Erindi um knattspyrnu kvenna

Blikar1979Komið þið sæl,

Þegar Geir hringdi í mig og bað mig um að ræða við ykkur um framgang knattspyrnu kvenna í Breiðabliki var það mér mikill heiður og sómi að þekkjast boðið. Það hefur enda var það mitt aðal áhugamál í rúm 30 ár að fylgjast með fótboltastelpunum okkar, dæma, skipta mér af og rífa dálítið kjaft í leiðinni. En fótbolta hef ég lítið sem ekkert æft – svo það sé nú alveg á hreinu! Þó ég sé komin yfir miðjan aldur þá hef ég ekki fylgt Blikastelpunum allt frá byrjun, þar þarf að ræða við mér eldri konur, s.s. Rósu Valdimarsdóttur dóttur Valda vallarvarðar eða Arndísi Sigurgeirsdóttur í Iðu bókabúð svo einhverjar séu nefndar.

En hvernig byrjaði þetta allt?

Jú eins og mörgum er kunnugt þá var fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu haldið árið 1912 en það var ekki fyrr en 60 árum síðar, árið 1972, sem Íslandsmóti fyrir konur var komið á fót. En nokkru fyrir þann tíma höfðu stelpur leikið knattspyrnu á Íslandi. Heimildir eru þó af skornum skammti en í blaðagrein sem birtist í Tímanum 10. september 1968 segir frá knattspyrnukappleik í Kópavogi.

Greinin er rituð í góðlátlegum stíl undir fyrirsögninni „Við getum líka …“ en í greininni segir m.a.: „Já auðvitað geta stúlkurnar leikið knattspyrnu eins og piltar. Það sýndu þessar ungu Kópavogsstúlkur okkur á sunnudaginn, en þá fór fram keppni milli tveggja kvennaliða í Kópavogi. Að vísu voru hreyfingarnar stundum viðvaningslegar, en æfingin skapar meistarann.

Já auðvitað geta stúlkurnar leikið knattspyrnu, það áttu Blikastelpurnar svo sannarlega eftir að sýna á næstu árum og áratugum.

Knattspyrna kvenna á heimsvísu

Til að við áttum okkur betur á því hver staða knattspyrnu kvenna var á Íslandi á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar er nauðsynlegt að við kynnum okkur aðeins hvernig staðið var að málum á heimsvísu. FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, sendi út fyrirspurn til aðildarríkja sinna um hversu margar þjóðir viðurkenndu knattspyrnu kvenna árið 1970. Ég gef mér að það hafi verið einhver pressa á FIFA vegna þessa fyrst þeir sjá ástæðu til að senda út fyrirspurnina og það kemur heim og saman við sögu knattspyrnu kvenna í Englandi, til dæmis.

Þar í landi, sem margir kalla heimkynni knattspyrnunnar, er einna lengst hefð fyrir knattspyrnu. En saga kvenna í knattspyrnu er ansi merkileg í Englandi því þar tóku konurnar við keflinu á meðan á fyrri heimstyrjöldinni stóð og fylltu hvern leikvöllinn á fætur öðrum. Fyrsti landsleikurinn milli kvennaliða fór fram árið 1881, milli Englands og Skotlands, og fyrsti landsleikur utan Englands fór fram árið 1920 milli Englands og Frakklands. Sem dæmi um vinsældir kvennaleikjanna þá mættu 52.000 manns á Goodison Park á annan dag jóla árið 1920 til að horfa á leik Dick, Kerr’s Ladies og Preston. Og það sem meira er að skv. sögum frá þeim tíma þá þurftu 10-15 þúsund manns frá að hverfa þar sem þeir komust ekki inn á leikvanginn. En eftir að stríðinu lauk þá vildu strákarnir fá sinn sess á ný og árið 1921 var konum bannað að leika knattspyrnu í Englandi og Skotlandi.

Konur vs hermenn

Já það var ástæða fyrir FIFA að senda út fyrirspurn til aðildarþjóða sinna um stöðu knattspyrnu kvenna. Það kemur kannski ekki á óvart að aðeins 12 aðildarríki viðurkenndu knattspyrnu kvenna (Alsír, Suður-Afríka, Formósa, Singapore, Thailand, Guatemala, Jamaica, Frakkland, Vestur-Þýskaland, Svíþjóð og Wales. Að auki var knattspyrna leikin í 21 landi, án þess að vera viðurkennd af viðkomandi knattspyrnusambandi, þar á meðal í Danmörku, Brasilíu, Englandi, Skotlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum.

Albert Guðmundsson, þáverandi formaður KSÍ, var víðförull maður og áhugasamur um samfélagsmál og hann, umfram aðra, beitti sér fyrir því að efnt væri til Íslandsmóts fyrir konur og var fyrsta Íslandsmótið haldið, eins og ég sagði áðan árið 1972. Fyrsti opinberi leikurinn fór þó fram á Laugardalsvelli 20. júlí 1970 þegar lið frá Reykjavík og Keflavík mættust fyrir landsleik Íslands og Noregs. Leikið var í 2×10 mínútur og sennilega hefur einhverjum þótt það vera nægilegt álag á stúlkurnar.

Það þótti heldur ekki vera sérlega kvenlegt að stúlkur væru í knattspyrnu. Þjóðviljinn gerir knattspyrnu kvenna að umtalsefni 9. apríl 1970 og segir að til greina komi að stofna kvennaknattspyrnu á Íslandi. Í greininni segir „Augnayndi gæti það nú orðið íslenzkum knattspyrnuunnendum, sem flestir eru af sterkara kyninu, að fá að sjá fallegar stúlkur leika knattspyrnu og þarf varla að efa að hún yrði vinsæl íþróttagrein hér á landi

Fronsk mynd

Já auðvitað verður þetta augnayndi og það voru stelpurnar svo sannarlega. En það var byrjað smátt og fyrsta opinbera Íslandsmótið þar sem konur tóku þátt var innanhúss um páskana 1971. Breiðablik gleymdi að tilkynna um lið í mótið!

Já snúum okkur aftur að Breiðabliki.

Breiðablik er eina félagið sem hefur tekið þátt í Íslandsmótinu utanhúss frá upphafi. Okkar stelpur riðu þó ekki feitum hesti frá fyrsta Íslandsmótinu. Leikið var í tveimur riðlum og var Breiðablik í A-riði. Leikin var einföld umferð og í fyrsta leik tapaði Breiðablik 3-2 gegn Fram. Það vill svo vel til að við þekkjum nöfn flestra leikmanna sem tóku þátt í þessum fyrsta leik þrátt fyrir að leikskýrslan sé töpuð.

Breidablik - fyrsti leikur

Efri röð frá vinstri: Dóra Vilhelmsdóttir, Anna María Þórðardóttir (systir Gvendar Þórðar þjálfara), Rósa Valdimarsdóttir, Þorbjörg Erlingsdóttir, ?, Sigurbjörg Ernudóttir, Ingibjörg Halldórsdóttir og Ægir Guðmundsson þjálfari. Neðri röð frá vinstri: Maggý, Guðlaug Þráinsdóttir, Matthildur Ernudóttir, Anna Margrét Ingólfsdóttir, Bryndís Einarsdóttir og Guðný Pétursdóttir.

Rósa Valdimarsdóttir, dóttir Valda heitins vallarvarðar og hennar fjölskylda öll, er hafsjór af fróðleik um upphaf kvennafótboltans í Kópavogi. Það vill svo vel til að ég á í fórum mínum lýsingu Rósu frá upphafsárunum og ætla ég að vitna til hennar öðru hvoru í erindi mínu.

Sumarið 1970 fóru að koma út á Vallargerðisvöll hópur af stelpum til að leika sér í fótbolta. Við fengum lánaðan bolta hjá Valda föður mínum. Þarna fórum við að mæta einu sinni í viku um sumarið, en sumar okkar nánast bjuggum úti á Vallargerði.

Eins og gengur þá tók fólk misvel í þessar æfingar og Rósa segir að innan félagsins hafi þeim verið misvel tekið. Þeirra helsti talsmaður var Annar María Þórðardóttir og hún sá um að stappa stálinu í stelpurnar og hvetja þær til dáða. En mótspyrnan var mikil og m.a. sá þáverandi þjálfari meistaraflokks karla því allt til foráttu að stelpurnar fengju eina æfingu á viku og átti hann það til að boða strákana á æfingu á sama tíma og urðu stelpurnar þá að víkja. Hann hætti ekki fyrr en stelpurnar settust á völlinn eitt skiptið og buðu strákunum að bera sig út af vellinum eða bíða eftir þeirra æfingatíma.

Fyrsti þjálfari stelpnanna var Guðmundur Þórðarson, sem síðar varð fyrsti landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu. En á fyrsta Íslandsmótinu, 1972, stýrði Ægir Guðmundsson Blikastelpunum. Engum sögum fer af því í hvaða keppnisbúningum stelpurnar voru fyrstu tvö árin en þær fengu ekki sitt eigið keppnissett fyrr en tveimur árum síðar, en það færði Bókabúðin VEDA stelpunum.

Fyrsti Íslandsmeistaratitillinn kom árið 1976, þegar stelpurnar fögnuðu sigri á Íslandsmótinu innanhúss og árið eftir kom fyrsti titillinn utanhúss. En þá hafði líka bæst í hópinn Ásta nokkur Breiðfjörð Gunnlaugsdóttur, sem kom með mér hingað í dag, Ásta B.

Rósa segir í lýsingu sinni að Ásta hafi byrjað ferilinn sem hafsent en í fyrsta leik hennar, sem var gegn Fram, hafi minnstu mátt muna að hún skoraði sjálfsmark og var hún því flutt framar á völlinn og varð einn okkar besti framherji fyrr og síðar. Frá þessum tíma hafa titlar Breiðabliks orðið fjölmargir, ekkert lið hefur unnið Íslandsmótið jafnoft, 15 sinnum.

Stærsti sigurinn

Að mínu mati er stærstu árin í sögu kvennaboltans innan Breiðabliks árin 1982 og 1996. Þessi tvö ár eiga það sameiginlegt að liðið tapaði ekki leik hér á landi. Breiðablik vann tvöfalt árin 1981-1983 en þá liðu tæp fimm ár milli þess sem liðið tapaði leik á Íslandsmóti. Þær töpuðu gegn Val 13. júlí 1979 og síðan ekki söguna meir fyrr en þær lutu í gras gegn ÍA 7. júní 1984.

En stærstu árin voru líklega frá 1993-1997 þegar Breiðablik tapaði ekki leik á Íslandsmóti í fimm ár. Þær töpuðu gegn Val 26. júní 1993 en næsti ósigur kom 5. júní 1998 gegn KR. Árið 1996 var algjörlega einstakt en þá unnu stelpurnar okkar allt sem hægt var að vinna og sigruðu Íslandsmótið með fáheyrðum yfirburðum, skoruðu 79 mörk en fengu aðeins 3 mörk á sig. Þetta afrek verður aldrei jafnað eða slegið enda var á þessum tíma 8 liða deild og stelpurnar skoruðu þessi 79 mörk í 14 leikjum eða 5,6 mörk að meðaltali í leik.

Vörn og sókn

En þó Breiðablik sé sannarlega sigursælasta lið allra tíma í kvennaboltanum þá hefur líf stelpnanna ekki alltaf verið dans á rósum. Í raun er hægt að skipta árangrinum upp í nokkur tímabil þar sem árin 1970-1976 voru upphafsárin. 1977-1983 fyrra gullaldartímabil með 6 meistaratitlum, 1983-1989 mögru árin (þar sem stelpurnar okkar féllu úr deildinni árið 1987 en komu fílefldar til baka tveimur árum síðar), 1990-1996 seinna gullaldartímabilið þar sem við lönduðum aftur 6 meistaratitlum. En frá þeim tíma hefur gengið á ýmsu og stelpurnar aðeins orðið meistarar þrisvar sinnum á síðustu 17 árum. Þykir okkur sem höfum fylgst með stelpunum allan þennan tíma nóg um og viljum fara snúa vörn í sókn.

Baráttan

En ég þykist vita að kveikjan að því að fá mig hingað hafi ekki aðeins verið sú að ræða um Breiðabliksstelpurnar heldur líka það sem ég sagði frá í viðtali í Kópavogsblaðinu fyrr í sumar, þar sem stóra grastakkamálið bar á góma, – glæra – þá langar mig að ljúka þessu spjalli mínu á því að segja ykkur frá baráttu Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna, HKK, sem stofnuð voru við upphaf síðari gullaldartímabilsins, árið 1990. Tvær meginástæður voru fyrir því að HKK var stofnað. Önnur var sú að KSÍ ákvað að leggja niður kvennalandsliðið og hin var sú að knattspyrnusambandið samþykkti ályktun sem kvað á um það að öllum nema meistaraflokki karla yrði bannað að leika á grastakkaskóm í opinberum leikjum.

Að auki var það markmið HKK að auka veg og vanda kvenna í knattspyrnu, m.a. með því að fá fjölmiðla til að fjalla meira og betur um stelpurnar. En stóra grastakkamálið var okkar stóra mál þann tíma sem HKK lifði, en samtökin hafa þó ekki enn verið formlega lögð niður þó ekki hafi verið fundað þar frá árinu 1997. Ekki þarf að fjölyrða um það að við höfðum sigur í grastakkamálinu enda var knattspyrnusambandið ekki aðeins að brjóta á stelpunum með þessari reglugerð heldur var einnig verið að brjóta lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislögin.

Meðal stjórnarmanna í HKK var Kristrún nokkur Heimisdóttir sem lék með meistaraflokki KR á sínum tíma. Orð hennar um afstöðuna til knattspyrnukvenna á síðustu öld eru gullvæg í huga okkar sem stóðum í eldlínunni. En í ársskýrslu HKK 1991 segir hún:

Þá er þess enn ógetið að síðastliðið vor freistaði stjórn Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna þess að fá fyrirtæki til að styrkja fyrstu deild Íslandsmótsins, með öðrum orðum að selja fyrstu deildina. Mér er minnisstætt samtal sem við áttum við markaðsstjóra Coca Cola á Íslandi. Eftir að hafa hlustað á það sem við höfðum að segja, hallaði hann sér fram á kókborðið sitt, otaði að okkur kókblýantinum sínum og sagði við okkur „Coca Cola er virtasta vörumerki heims. Hjá okkur er það grundvallarregla að tengja nafn okkar engu öðru en því sem hefur sannað sig og þykir flott. Coca Cola og kvennafótbolti eiga enga samleið.““

Sem betur fer hefur þessi afstaða breyst og svo skemmtilega vill til að Íslandsmótin í knattspyrnu er nú kallað Pepsi-deildin.

Ég þakka áheyrnina.

Erindi þetta var flutt á hádegisverðarfundi
RótarýklúbbsKópavogs þriðjudaginn 26. ágúst 2014.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu