Dómarinn Stefán Karl

Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi annarra knattspyrnuliða en Breiðabliks. Jú Arsenal hefur stundum staðið hjarta mínu nær, þó það félag nálgist ekki þá ástríðu sem ég hef fyrir Blikunum. En maður verður víst að halda með einhverju liðið í Englandi og þar valdi ég Arsenal. Þeir byrja a.m.k. hvert tímabil á toppnum.

Hér heima lagði ég þó um stund land undir fót og hélt á Hvaleyrarholtið og síðar Áslandið til að horfa á annað félag í rauðum búningum, Hauka. Sá ágæti klúbbur, sem af örlítið hrokafullum nágrönnum sínum hefur verið kallaður litli bróðir eða systir, hefur að mínu viti alið af sér tvo sérstaklega minnisstæða einstaklinga. Annar er Sara Björk Gunnarsdóttir, besta knattspyrnukona Íslands og jafnvel víðar, og hinn er Stefán Karl Stefánsson leikari.

„Nei nú er Ingó búin að missa það, Haukar „ala af sér Stefán Karl“ núna er hún alveg búin á því“, það hugsar þetta sjálfsagt einhver, en mér er fúlasta alvara. Því þegar ég lagði land undir fót og gerði mér sérstakar ferðir til að horfa á Haukana þá var Sara Björk ennþá í vagni eða sparkandi bolta í leikskólanum, en þar var hins vegar einn al skemmtilegasti knattspyrnudómari landsins, Stefán Karl. Það var óborganlegt og svo gjörsamlega ógleymanlegt að horfa á hann, hvort sem hann var inni á vellinum sem dómari eða á línunni. Hann stjórnaði leiknum alltaf eins og lögregluþjónn. Allar hreyfingar voru ýktar eins og mögulegt var, flagginu var aldrei lyft beint upp. Það mátti stundum halda að Stefán væri að skrifa rangstaða með flagginu. Oftar en ekki fylgdi líka með hátt og snjallt frá drengnum, „Raaaangstaaaaðaaaa“ um leið og hann lyfti flagginu. Menn mótmæltu ekki dómum hans enda var mótmælum svarað fullum hálsi með rökum, þannig að menn lágu í hláturskasti á eftir. Það var ekki hægt að rífast við dómarann Stefán Karl.

Mér, sem bar þá von í brjósti að verða afbragðs dómari, fannst þessi drengur vera óttalegt fífl. En mér fannst skemmtilegt að fylgjast með honum og gott ef ég reyndi ekki nokkrum sinnum að herma eftir honum, með afskaplega slæmum árangri.

Stefán Karl átti síðar eftir að verða þjóðargersemi. Hans verður minnst sem afbragðs leikara um mörg komandi ár. Hjá mér hefur þó leikarinn Stefán Karl aldrei náð að yfirskyggja dómarann. Þannig mun ég minnast hans – og brosa.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu