hægt að mauka alla sósuna í matvinnsluvél en hún er betri (finnst mér) aðeins grófari og kornóttari með bitunum í.

Setið sósuna í eldfast mót og raðið saltfiskstykkjunum ofan á. Setjið mótið í 200° C heitan ofn í nokkrar mínútur og berið svo fram, e.t.v. með góðri kartöflumús, fersku salati og brauði.

Verði ykkur að góðu.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu