Ólafur E. Rafnsson – In Memoriam

Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ, var borinn til grafar í dag. Við Óli þekktumst ekki mikið en hann var maðurinn hennar Gerðar, vinkonu minnar og skólasystur. Óli hafði einstaka nærveru og þá sjaldan við hittumst var alltaf eins og við þekktumst vel og værum bestu vinir. Óli var líka mannvinur af bestu gerð og það sást vel í útför hans í dag að hann var ákaflega vinamargur.

Óli nælir í mig silfurmerki ÍSÍ 2010
Óli nælir í mig silfurmerki ÍSÍ 2010 og ég horfi aðdáunar augum á hann.

Við Óli höfðum bæði mikið gaman að íþróttum og félagsmálum. Ég vildi tuddast áfram og rífa kjaft en Óli var maður friðar og sátta. Það var líka gott að leita til hans þegar mín hafði rekið í strand með hin ýmsu mál og hann hafði alltaf réttu svörin. Ég leitaði nokkrum sinnum til hans og hann náði alltaf að telja mér trú um að offors og ákafi, sem einkenndi mig, skilaði ekki endilega þeim árangri sem ég hélt. Og ég hlustaði.

Það var líka alveg sama hvar maður bar niður innan íþróttahreyfingarinnar, Óli naut gríðarlegrar virðingar allsstaðar og á hann var hlustað.

Ég hef á tilfinningunni að Óli hafi ekki endilega haft metnað fyrir því að ná miklum frama innan íþróttahreyfingarinnar. Mín tilfinning er miklu fremur sú að hann hafi hins vegar haft djúpa sannfæringu fyrir því að störf hans skiptu máli og að hann gæti gert hreyfingunni gagn. Hann var heldur ekki maðurinn sem sagði nei þegar til hans var leitað um að taka að sér stærri og meiri verkefni.

Þeir eru ekki margir til af hans kaliberi. Óli var einstakur og missir íþróttahreyfingarinnar er mikill. Mestur er þó missir Gerðar og barnanna þeirra þriggja, fjölskyldu þeirra og vina. Þeim votta ég öllum mína dýpstu samúð. Minning um góðan mann mun lifa.

Stjórn ÍSÍ vildi prufa skotthúfurnar okkar á EM 2009.
Stjórn ÍSÍ vildi prufa skotthúfurnar okkar á EM 2009.

 

 

Við Óli vorum vinir og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum ljúflingi.
Við Óli vorum vinir og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum ljúflingi.

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu