Fyllt paprika með austurlensku ívafi
Á föstudag var mér boðið í aldeilis indælt boð heima hjá húsfrú Guðríði. Þar bauð hún m.a. uppá fyllta papriku sem mér þótti svo ómótstæðilega góð að ég varð að gera þennan rétt aftur hér heima hjá mér í kvöld (sunnudag).
Það þarf eftirfarandi í paprikurnar:
- grænar paprikur
- kjúklingur (hakkaðan eða fínt skorinn)
- epli (sem ég notaði ekki því þau gleymdust aðeins)
- döðlur
- rúsínur (sem ég notaði ekki heldur setti sveskjur í staðinn)
- laukur
- hvítlaukur
- kóriander (sem ég notaði ekki)
- gulrætur (sem voru ekki í uppskriftinni)
- kartöflur (sem voru ekki í uppskriftinni)
- sellerí (sem var ekki í uppskriftinni)
- kanill
- negull
- túrmerik
- salt
- pipar
- smjör
- olía
Sósa ofaná:
- sýrður rjómi
- kryddostur
- valhnetur (eða bara saxaðar möndlur eins og ég notaði)
Ég gerði þetta þannig að ég fínsaxaði allt innihaldið (sem ég notaði). Svo steikti ég á pönnu laukinn og hvítlaukinn, setti því næst gulrót, sellerí og kartöflu í með lauknum og loks kjúklinginn. Þetta kryddaði ég allt með kryddinu sem er talið upp hér að ofan. Bætti sveskjum og döðlu í og leyfði að malla. Mér fannst þetta pínu þurrt þannig að ég bætti smá slettu af vatni saman við og leyfði að malla í einhverjar mínútur til viðbótar.
Þá er komið að þessu erfiða, það afhýða paprikuna. Ég las mér ekkert til fyrr en eftir að ég var búin að gefast upp en það mun vera einfalt að taka paprikur, grilla þær við háan hita þannig að þær verði dálítið svartar að utan. Svo á að setja þær í bréfpoka í 15 mínútur og loka honum vel. Þegar tíminn er liðinn er víst hægt að nudda þær aðeins í pokanum og þá fer hýðið af paprikunum. Svo er stilkurinn og fræin tekin úr og “voila” tilbúið!
En ég hafði enga þolinmæði í þetta dund með paprikuna þannig að ég opnaði hana bara, hreinsaði úr henni (skar hana í tvennt eftir endilöngu) og setti fyllinguna í. Þvínæst hrærði ég saman sýrðum rjóma og mexíkóosti sem ég átti í ísskápnum, bætti í þetta smávegis af söxluðum möndlum og dreifði yfir paprikurnar.
Þetta bakaði ég í ofni við 18-200 gráður í um það bil 30 mínútur og mér fannst þetta bara nokkuð gott.
Myndin hér að neðan tók ég þegar ég sótti gúmmulaðið í ofninn.