Cajun kartöflusalat

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, kom glaðhlakkalegur til mín einn morguninn og sagði að þetta væri örugglega eitthvað fyrir mig. Til að færa sönnur á það ákvað ég að búa kartöflusalatið til og viti menn – það er dásamlegt.

Uppskriftin – meðlæti fyrir 6-8
8 meðalstórar kartöflur
1 græn paprika
1 súrsuð smágúrka (gherkin)
4 vorlaukar
3 egg, harðsoðin
250 ml. mæjónes
1 msk hot dog relish eða dijon sinnep
Nokkrir dropar tabasco sósa
1/4 tsk ceyenne pipar
Salt og pipar

Það þarf vitaskuld að byrja á því að sjóða kartöflur og egg, afhýða og skera í mátulega bita (báta). Þá þarf að skera niður grænmetið en ég keypti bara Gherkin relish í krukku og notaði í mína uppskrift. Þá átti ég ekki tabasco sósu né ceyenne pipar en ég átti hins vegar þurrkaðan chilli pipar frá Ungverjalandi sem er logandi sterkur og ég muldi einn slíkan út í salatið.

Þessu er öllu blandað saman og úr verður þetta líka dýrindis kartöflusalat.
Verði þér að góðu.

Myndin hér að ofan sýnir kjúklingasalatið sem ég bauð Sigrúnu systur uppá í seinni undankeppni Eurovision 2012. Kartöflusalatið er efst á diskinum og átti einstaklega vel við með kjúklingnum.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu