Hrákexið mitt úr græna hratinu

Ég er æ oftar farin að búa mér til grænan hollustudrykk sem ég tek með mér í vinnuna á morgnana og sötra yfir daginn. Á einu af dásemdarnámskeiðunum sem ég fór á hjá www.fyrirmig.com sýndi Jóna Rut okkur hvernig ætti að búa til hrákex úr hrati. Við fengum ekki uppskrift en grunnurinn var hratið úr græna drykknum, eða öðrum drykkjum sem fara í gegnum safapressu, fræ og krydd.

Í græna drykkinn minn nota ég yfirleitt, spínat/grænkál, gulrót, grænt epli, 1/2 agúrku, 1/2 lime, engiferrót og stundum nota ég sellerí líka.

Eins og einhverjum er kunnugt þá finnst mér ákaflega skemmtilegt að gera tilraunir í eldhúsinu og ég var ekki lengi að leggja í þetta kex. Fyrstu skiptin voru ágæt en mér tókst ekki vel að þurrka kexið, enda bætt ég ýmsu í það sem þarf að baka en ekki þurrka, s.s. banana og eggi. En fljótlega tókst mér að fullkomna uppskriftina, að mínu mati, og læt ég hana fylgja hér með.

Innihald:

  • Hrat úr einum til tveimur skömmtum af grænum safa
  • 1dl. hörfræ
  • 1/2 dl. graskersfræ
  • 1/2 dl. sólblómafræ
  • 1/4 dl. sesamfræ (ef vill)
  • 1 dl. glúteinfrítt haframjöl
  • 2-3 tsk kóriander frá Himneskri hollustu
  • 1-2 tsk cumin
  • 1/2-1 tsk himmalajasalt
  • 2 tsk tahini
  • 1/2 dl. gojiber
  • 1/2 dl. rúsínur (má sleppa)

Aðferð:

Fræin eru lögð í bleyti í ca. 2-3 dl. af vatni í u.þ.b. 30 mínútur

Þá er öllu blandað saman í matvinnsluvél eða öflugum blandara.

Smurt á eldhúspappír sem hefur verið lagður á ofnskúffu, ca. 3-5 mm á þykkt. Sneiðar mótaðar í deigið og skúffan síðan sett í ca. 70-80°C heitan ofn til þurrkunar í 5-8 tíma. Gætið þess að hafa ofninn hálf opinn þannig að rakinn nái að fara út. Ég er ekki með blástursofn og þegar ég er með tvær ofnplötur þá hef ég þær efst og neðst í ofninum. Ég sting sleifarenda við hurðina á ofninum til að halda honum opnum.

Eftir 2 tíma á kexið að vera orðið það þurrt að það sé hægt að snúa því. Gerið það en best er að leggja það þá á grind þannig að rakinn komist úr kexinu bæði að ofan og neðanverðu.

Hrákex

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu