Dollý spáir fyrir árinu 2024

Hún var bara hress þegar ég bankaði uppá, sat í uppáhalds kommúnistastólnum sínum og sötraði kampavín úr kristalsglasi. Var búin að klæða sig upp og sagðist vera tilbúin að taka á móti áramótunum.

– Já þau koma á morgun, sagði ég og sá samstundis eftir því. Svipurinn sem kom á Dollý sagði það allt. Hún hélt það væri kominn gamlársdagur!

– Nú já, maður má nú æfa sig, sagði hún og skellti í sig gúlsopa af kampavíninu. Veifaði mér og ég bætti í glasið. „Hvernig gekk?“ spurði hún.

– Tja, þú hefur átt betri spretti en almennt myndi ég segja að þú hafir verið ansi sannspá – ef við tökum tvö eldgos út fyrir sviga.“

– Hvaða, hvaða – ég sagði „hvað veit ég“ enda eru tvö smágos ekkert til að blása yfir. Þetta seinna hræddi okkur vissulega undir lok árs, en það var líka svo nálægt áramótum að það er eiginlega á næsta ári!

Hún teygði sig í kristalinn og fékk sér góðan sopa af kampavíninu.

– Eigum við ekki að snúa okkur að 2024?

– Jú endilega, sagði ég og kveikti á upptöku.

Stjórnmálin

Það verða Alþingiskosningar á árinu og hún Kristrún Frostadóttir mun stíga fram eins og rokkdrottning og bjóða Inga vini mínum í Framsóknarflokki upp í trylltan dans. Þau munu fyrst rokka en svo mun Siggi snúa þessu upp í polka og ræl, enda fara þeir dansar Framsóknarflokknum miklu betur, rétt eins og skottísinn. Þetta dúó mun sennilega fá örlitla aðstoð frá Flokki fólksins, hún Inga Sæland er líka með eindæmum tónelsk og finnst gott að vera með í góðu partýi. Þá er ljóst að Viðreisn verður ekki langt undan og mun sækja það fast að komast að ríkisstjórnarborðinu.

Bjarni Benediktsson mun áður en þingkosningar fara fram segja af sér sem formaður og verður harður slagur milli þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Álaugar Örnu um formannsstólinn. Þar mun sú fyrrnefnda hafa betur og mun leiða flokkinn til mun betri niðurstöðu en Bjarna tókst í síðustu tveimur kosningum. Bjarni mun hafa sig hægan á árinu að öðru leyti en áður en árið 2030 gengur í garð verður hann orðinn sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sýnist mér, hann verður a.m.k. í Ameríku með vinafólki sínu. Þar verður hann í náðinni hjá Trump vini okkar, en við ræðum um hann seinna.

Íþróttir

Það verður algjört handboltaæði í janúar – svo mikið að München verður full af Íslendingum, fullum Íslendingum, sem munu fara mikinn bæði innan handboltavallarins og utan hans. Handboltastrákarnir munu þó ekki ná alveg þeim árangri sem af þeim er ætlast, en þeir eiga samt eftir að standa sig vel á okkar mælikvarða og mér finnst eins og þeir komist í hóp 8 bestu þjóðanna. A.m.k. er tala 8 að banka þétt uppá hjá mér – kannski er það leikmaður númer átta, kannski vinnum við átta leiki, eða töpum átta leikjum, átta marka munur. Talan átta kemur sterk inn í þetta handboltamót, hvað sem öðru líður.

Íslendingar eru stoltir af íþróttafólkinu sínu og Glódís Perla og Gísli Þorgeir verða í baráttunni um að fá titilinn Íþróttamaður ársins 2023. Mér finnst eins og handboltinn verði ofan á að þessu sinni – en kannski er þetta mót í janúar að trufla spána hjá mér. Glódís Perla hefur átt stórkostlegt ár 2023 og árið 2024 mun taka á móti henni með nýjum áskorunum sem hún mun taka fagnandi og umvefja eins og allt annað sem hún tekur sér fyrir hendur. Þetta er svo mögnuð stelpa og einstök fyrirmynd fyrir allar konur þessa heims. Horfið á Glódísi Perlu, dragðu að þér andann og andvarpaðu!

Dollý gerði nákvæmlega þetta og svo sá ég eins og brjálaða öfund í augum hennar þannig að ég spurði „viltu ekki fá þér sopa?“

– Í Englandi verður einstaklega hatrömm barátta á milli Liverpool og Arsenal um Englandsmeistaratitilinn og það er engin spurning að Arsenal vinnur kvennaflokkinn. Hitt er meira óvissa um enda eru stórlið eins og Aston Villa gera báðum liðunum grikk og svo er stórlið Manchester borgar aldrei langt undan. Það er allavegana mjög skrítinn litur í kristalskúlunni minni, rauður, blár sem verður fjólublár … samt aðeins rauðar en blár. Þetta skiptir engu máli elskan mín, enda er fótbolti í Englandi ekki neitt til að æsa sig yfir. Fótbolti á Íslandi er annað mál og þar sé ég líka rauðan lit í kortunum. Það er örn eða Arnar sem flýgur yfir og mér finnst eins og þjálfari Íslandsmeistara 2024 í karlalflokki muni heita Arnar eða Örn.

Í kvennaflokki verður röðin loksins komin að liðinu þínu, Breiðablik vinnur og það með nokkrum yfirburðum. Mjög margir sparksérfræðingar verða hissa á þessu en ekki við, elskan mín, ekki við!

Golfið mun ná nýjum hæðum, Tiger mun loksins komast af stað með innanhússgolfið sitt og Gassa og það verður algjört flopp (hér hlær Dollý á bak við tennurnar). En Arabagolfið mun leggjast af en þó með þeim hætti að arabarnir munu setja milljarða dollara í PGA golfið karla megin. Þeir vilja ekkert með konurnar hafa en þá mun Shangshang Feng koma sterk inn og hafa með sér kínverska fjárfesta sem munu setja talsverða peninga í kvennagolfið. Á Íslandi verður krýndur nýr Íslandsmeistari bæði í kvenna og karlaflokki – og sigurvegari í 2. flokki kvenna í meistaramóti GKG líka.

Hér blikkar Dollý mig og ég velti því fyrir mér til þessa dags hvort hún hafi átt við mig eða Ellu!

Útlönd

Það verður allt vitlaust í henni Ameríku á árinu, ekki aðeins vegna forsetakosninganna heldur mun  straumur flóttamanna þangað vestur ná nýjum hæðum. Þeir munu verða fyrir því sem Evrópa hefur þurft að eiga við síðustu misseri. Flóttafólk frá Afríku og Suður Ameríku mun sækja í mun meiri mæli en hingað til að komast til fyrirheitna landsins og þar verður fólkinu ekki fagnað með blómum.

Í Englandi er komin upp mjög skrýtin staða þar sem kostnaður við að framfleyta fjölskyldu er orðinn óheyrilega hár og krafan um að ganga aftur inn í Evrópusambandið mun fá byr undir báða vængi. Það er þó ekki á dagskrá ESB enda var barátta þeirra við Bretland mjög hörð þegar Bretarnir gengu úr bandalaginu á sínum tíma. Það verða samt einhver skrýtin mál sem varða dýrahald sem munu tröllríða öllu í Englandi á fyrstu mánuðum árins, mér sýnist að bolabítur muni verða táknmyndin fyrir þeirri baráttu og munu hundaeigendur fara með sigur af hólmi. Þá munu nokkur mál sem varða unglinga á glapstigum ná hámæli á árinu í Englandi.

Donald Trump verður sendur fyrir dómara á árinu og hann mun eins og alltaf gera réttarhöldin að sirkus þar sem allir í kringum hann eru vitleysingar. Blessuðum manninum væri nær að líta í spegilinn fyrst allir í kringum hann eru apar. Hann mun engu að síður hljóta útnefningu fyrir forseta kosningarnar og ég fæ hreinlega ekki annað séð en að hann muni vinna og setjast aftur á forsetastól!

Ég sagði í fyrra að Margrét Þórhildur vinkona mín myndi kveðja. Henni tókst að gera mig að ósanninda manneskju og ég er bara nokkuð sátt við það. Við Magga erum nefnilega góðar vinkonur og höfum drukkið allmarga drykki saman í gegnum tíðina. Ég hitti hana síðast í desember 2022 og hún þá nokkuð slöpp, fékk sér ekki nema tvo drykki á Hvids‘ Vinstue og mér fannst ég sjá dauðaáru yfir henni. En sennilega fékk hún sér bara nokkra til viðbótar þegar hún kom aftur í höllina og vaknaði svo slöpp daginn eftir. En núna finnst mér vera farið að fjara undan henni. Hún verður 84 ára í apríl, en hún er fædd undir heillastjörnu því hún fæddist sléttri viku eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku í maí 1940. Hún var tæpra 32 ára þegar hún varð drottning og er bara orðin andskoti leið á því hlutskipti, hvar er 95 ára reglan í Danmörku þegar Magga þarf á henni að halda? Hún hefur þegar ríkt helmingin lengur en Kristján níundi pabbi hennar og hún mun afsala sér völdum til Friðriks en hún vill gjarnan ná því að verða sá konungborni lifandi þjóðhöfðingi sem lengst hefur ríkt en þá verður hún að bíða eftir því að Hassanal Bolkiah emírinn í Brúnei falli frá. Hann er því miður sex árum yngri en hún, en hann er karl og mun sennilega hrökkva upp af á undan henni.

Annars er þessi valdabarátta í Skandinavíu dálítð skrýtin því Karl sextándi Gústaf bíður með öndina í hálsinum eftir því að Margrét segi af sér þannig að hann verði sá lifandi þjóðhöfðingi sem lengst hefur setið á konugsstóli. Hvað er að þessu fólki að sitja svona lengi – Dollý spyr sig.

Hér tók okkar kona sér örstutta hvíld, saup af kampavíninu og dæsti og sagði „Það er svo gott að vera drottning!“

– Annars er það að frétta af Kalla okkar Bretakóngi að hann hefur ríkt í eitt ár og 113 daga þegar nýtt ár gengur í garð. Hann mun klárlega ekki verða jafn langlífur í embætti og mamma hans en hann er þó konungur yfir heilum 15 ríkjum (veistu hver þau eru?)* Hún Kamilla er ekkert hressari en hann og mun sjálfsagt verða þeirri stund fegnust þegar hún fær að leggja frá sér þessa níðþungu kórónu sem var skellt á hausinn á henni í maí. Hún mun þrauka þetta ár og sennilega það næsta en þá fer að draga af karlinum og henni svo um munar.

Ég sé ekki að það muni minnka stríðsástand í heiminum. Gasa verður hernumið að fullu og í Úkraínu mun útlitið ekki vera mjög bjart. En í Afríku verður ástandið verst, þar mun geysa skelfilegt stríð þar sem verður grimmd sem enginn hefur áður séð. Hin svokölluðu Vesturlönd munu líta með blinda auganu til Afríku og loka báðum augum gagnvart því sem gerist á Gasa. Þau munu hins vegar koma Úkraínu til hjálpar á andlega sviðinu. Þau leggja ekki í Pútín sem er þó að verða einangraðri með hverjum deginum sem líður í ríki sínu Rússlandi.

Náttúruöflin

– Ég veit, ég veit, sagði Dollý þegar ég spurði hana um náttúruöflin. Ég má ekki spá neinu illu og ég get ekki spáð neinu góðu. Hvaða staða er það?

Úti í hinum stóra heimi verða náttúruöflin algjörlega brjáluð, þurrkar og flóð, hungursneyð og ofgnótt matar, snjóflóð og skógareldar. Allt þetta mun herja á mannkynið hér og þar á árinu 2024. En ég veit að þú ert ekki að spá neitt í það sem gerist í Ástralíu, Afríku eða Asíu. Þú vilt vita um Ísland – ekki satt?

– Jú sagði ég og ætlaði að hella meira kampavíni í glasið hennar en flaskan var tóm! Má bjóða þér bjór?

– Er það það eina sem er í boði?

Hún fékk espresso martini og var kát um leið og hún fann áfengisbragð af kaffinu!

– Mig langar ekki að vera leiðinleg en það mun gjósa á Reykjanesi á árinu og því miður ansi nærri vinum okkar í Grindavík. Svo mun gjósa á öðrum stað á landinu, sennilega mun Hekla hósta smávegis með tilheyrandi hristingi í uppsveitunum.

Veður á Íslandi mun verða rysjótt, það verður gríðarlega mikill snjór sem mun kyngja niður og það falla snjóflóð í byggð. Ég sé ekki manntjón í þeim en tilfinningalegt tjón verður mikið. Það er eitthvert atvik á sjó sem er að trufla mig, hvort það verður mannskætt eða íslenskt næ ég ekki að tengja við en það mun fá heimsathygli. Þá verða umferðarslys mun tíðari en á árinu sem er að líða, því miður, og of margir kveðja þessa jarðvist af þeim völdum.

Fræga fólkið

Nokkrir sérlega góðir einstaklingar kvöddu okkur á árinu en árið 2024 verður verra. Mick Jagger segir bless, og það sem það mun þýða fyrir alheiminn er að rúllandi steinn hættir að rúlla. Hvað verður um heiminn er spurt! Og svo mun eitt eitt tónlistargoðið verða fíkniefnadjöflinum að bráð. Mér finnst sá muni kveðja í Ameríku, en viðkomandi er þó ekki upprunnin þaðan.

Þá mun frægur leikari kveðja okkur, af virðingu við fjölskyldu hans mun ég ekki nefna hann en hann verður mörgum harmdauði.

Oppenheimer verður kjörin besta kvikmyndin á Óskarnum og Martin Scorsese verður besti leikstjórinn. Barbie mun ekki fá næstum eins mörg verðlaun og hún fékk tilnefningar enda finnst akademíunni það fyrir neðan sína virðingu að kjósa einhverja Barbie mynd til verðlauna á nokkru sviði.

Á Íslandi mun Prittí bój Tjokkó verða milli tannanna á fólki og ekki alltaf af góðu einu. IceGuys verða betri en nokkru sinn og ná alþjólegri frægð í Brasilíu. Pálmi Gunnars gefur út geggjað lag og Friðrik Ómar finnur ástina – loksins. Páll Óskar giftir sig á árinu 2024 en ég sé ekki brjálaða hamingju í því hjónabandi, því miður. Laufey mun hljóta mikla upphefð á árinu og hampar Grammy verðlaunum.

Baltasar Kormákur gerir kvikmynd sem gerir allt vitlaust og verður klárlega sá konungur sem hann hefur verið í íslenskri kvikmyndagerð síðustu áratugi.

Almennt

Covid mun ná nýjum hæðum á árinu 2024. Nýtt afbrigði mun ryðja sér til rúms og varnir mannkynsins verða engar – engar. Fólk er of værukært og gætir ekki að sér enda telja margir að Covid sé ekkert annað en slæmt kvef.

– Þú munt fara í nokkrar skemmtilegar utanlandsferðir á árinu og ein mun bætast við í haust sem verður best af þeim öllum. Já og gott ef þú munt ekki hljóta upphefð sem þú reiknar ekki með. Kannski er Guðni að fara að hengja í þig riddarakrossi, eða eitthver annar? Þú munt a.m.k. hljóta upphefð sem þú átt engan vegin von á. Svo mun Guðný Lára hitta draumaprinsinn – þú mátt segja henni það!

– Takk fyrir mig elsku Dollý, sagði ég og laumaði mér út áður en síðasti dropinn af kaffinu rann upp í hana.

*) Antíka og Barbúda, Ástralía, Bahama eyjar, Belís, Kanada, Grenada, Jamæka, Nýja Sjáland, Papúa og Nýja Gínea, Saint Kitts og Nevis, Saint Lúsía, Saint Vincent og Grenada, Salomon eyjar, Tuvalu og Bretlandseyjar.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu