Að afloknum kosningum

Sveitarstjórnarkosningar fyrir kjörtímabilið 2014-2018 fóru fram í gær. Eins og gefur að skilja voru úrslitin á alla vegu, sumir voru ánægðir, aðrir ekki og allir hafa skoðun á niðurstöðunum. Sjálf hefði ég viljað sjá betri niðurstöðu, sérstaklega í Kópavogi. Mitt fólk í Samflylkingunni tapaði manni og meirihlutaflokkarnir, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur
héldu velli og Kópavogslistinn rann inní íhaldið.

Aðal niðurstaða kosninganna er þó sú staðreynd að aldrei áður hafa jafn fáir nýtt atkvæðisrétt sinn. Það er áhyggjuefni í sjálfu sér en ástæðan er þó fyrirliggjandi.

Áherslur flokkanna eru alltof líkar. Ef einn boðaði aukin útgjöld í íþróttastyrki, gerðu hinir flokkarnir það líka. Ef einhver vildi bæta þjónustu við aldraða sögðu hinir flokkarnir að þeir vildu líka gera það. Í raun var sama og ekkert sem skildi að þau 8 framboð sem komu fram í Kópavogi, nema fólkið.

Ungt fólk, sem er vant því að geta gert alla skapaða hluti í gegnum tölvu, nennti ekki að mæta á kjörstað. Þeim finnst það tímasóun. Enda hefur margt af ungu fólki ekki áhuga á að kynna sér stefnumál flokkanna, hvað þá meira. Niðurstaðan er sú að unga fólkið vill láta hugsa fyrir sig, að gera það sjálfur er of mikil áreynsla.

Þeir eldri, sem eru á kafi í stjórnmálunum, verða að fara að hugsa út fyrir boxið. Ná til grasrótarinnar og komast út úr þeirri sápukúlu sem menn eru í. Fyrst og síðast þurfa menn þó að fara að tala mannamál, tala þannig að menn skilji hvað um er rætt og hætti þessu endalausa blaðri um ekki neitt. Stjórnmálamenn eiga það nefnilega til að telja sig vera í Frúnni í Hamborg, þar sem ekki má segja já, nei, svart eða hvítt. Menn verða að fara að girða sig í brók og taka afstöðu. Það gerði frúin í Framsóknarflokknum og uppskar tvo
borgarfulltrúa þrátt fyrir að hávær minnihluti gerði allt sem hægt var til að sverta hana og mannorð hennar og skoðanir. Þær trakteringar duga ekki lengur.

Stjórnmálamenn þurfa að koma sér uppúr hjólförunum!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu