Heimsmeistaramótið í Þýskalandi er í fullum gangi

„Það eru stöðugt fleiri og fleiri þjóðir sem hafa náð góðum árangri í knattspyrnu kvenna og ég tel líklegt að í það minnsta helmingur þeirra þjóða sem hér taka þátt geri sér raunhæfa möguleika á að vinna titilinn.”

Þetta sagði Silvia Neid, þjálfari heimsmeistara Þýskalands í viðtali við FIFA magazine en blaðið er að þessu sinni tileinkað heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu sem hófst á sunnudag.

Undir þetta sjónarmið Neid tekur Tatjana Haenni, formaður nefndar sem sér um kvennamót innan FIFA.„Bilið milli þjóða er stöðugt að styttast og vonandi munum við ekki sjá úrslit eins og 11-0 í þessu móti,“ sagði Tatjana og vísaði til úrslita í opnunarleik Þýskalands og Argentínu á heimsmeistaramótinu fyrir fjórum árum.

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum að knattspyrna kvenna nýtur stöðugt meiri vinsælda á alþjóðavettvangi enda hafa stelpurnar í boltanum nú slitið barnsskónum og leikmenn eins og hin 33 ára Birgit Prinz, sem tekur nú þátt í sinni fimmtu heimsmeistarakeppni, er talin meðal „gömlu kvennanna“ í mótinu. En þær yngri hafa líka vakið verðskuldaða eftirtekt, m.a. hin japanska Mana Iwabuchi og Isabell Herlovsen frá Noregi. Inná milli eru síðan snillingar eins og þekktasta knattspyrnukona heims Marta sem mun sjálfsagt sýna á sér sparihliðarnar á þessu móti.

Þjóðverjar hafa undirbúið heimsmeistaramótið af mikilli kostgæfni enda ekki nema nokkur ár síðan HM karla var haldið þar í landi og mikil reynsla komin á stórmót eins og þetta. Leikið verður á fleiri leikvöngum en nokkru sinni fyrr, níu talsins, í Berlín, Frankfurt, Monchengladbach, Sinsheim, Wolfsburg, Augsburg, Bochum, Dresden og Leverkusen.

Mismunandi viðhorf leikmanna til leiksins að mati þjálfaranna
FIFA Magazine leitaði til fjögurra þjálfara sem hafa þjálfað bæði karla og konur á sínum ferli og bað þau um að lýsa mismuninum á milli kynjanna. Marika Domanski Lyfors þjálfaði bæði sænska og kínverska landsliðið á sínum tíma. Hún telur að munurinn milli kynjanna sé minni en margir vilja vera láta.

„Eftir því sem þú kemst nær því að þjálfa úrvalsleikmenn þá verður munurinn á milli kynjanna minni en ætla má. Stærsti munurinn liggur að mínu mati í því að konurnar taka hlutina full alvarlega á stundum. Konurnar vilja alltaf vita af hverju þær þurfa að æfa svona en ekki hinsegin á meðan karlarnir velta því ekki mikið fyrir sér. Konur og karlar eru jafningjar þegar en kemur að því að taka ákvarðanir í miðjum leik þá hafa karlarnir yfirhöndina,“ segir Domanski Lyfors m.a. við FIFA tímaritið.

Carolina Morace, lék marga landsleiki fyrir Ítalíu og varð síðar þjálfari kvennalandsliðsins þar en stýrir nú kvennalandsliði Kanada. Hún reyndi einnig fyrir sér sem þjálfari karlaliðs í ítölsku C-deildinni. Að mati Morace er munurinn oft meiri í menningunni heldur en innan vallarins.

„Mér fannst meiri munur milli kvennanna á Ítalíu og Kanada en milli kynjanna í sama landi. Á Ítalíu tala konurnar nær stanslaust á meðan það næst varla orð uppúr þeim kanadísku. Í Kanada eru margir leikmenn haldnir þeim misskilningi að meira sé betra á meðan mín kenning gengur út á að það sé gæði æfingarinnar en ekki magn þeirra sem skiptir máli.“

Þjálfari Englands, Hope Powell, er meðal þeirra virtustu í heimi kvennaboltans og hún er á sama máli og stöllur hennar sem fjallað hefur verið um hér að ofan.„Konurnar viðurkenna að þær geti lært meira og meira á meðan karlarnir þykjast gjarnan vita allt – það fer oft talsverður tími í að segja þeim að svo sé ekki! Þá sýna karlarnir oft ekki hug sinn á æfingum á meðan konurnar vilja kannski taka alla hluti of persónulega og eru full viðkvæmar á stundum.“

Að lokum var rætt við Tom Sermanni, þjálfara Ástralíu en hann telur að samskiptin við leikmennina séu mismunandi eftir því hvort kynið hann er að þjálfa. „Konurnar vilja sérstaklega fá upplýsingar um þeirra eigin frammistöðu á vellinum. Þær þurfa stöðugt að vera sannfærðar um þeirra eigin ágæti, sérstaklega þegar sjálfsmat þeirra er lélegt. Konum hættir til að dvelja of lengi við veikleika sína á meðan karlarnir horfa bara á styrkleikana, jafnvel þó þeir séu takmarkaðir. Þá er konunum oft meira umhugað um frammistöðu liðsins sjálfs á meðan karlarnir hugsa um sína eigin frammistöðu umfram liðsheildina.“

Greinin birtist á www.fotbolti.net 30. júní 2011.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu