… en það rættist ekki allt!

Þó spá Dollýjar dulrænu fyrir árið 2011 hafi ræst víða þá rættist svo sem ekki allt – um sumt er ekki heldur útséð með, s.s. langa bréfinu sem Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde munu skrifa saman og afhenda þjóðinni árið 2012.

Dollý vill lítið gera úr því sem ekki rættist enda hefur það verið þannig hjá henni að sumt af því sem hún hefur spáð fyrir hefur tekið nokkurn tíma að rætast, t.d. spáði hún að óeirðirnar í Bretlandi yrðu á árinu 2010 en ekki á árinu 2011 og eignar sér því fullan sigur þar.

Ekki urðu veigamiklar breytingar á ríkisstjórninni en það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgst hefur með að gustað hefur um einstaka ráðherra og sannarlega hefur Steingrímur þurft að vera í vörn vegna sinna fulltrúa þar. Hann hefur þó hvorki vikið né nokkur af hanns flokkshestum og gekk spá Dollýjar því ekki alveg upp.

Eins urðu ekki þær sviptingar í Framsóknarflokknum sem hún hafði spáð, en þær breytingar sem þar urðu snerust sannarlega um erfðaprinsinn sem ekki tók við keflinu heldur yfirgaf flokkinn og tók einhvern fjölda með sér.

Bókin sem Dollý segir Davíð vera að skrifa hefur ekki enn komið út en hann hefur svo sem ekki heldur setið þægur og hljóðlaus í Hádegismóum. Ekki var kveðinn upp dómur í máli Geirs Haarde og enn sitja þeir þingmenn sem drógu hann fyrir landsdóm sem fastast.

Það var kosið um Icesave samninginn en engar kosningar fóru fram um tillögur stjórnlagaráðs og hafði Dollý litla sem enga yfirsýn yfir það mál.

Evróvisíon varð hálfgert grín og kannski var það einmitt með sorg í hjarta sem við héldum heim úr þeirri keppni, minnug höfundar lagsins sem lést langt um aldur fram. Ekki vann Ítalía Evróvisíon og framlag þeirra til keppninnar þótti ekki rismikið.

Virðingin sem borgarstjórinn átti að njóta á árinu er ekki mjög sýnileg þó flestir geti verið sammála um að honum hefur farið nokkuð fram á árinu við stjórnsýslu sína og enn beitir hann heldur óhefðbundnum aðferðum.

Og enn spilar Spaugstofan sprell sitt, að ég held, en kannski er hún horfin þeim sem ekki hafa aðgang að Stöð tvö og kannski var það einmitt það sem Dollý átti við þegar hún spáði andláti þess þáttar.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.