Mikilvægustu þátttakendur leiksins?

Knattspyrna er vinsælasta íþrótt í heimi. Um það efast enginn. Knattspyrna er auk þess líklega sú íþrótt sem veltir mestum fjármunum árlega og samkvæmt nýlegum könnunum er Real Madrid það evrópska félagslið sem hefur mest markaðsvirði eða sem svarar 1.063 milljónum evra eða um 171 milljarði króna. Þetta eru skuggalega háar tölur, jafnvel þó við Íslendingar séum orðin allt að því ónæm fyrir svona háum tölum.

Ársvelta íslenskra knattspyrnufélaga er líka umtalsverð á íslenskan mælikvarða. KSÍ velti um 800 milljónum á síðasta ári og knattspyrnudeild Breiðabliks skilaði met hagnaði um 72 milljónum króna í rekstarafgang á sama ári. En í hvað fara allir þessir peningar?

Það heldur enginn með dómurum
Þó ég hafi verið um langa hríð í aðstöðu til að kynna mér fjármál hreyfingarinnar til hlítar þá viðurkenni ég fúslega að peningahlið íþróttanna hefur aldrei verið mér sérlega hugleikin. Ef þeir leikmenn og þjálfarar sem ég hef unnið með í gegnum tíðina hafa haft góðan aðbúnað og aðstöðu til að gera það sem gera þarf til að ná árangri hef ég verið sæmilega sátt.

Hitt veit ég þó að minnstur hluti þessara peninga fer í dómara. Dómarar eru einn mikilvægasti þáttur þess að gera knattspyrnuna að þeirri vinsælu íþrótt sem hún er. Dómarar eru hins vegar í þeirri undarlegu stöðu að það heldur enginn með þeim, mönnum þykja þeir jafnvel stundum vera fjandsamlegir leiknum. Þó aldrei eins og þegar “liðið mitt” tapar. Þá er oft eins og mönnum haldi engin bönd. Allt er leyfilegt. Niðrandi tal, hróp og jafnvel líkamlegt ofbeldi er það sem bíður þessara ágætu einstaklinga.

Í lögreglufylgd frá vellinum
Faðir minn var knattspyrnudómari. Eftir að hafa fylgst með störfum hans í gegnum tíðina og lesið af áhuga þá dóma sem hann fékk að leikjum loknum situr einn leikur eftir. Sá leikur fór fram árið 1978 í bæ ekki langt frá Reykjavík. Hann fékk ekki mjög slæma dóma í blöðunum eftir leikinn, en hann dæmdi mark af heimamönnum undir lok leiks og þeir voru allt annað en sáttir. Gengu mótmæli þeirra svo langt að faðir minn þurfti lögreglufylgd út úr bænum að leik loknum.

Mikilvægustu þátttakendur leiksins
Í undirfyrirsögn með þessari grein spyr ég hverjir eru mikilvægustu þátttakendur leiksins? Sjálfsagt eru margir sem telja að það séu leikmennirnir og það má til sanns vegar færa. Það væri jú enginn leikur ef engir væru leikmennirnir. En það væri svo sem heldur enginn leikur ef ekki væru dómarar! Það er mannlegt að gera mistök, leikmenn gera mistök, þjálfarar gera mistök og dómarar gera mistök. Við höfum ekki gleymt því þegar De Jong braut gróflega á Xavi í úrslitaleik HM 2010 án þess að fá verðskuldað rautt spjald, eins og sjá má á fyrra myndbandinu hér að neðan.

Við erum svo sem ekki heldur búin að gleyma því þegar Lampard skoraði mark fyrir England, eða þegar Messi skoraði rangstöðumark gegn Mexíkó, þegar Kaka fékk rauða spjaldið og mörgum öðrum atvikum frá úrslitakeppni HM sl. sumar.

Ekki sjást, ekki heyrast!
En hvar eru myndböndin þegar dómararnir gera allt rétt? Þegar við leitum að góðum dómurum á Google eða YouTube fáum við niðurstöður sem sýna allt annað en góða dómara. Við fáum myndbönd sem sýna, verstu dóma allra tíma, fulla dómarann, fyndna dómarann og hvað eina annað sem mönnum þykir fyndið og skemmtilegt. En við finnum ekki mörg myndbönd þar sem dómarinn á afburða góðan leik.

Það er nefnilega hlutverk dómara að sjást hvorki né heyrast. Dómarar mæta í alla leiki staðráðnir í því að gera sitt allra besta. Þeir ætla að hafa stjórn á leiknum, fylgjast með því að 22 leikmenn hagi sér samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum. Þeir þurfa að fylgjast með því að þjálfarar og varamenn séu sjálfum sér og félagi sínu til sóma og svo þurfa þeir auk þess að búa svo um hnútana að áhorfendur sýni leiknum tilheyrandi virðingu. Það þarf ekki nema einn leikmann, einn þjálfara, já eða einn áhorfenda til þess að góðar fyrirætlanir dómarans hverfi út í loftið. Það er ekkert grín að standa inná vellinum og hlusta á níð um sjálfan sig í 90 mínútur, það er ekkert grín að þurfa að eiga við leikmann sem mætir illa upplagður í leik og er staðráðinn í því að láta mótherjann “finna fyrir sér”. Það er ekkert grín að vera undir stöðugum árásum af hliðarlínunni þar sem þjálfarinn dregur allar þínar ákvarðanir í efa.

Berum virðingu fyrir störfum dómara
Nei að vera dómari er ekki fyrir hvern sem er. Enski sjónvarpsmaðurinn Andy Gray fékk að finna fyrir því um daginn þegar hann missti starfið vegna ummæla sem hann viðhafði um enskan dómara. Hann talaði niðrandi um dómarann og var þess fullviss fyrir leikinn að þessi einstaklingur myndi ekki valda verkefninu. Það er ekki grín að koma til leiks og mæta svona viðhorfi. Nei, þetta starf er ekki nema fyrir þá allra hörðustu.

Við sem ekki tökum beinan þátt í leiknum þurfum að hafa það í huga og við eigum að bera virðingu fyrir störfum dómara, hvetja þá í stað þess að lasta. Án þeirra væri leikurinn ekki næstum því eins skemmtilegur.

Þessi grein birtist á www.fotbolti.net 22. febrúar 2011.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu