Saga úrslitakeppni HM kvenna

Saga HM kvenna er ansi merkileg. Fyrsta opinbera heimsmeistarakeppnin fór fram í Kína árið 1991 en þá léku stúlkurnar 2×40 mínútur. Fyrstu heimsmeistararnir voru Bandaríkjamenn, Noregur varð í 2. sæti og Svíþjóð í því þriðja.

Á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Svíþjóð 1995 var það táningurinn Birgit Prinz sem vakti mikla athygli. Hún þótti sýna mikla hæfileika og var sérstaklega tekið eftir styrk hennar og krafti.

Senunni stal hins vegar hin bandaríska Mia Hamm en hún tók að sér algjörlega nýtt hlutverk þegar hún setti á sig markmannshanskana síðustu mínúturnar í leik gegn Danmörku eftir að Brianna Scurry hafði verið rekin af velli skömmu fyrir leikslok. Norðmenn fögnuðu þarna sínum fyrsta heimsmeistaratitli, Þjóðverjar urðu í 2. sæti og Bandaríkin í því þriðja.

Fjölsóttasti knattspyrnuleikur kvenna hingað til fór fram á HM í Bandaríkjunum 1999. Í steikjandi hita í Rósarskálinni í Pasadena sáu 90.185 áhorfendur varnarmanninn Brandi Chastain rífa sig úr treyjunni eftir að hafa skorað úr síðustu spyrnu Bandaríkjanna í vítaspyrnukeppninni.

Myndin af henni er sjálfsagt ljóslifandi meðal margra enda komst hún á forsíður nokkurra þekktustu tímarita heims, s.s. Time og Sports Illustrated. Bandaríkin unnu sem sagt mótið 1999, Kína varð í öðru sæti og Brasilía í því þriðja.

Sökum fuglaflensunnar á árinu 2003 var heimsmeistarakeppnin sem vera átti í Kína flutt til Bandaríkjanna og þrátt fyrir afar skamman undirbúningstíma tókst Bandaríkjamönnum að laða að tæplega 700 þúsund áhorfendur á leikina.

Leikmennirnir Marta frá Brasilíu og hin bandaríska Abby Wambach komu fram á sjónarsviðið og ljóst var að bilið milli sterkustu liðanna og þeirra veikari var stórum að minnka. Þjóðverjar, undir stjórn Tinu Theune Meyer fögnuðu sínum fyrsta heimsmeistaratitli og hafa þær ekki litið til baka síðan, Svíar urðu í 2. sæti og Bandaríkjamenn í því þriðja.

Fimmta heimsmeistaramótið fór fram í Kína 2007. Ótrúleg úrslit í opnunarleik mótins, þar sem Þjóðverjar unnu Argentínu 11-0, varpaði nokkrum skugga á enda stóðu vonir til að slík úrslit myndu ekki sjást framar. Að þessu sinni sýndi markvörður Þjóðverja Nadine Angerer að hún var einn besti markvörður heims og eftir að hún varði vítaspyrnu frá hinni brasilísku Mörtu í úrslitaleiknum sjálfum.

Áhorfendur flykktust á völlinn en alls mættu tæplega 1,2 milljónir manna á leikina sem þó var ríflega 3.000 áhorfendum færra en mættu á leikina í Bandaríkjunum 1999. Hins vegar var sjónvarpsáhorf en talið er að um 8,6 milljónir manna hafi horft á hvern einasta leik keppninnar. Þjóðverjar fögnuðu sigri í annað sinn, Brasilía varð í 2. sæti og enn máttu Bandaríkjamenn sætta sig við þriðja sætið.

Áhugaverðar staðreyndir

  • Kristine Lilly (Bandaríkjunum) tók þátt í öllum fimm heimsmeistaramótunum sem haldin hafa verið hingað til. Lengi vel var útlit fyrir að hún myndi ná sjötta heimsmeistaramótinu en hún lagði skóna á hilluna í janúar á þessu ári. Á ferli sínum varð Lilly einnig leikjahæsti leikmaður allra tíma en hún á að baki 352 landsleiki.
  • Þrír leikmenn geta jafnað met Kristine Lilly og tekið þátt í fimm úrslitakeppnum HM. Þetta eru Birgit Prinz frá Þýskalandi, Formiga frá Brasilíu og Homare Sawa frá Japan hafa allar tekið þátt í HM frá árinu 1995 og eru því nú á sínu fimmta móti.
  • Þátttökuliðum á HM hefur nú verið fjölgað úr 12 í 16 en stefnt er að því að á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Kanada 2015 verði þjóðirnar 24.
  • Þjóðverjarnir Nadine Angerer og Silke Rottenburg eru einu markverðirnir sem hafa unnið tvo heimsmeistaratitla. Angerer var varamarkvörður Rottenburg árið 2003 en 2007 sat Rottenburg á bekknum fyrir Angerer. Angerer setti það merkilega met árið 2007 að fá ekki á sig eitt einasta mark allt mótið, hún varði m.a.s. vítaspyrnu frá Mörtu í úrslitaleik keppninnar. Markaskor Þýskalands 2007 var 21-0.
  • Konurnar á HM hafa mikla yfirburði gagnvart körlunum þegar kemur að gulum og rauðum spjöldum. Á síðasta móti var gulu spjaldinu lyft að meðaltali 2,41 sinni í leik hjá konunum en karlarnir fengu að líta gula spjaldið 3,83 sinnum í leik.
  • Frá upphafi hafa 44 viðureignir verið milli karl- og kvenþjálfara í úrslitakeppni HM. Konurnar hafa mikla yfirburði þegar kemur að úrslitum leikja en þeirra lið hafa unnið 28 sinnum, fimm leikir hafa endað með jafntefli og 11 leikjum hafa konurnar tapað.
  • Ein staðreynd hefur lítið sem ekkert breyst í gegnum tíðina á HM kvenna og það er hæð leikmanna, meðalhæð þeirra hefur haldist í 1,69 metrum en karlarnir eru að meðaltali 1,81 metrar á hæð.

Greinin birtist á www.fotbolti.net 29. júní 2011.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu