Maby I should have!

Mig langar að segja þér af hverju ég ætla að kjósa Árna Pál Árnason í 1. sætið í flokksvali Samfylkingarinnar nú um helgina.

Ástæðan er ekki bísna flólkin, en þó eru tvær ástæður sem mig langar að deila með þér.

Í fyrsta lagi þá hef ég stutt Árna Pál í síðustu tveimur prófkjörum og mér finnst hann hafa staðið sig vel. Í síðustu kosningum náði hann (og aðrir á listanum) þeim frábæra árangri að verða stærsti flokkurinn í Suðvesturkjördæmi og hefur Árni Páll því verið fyrsti þingmaður kjördæmisins síðustu fjögur ár.

Í öðru lagi ætla ég að setja Árna Pál í 1. sæti vegna þeirrar lagasetningar sem hann hefur verið hvað mest gagnrýndur fyrir, Árna Páls lögin.

Ástæða þess er sú að í júlí 2007 keypti ég mér bifreið, setti annan bíl uppí og tók afganginn að láni hjá Lýsingu. Fljótlega eftir að ég fór að greiða af láninu kom í ljós að ég var alls ekki að greiða þá fjárhæð sem mér hafði verið kynnt (ríflega 25 þúsund krónur) heldur hækkaði afborgunin nær samstundis í 35 þúsund og hækkaði síðan jafnt og þétt. Það var þá fyrst sem ég gerði mér grein fyrir því að lánið sem ég hafði tekið var gengistryggt lán. Þess var aðeins getið í smáa letrinu í lánssamningnum og allar tölur voru gefnar upp í íslenskum krónum.

Ég veit vel að það er aðeins við mig sjálfa að sakast að hafa ekki lesið samninginn betur og barði ég höfðinu í vegg nokkra mánuði á eftir, þó aldrei meir en einmitt eftir október 2008 þegar lánið tók stökkbreytingum og ég greiddi að um 70 þúsund krónur á mánuði af láninu.

Árið 2010 fór ég til fyrirtækis sem heitir Sparnaður og bað þá um að reikna út lánið mitt miðað við þær forsendur sem þá var rætt um. Þeirra niðurstaða var eftirfarandi:

Lánið eins og lánafyrirtæki hefur innheimt
Höfuðstóll: 1.878.000 – lán tekið 13. júlí 2007.
Meðalgreiðslur á mánuði skv. greiðsluáætlun við lántöku: 26.000
Meðalgreiðslur á mánuði sl. 3 ár: 64.000
Heildargreiðslur sl. 3 ár: 1.757.000
Eftirstöðvar láns skv. lánayfirliti 1. júlí 2010: 3.167.000

Eftir Árna Páls lögin var Lýsingu gert að endurreikna lánið, ofgreiðsla var nýtt til að greiða niður höfuðstólinn og frá þeim tíma hef ég greitt um 25.000 krónur á mánuði. Enda fór það saman við útreikning Sparnaðar:

Miðað við dóm hæstaréttar og 3,1% meðalvexti ætti lánið að standa þannig:
Meðalgreiðslur á mánuði hefðu átt að vera: 25.000
Eftirstöðvar láns miðað við það sem greitt hefur verið: 167.000
Ofgreitt til lánafyrirtækis með vöxtum: 1.014.000
Eftirstöðvar ættu að vera: 1.182.000

Frá því lögin, sem síðar voru dæmd ólögleg af hæstarétti, voru sett hafa þau sparað mér og tugþúsundum annarra lántakenda í sömu stöðu ómældar fjárhæðir, í mínu tilfelli milli 40-50 þúsund krónur á mánuði og munar um minna.

Maby I should have

Lög Árna Páls voru umdeild, en hann hafði kjark, dug og þor til að takast á við það verkefni og hann framkvæmdi. Það er að mínu mati mark um góðan einstakling þegar menn takast á við verkefni dagsins og framkvæma.

Það er nefnilega svo miklu betra að framkvæma og sjá eftir því en að framkvæma ekki og sjá síðan eftir því og vitna ég til hinna frægu orða þáverandi forsætisráðherra „Maby I should have“.*

Ég ætla að setja Árna Pál í 1. sætið og skora á þig að gera slíkt hið sama, við þurfum alþingismann sem þorir.
Með kveðju, Ingibjörg Hinriksdóttir (Ingó/Dollý)

 

* Með þessum orðum er ég alls ekki að halda því fram að Árni Páll hafi séð eftir því að hafa sett lögin, þvert á móti held ég að hann sé nokkuð stoltur af því og það er ég líka.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu