All posts by Ingibjörg Hinriksdottir

Dollý hefur talað


Frá árinu 2006 hefur Dulfríður Jósefína Hansdóttir spáð fyrir íslenskri þjóð, menningu og samfélagi. Hún segir sjálf að hún sé besta spákona á Íslandi og hafi óþolandi mikið af gáfum í heilabúi sínu. Það þurfi hún að virkja með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum og um hver áramót þurfi hún að siða Íslendinga til vegna komandi árs. Dollý hefur m.a. sagt að sumir geti hreinlega sleppt árinu því hún sé strax búin að kjafta því sem er þess virði að vita að muni gerast á næsta ári.

Skráðu hjá þér dagsetninguna 28. maí – þá mun verða stórfenglegur viðburður sem heimsbyggðin mun taka eftir. Líklega mun Karl bretaprins loksins taka við sem konungur eftir að foreldrar hans munu skilja við þetta jarðlíf með skömmu millibili. Elísabet mun sakna Filipusar svo mikið þegar hann kveður að hún mun ekki á heilli sér taka. Hún hafði þó vonað að hún myndi lifa son sinn en henni verður ekki kápan úr því klæðinu. En Karl mun ekki ríkja lengi, hann fer á fund feðra sinna í október og þá tekur Vilhjálmur við og hann mun ríkja langt fram að næstu öld … ekki alveg inn í 22. öldina en langleiðina.

Dollý spáir fyrir árinu 2020

Lestu meira um árið 2020.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Einu sinni VAR

Það er varla annað hægt en að byrja á því að byrja forláts á því að stinga niður penna eftir að hafa haft mig hæga í allmörg ár. En það lifir lengi í gömlum glæðum og nú þegar Heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu er ný lokið er ekki annað hægt en ydda blýantinn og pára þættinum bréf.

Fyrir rúmum átta árum skrifaði ég grein hér á fótbolta.net sem bar fyrirsögnina Mikilvægustu þátttakendur leiksins. Þar gerði ég knattspyrnudómara að umtalsefni og þótti miður að það væri aldrei neinn sem héldi með þeim. Fyrir átta árum skrifaði ég: „Dómarar eru einn mikilvægasti þáttur þess að gera knattspyrnuna að þeirri vinsælu íþrótt sem hún er.“ Það er enda rétt að það væri enginn fótboltaleikur ef ekki væri dómari til að tryggja að allir fari eftir reglum leiksins. En dómarar, líkt og aðrir mannlegir menn eiga það á hættu að gera mistök. Það kom því ekki á óvart að FIFA ákvað að taka upp svokallaða marklínutækni til að meta hvort knötturinn væri innan eða utan marklínu. Svo fóru að koma kröfur um allskonar aðrar tæknibrellur sem áttu að létta dómurunum lífið, meðal annars hin svokallaða VAR (Video Assistance Referee) tækni. Á vef FIFA kemur fram að VAR tækninni er fyrst og síðast ætlað að ákvarða:

  • hvort mark hafi verið skorað
  • hvort dæma skuli vítaspyrnu
  • hvort vísa skuli leikmanni af velli
  • hvort réttur leikmaður hafi fengið refsingu

Eftir að hafa horft á allmarga leiki á HM kvenna þá verð ég að segja að ég er hugsi yfir þessari tækni allri og það jafnvel þó ég hafi fengið það staðfest sem ég sagði fyrir átta árum að hlutverk dómara sé að hvorki sjást né heyrast. Er samt ekki fulllangt gengið að loka þá inni í búri, í dómara búningi. Ég held það!

Það fer alltof mikill tími í VAR, nánast undantekningalaust var uppbótartíminn í riðlakeppninni 7 mínútur í hvorum hálfleik. Leiktíminn lengdist úr því að vera 90 mínútur í 104. Takturinn var með þessu tekinn úr leiknum, ábyrgð dómarans á vellinum minnkuð og þrjár huldukonur sáu um dómgæslu. Hvað verður langt þangað til að hljóðnemi verður settur á alla leikmenn svo dómarinn geti dæmt um það hvort einhver leikmaðurinn kallar annan niðrandi nafni eða hefur í frammi kynþáttafordóma? Er það ekki örugglega næst?

Það er óhætt að segja að ég er ekki hrifin af þessum breytingum, hreint ekki. En tæknin hefur án efa létt líf og starf dómarnana, núna þarf bara að koma böndum á tæknina. Hvað segir þú t.d. um að þjálfarar, sem þess vegna geta haft aðstoðarmenn klædda liðsbúningum í stúdíói, hafi 2 möguleika á VAR dómgæslu í leiknum? Er það ekki bara nóg? Leyfum dómurunum áfram að hafa áhrif á leikinn og gera okkur brjáluð öðru hvoru.  Án þeirra væri leikurinn ekki næstum því eins skemmtilegur.

Pistillinn birtist á vefnum fotbolti.net eftir HM kvenna 2019

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Dómarinn Stefán Karl

Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi annarra knattspyrnuliða en Breiðabliks. Jú Arsenal hefur stundum staðið hjarta mínu nær, þó það félag nálgist ekki þá ástríðu sem ég hef fyrir Blikunum. En maður verður víst að halda með einhverju liðið í Englandi og þar valdi ég Arsenal. Þeir byrja a.m.k. hvert tímabil á toppnum.

Hér heima lagði ég þó um stund land undir fót og hélt á Hvaleyrarholtið og síðar Áslandið til að horfa á annað félag í rauðum búningum, Hauka. Sá ágæti klúbbur, sem af örlítið hrokafullum nágrönnum sínum hefur verið kallaður litli bróðir eða systir, hefur að mínu viti alið af sér tvo sérstaklega minnisstæða einstaklinga. Annar er Sara Björk Gunnarsdóttir, besta knattspyrnukona Íslands og jafnvel víðar, og hinn er Stefán Karl Stefánsson leikari.

„Nei nú er Ingó búin að missa það, Haukar „ala af sér Stefán Karl“ núna er hún alveg búin á því“, það hugsar þetta sjálfsagt einhver, en mér er fúlasta alvara. Því þegar ég lagði land undir fót og gerði mér sérstakar ferðir til að horfa á Haukana þá var Sara Björk ennþá í vagni eða sparkandi bolta í leikskólanum, en þar var hins vegar einn al skemmtilegasti knattspyrnudómari landsins, Stefán Karl. Það var óborganlegt og svo gjörsamlega ógleymanlegt að horfa á hann, hvort sem hann var inni á vellinum sem dómari eða á línunni. Hann stjórnaði leiknum alltaf eins og lögregluþjónn. Allar hreyfingar voru ýktar eins og mögulegt var, flagginu var aldrei lyft beint upp. Það mátti stundum halda að Stefán væri að skrifa rangstaða með flagginu. Oftar en ekki fylgdi líka með hátt og snjallt frá drengnum, „Raaaangstaaaaðaaaa“ um leið og hann lyfti flagginu. Menn mótmæltu ekki dómum hans enda var mótmælum svarað fullum hálsi með rökum, þannig að menn lágu í hláturskasti á eftir. Það var ekki hægt að rífast við dómarann Stefán Karl.

Mér, sem bar þá von í brjósti að verða afbragðs dómari, fannst þessi drengur vera óttalegt fífl. En mér fannst skemmtilegt að fylgjast með honum og gott ef ég reyndi ekki nokkrum sinnum að herma eftir honum, með afskaplega slæmum árangri.

Stefán Karl átti síðar eftir að verða þjóðargersemi. Hans verður minnst sem afbragðs leikara um mörg komandi ár. Hjá mér hefur þó leikarinn Stefán Karl aldrei náð að yfirskyggja dómarann. Þannig mun ég minnast hans – og brosa.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Skrifum okkar eigin sögu

Í morgun rak ég augun í bók nokkra sem gefin var út árið 2012 og nefnist Íþróttabókin. ÍSÍ – Saga og samfélag í 100 ár en bókin var gefin út í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ árið 2012. Þetta er gríðarlega efnismikil bók, 520 síður sem eru fylltar af texta og myndum af 100 ára ferli.

Nú er það svo að ég hef frá áttunda áratugnum haft áhuga á og skipt mér talsvert af knattspyrnu kvenna. Mestmegnis hef ég starfað fyrir félagið mitt Breiðablik en einnig kom ég að stofnun ÍK árið 1976, setið í kvennanefnd KSÍ (fyrst árið 1986) og í stjórn KSÍ í átta ár frá 2002-2010. Einnig hef ég frá árinu 1985 skrifað talsvert um íþróttir kvenna í Þjóðviljann, DV og Morgunblaðið og einhverja aðra fjölmiðla. Ég tel mig því vera nokkuð vel að mér í sögu knattspyrnu kvenna.

Þegar ég sá bókina vakti hún eðlilega áhuga minn og ég blaðaði í gegnum hana. Í sjálfhverfu minni leitaði ég þó fyrst að mínu eigin nafni og fann mynd af mér og frásögn sem ég skrifaði á bloggið mitt af upplifun minni þegar strákarnir okkar unnu til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Bejing árið 2008. Það var mögnuð stund og öllum ógleymanleg.

En svo hætti ég nú að dást að sjálfri mér og fór að leita að alvöru íþróttahetjum knattspyrnunnar s.s. Rósu Áslaugu Valdimarsdóttur, fyrsta fyrirliða kvennalandsliðsins í knattspyrnu, Ástu B. Gunnlaugsdóttur, Ástu Maríu Reynisdóttur, Bryndísi Einarsdóttur, Edda Garðarsdóttir, Guðrúnu Sæmundsdóttur, Guðríði Guðjónsdóttur, Margréti Rannveigu Ólafsdóttur, Rakel Ögmundsdóttir, Erlu Hendriksdóttur, Helenu Ólafsdóttur og Vöndu Sigurgeirsdóttur, en tvær hinar síðastnefndu þjálfuðu A-landslið kvenna fyrir árið 2012. Landsliðsþjálfararnir Logi Ólafsson og Jörundur Áki Sveinsson, sem báðir tóku tvisvar við þjálfun kvennalandsliðsins er heldur að engu getið.

Meira að segja Katrínar Jónsdóttur er aðeins getið þegar rætt var um laun leikmanna og afkomumöguleika þeirra. Hvergi er þess getið að hún hafi verið fyrsti leikmaðurinn til að ná 100 landsleikjum. Ég man það ekki í fljótu bragði hvenær hún rauf 100 leikja múrinn en hún lauk ferli sínum árið 2013 og hafði þá leikið 133 landsleiki svo það hefur líkast til verið árið 2009-2011 eða innan þess tímaramma sem bókin fjallar um.

Þó ég hafi glaðst í hjarta mínu þegar ég sá nafn mitt í bókinni þá lokaði ég henni með döprum huga vegna þeirra fjölda íþróttakvenna sem í engu er getið þrátt fyrir þeirra miklu afrek í íþróttasögunni.

Einn þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu sagði einhvern tímann að menn þyrftu að „skrifa sína eigin sögu“. Það hefur greinilega tekist.

Umrædd tilvitnun í Íþróttabókinni.

 

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Atli Heiðar Þórsson – Minning

Farðu í friði góði vinur
þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný. (Magnús Eiríksson)
 Atli Þórsson var vinur minn. Hann var vandaður maður og fór ekki í manngreinarálit. Hann var ekki maður margra orða þó hann hafi sannarlega haft skarpar og skýrar skoðanir á hlutunum og lét ekki sitt eftir liggja í rökræðum um hin ýmsu málefni. Hann var málafylgjumaður og ef hann batt tryggð sína við eitthvert málefni þá máttir þú vita að hann myndi verja þann málstað. Hann var Bliki fram í fingurgóma, var fórnfús og taldi ekki eftir sér að leggja fram vinnustundir til félagsins síns þegar þess var óskað. Breytti þá engu hvort um var að ræða að vinna á Gull- og Silfurmótinu eða vera í meistaraflokksráði karla eða kvenna. Hann vann jafnt fyrir alla.
Þær eru ófáar veislurnar sem við Atli sóttum bæði og bera tvær þeirra hæst. Annars vegar uppskeruhátíð knattspyrnudeildar Breiðabliks þar sem við Atli stigum „brúðardans“ með miklum stæl. Hitt var partýið sem stóð í sólarhring og Atli var fremstur meðal jafningja þegar vinirnir tóku atriði úr kvikmyndinni Full Mounty. Þetta eru stundir sem eru algjörlega ógleymanlegar þeim sem voru viðstaddir.
Það var aldrei neitt vesen á Atla og það var svo sem alveg dæmigert af honum að kveðja eins og hann gerir nú. Skyndilega og án fyrirvara. Atla Heiðars Þórssonar verður saknað. Minning hans lifir.
Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

#MeToo kvenna í tækni- upplýsinga og hugbúnaðargeira

Hér að aftan eru frásagnir kvenna í tækniog
hugbúnaðariðnaði
1. Ég sagði starfi mínu lausu hjá síðasta fyrirtæki sem ég vann hjá eftir að hafa heyrt af því
að minn næsti yfirmaður á að hafa áreitt tvær konur í fyrirtækinu kynferðislega. Continue reading #MeToo kvenna í tækni- upplýsinga og hugbúnaðargeira

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu