Tyrkneskar kjötbollur með spagetti

Ég verð að segja þér frá kvöldmatnum í kvöld.

Um daginn fór ég í búð í Síðumúla sem selur vörur frá Tyrklandi og keypti mér Kebab krydd, en ég lærði að meta Kebab í Danmörku fyrir tveimur árum. Ég man ekki hvað búðin heitir en hún er beint á móti Fastus.

Hef þó aldrei fundið almennilegt Kebab hér heima eftir það. En ég á ekki svona kebabtein þannig að ég googlaði og fann fullt af uppskriftum með allskonar hakki sem var sett utan á grilltein og grillað. Auðvitað gat ég ekki farið eftir uppskrift þannig að ég gerði þetta allt sjálf!

Ég rakst á kjúklingahakk … nei alifuglahakk heitir það … í Krónunni en þar sem það var ríflega hálft kíló var það full mikið fyrir þessa konu en eins og þú veist þá deyr mín ekki ráðalaus og á auk þess dálítið af vinnufélögum sem finnst ekki slæmt að fá smakk frá frökeninni.

Það sem ég gerði var sem sagt að setja hakkið í skál, setti vel af kebabkryddinu, blandaði smá hveiti og vatni saman við og hrærði vel. Ég hefði sett egg ef þau hefðu verið til í ísskápnum í staðinn fyrir vatnið en maður bjargar sér.

Þá bjó ég til litlar bollur úr hakkinu og steikti á pönnu á háum hita þannig að sæmileg skorpa kom á bollurnar. Þvínæst setti ég eina dós af hökkuðum tómötum út á pönnuna, pipraði vel og setti svo turmerik, af því að það minnkar pirringinn og við Svandís, vinnufélagi minn, erum í Turmerik meðferð.

Í ísskápnum mínum fann ég hálfa dós af Philadelpia smurosti og skellti honum á pönnuna enda hefði hann runnið út um helgina og það þurfti að nota hann. Þetta fékk að malla í smá stund á pönnunni.

Ég hafði, meðan á þessu öllu stóð, soðið spagetti í potti og skellti því þegar það var tilbúið á pönnuna og hrærði vel.

Þegar ég hafði fært þetta uppá disk setti ég vel af parmessanosti ofaná og svo gott dash af góðri ólífuolíu.

Ef ég hefði átt gott salat hefði það verið til þess að fullkomna máltíðina, en þetta er skal ég segja þér geggjað gott!

Innihald:

  • alifuglahakk
  • spagetti
  • hakkaðir tómatar úr dós
  • hveiti
  • vatn (eða egg)
  • kebab krydd
  • turmerik
  • pipar
  • ólífuolía
  • parmessanostur

Ef ég hefði ekki verið svona gráðug, hefði ég kannski náð bollunum á mynd áður en þær kólnuðu og urðu ekki alveg nógu myndarlegar. En internetið er dásamlegt og þar fann ég þessa fínu mynd sem sýnir þetta næstum því eins og það leit út hjá mér.

KjuklingabollurSpagetti

 

Ég vil bæta því við að í gær, uppstigningardag (9. maí 2013) eldaði ég kebab handa pabba gamla. Blandaði saman nautahakki, einu eggi, tvær teskeiðar af hveiti og góðum slatta af kryddinu. Ég hrærði þessu saman og hnoðaði í einskonar pylsu sem ég þræddi uppá grillspjót. Því næst setti ég það í ísskáp í 2-3 tíma.

Loks grillaði ég spjótin úti og bar þetta fram með pítubrauði, hvítlaukssósu, chillimauki, lauk, tómötum og papriku.

Mér fannst þetta geggjað gott og pabbi gamli var bara sáttur líka.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu