Kjúlli í hvítvíni
Ja hérna hér – ég sem hélt að það væri ekki hægt að toppa bragðgæðin og einfaldleikann, en jú – vinur minn, Bjarni Viðar Sigurðsson keramiker, sýndi mér fram á annað!
Ég átti von á góðum gestum í mat í kvöld og hafði tekið kjúklingabringur úr frystinum í morgun. En ég átti stutt stefnumót við Bjarna og spurði hann ráða varðandi eldun á kjúllanum. Það stóð ekki á svörum frá listamanninum.
Innihald:
- 3 kjúklingabringur
- 2-3 laukur
- 1-1 1/2 box af sveppum
- 2-3 bollar af hvítvíni
- 1-2 pelar af rjóma
- kjúklingakraftur
- nautakraftur
- 1-2 tsk af sykri
- salt
- pipar
- smjör eða olía
Aðferð:
Kryddaðu kjúklingabringurnar með salti og pipar og steiktu þær létt í olíu eða smjöri á pönnu. Taktu þær síðan af og settu til hliðar. Skerðu niður laukinn, frekar smátt, og sveppina í sneiðar. Steiktu laukinn og síðar sveppina í smjöri/olíu á sömu pönnu og bringurnar. helltu hvítvíninu útá pönnuna og láttu sjóða ögn niður, settu síðan rjómann saman við og leyfðu suðunni að koma upp. Helltu í eldfast mót og bættu sykrinum saman við. – þeir sem það vilja geta sett rósmarín saman við (ég vil það alls ekki)
Skerðu kjúklingabringurnar (sem eru hráar í miðjunni) í sneiðar, ekki of þunnar og ekki of þykkar og settu út í sósuna í eldfasta mótinu. Settu lok á mótið og bakaðu í ofni við 175-200 °C í um 30 mínútur.
Gott að bera fram með salati, parmessanosti, hrísgrjónum og hvítlauksbrauði.