Dollý spáir fyrir árinu 2021

Það þurfti þrjár tilraunir, blíðmælgi, ákveðni og mútur til að Dollý opnaði fyrir mér. Að auki mátti ég draga fram rafræn skilríki í sótthreinsuðum poka, þá loksins opnaði vinkona mín.

„Ég þekkti þig ekki bak við grímuna“, sagði hún og ég sá í augunum hennar að hún innan við grímuna. „Berð þú grímu innan dyra heima hjá þér?“ spurði ég og fékk að launum eitrað augnaráð. „Já, þegar ég veit ekki hver hangir á húninum!!“

„Sprittaðu þig – samt ekki of mikið – ég fæ mér alltaf örlítið af þessu út í kaffið á morgnana, það gerir manni gott! Alla vega hefur kóvidpaddan ekki bitið mig enn þá helvísk! Eigum við ekki að koma inn í stofu? Ég er búin að undirbúa mig fyrir komu þína.“

„Nú? – hvernig þá?“

„Ég byrjaði á því að brenna þessi spil sem ég lagði í fyrra, þvílíkt rugl sem kom út úr þeim. Ég held að allt hafi klikkað hjá mér, tja nema með íþróttirnar, þetta var þrátt fyrir allt gott ár og svo er kona að komast á stjörnuhimininn í Bandaríkjunum, hún Kamala Harris, það er mikið í hana spunnið skal ég segja þér – hún er nagli! Annars verð ég að segja að innan Völvuvinafélagsins hafa verið haldnir margir neyðarfundir útaf þessu 2020, þvílíkt ár. Meira að segja Nostrodamus á ekki orð og Múhameð biður Guð að hjálpa sér – og ekki eru þeir tveir miklir vinir.

Færðu mér viskílögg elskan og svo skulum við byrja þetta.“

Ég geri eins og mér er sagt, færi Dollý viskíglas, bætti aðeins í það og fékk mér sæti í myrkvuðu horni í stofunni hennar.

Þrjú tímabil

– Þetta ár, 2021, skiptist í þrjú tímabil, tímabil bólusetningar, tímabil vonar og þolinmæði og tímabil upprisu. Vírusinn, sem hefur verið allt um lykjandi árið 2020, mun víkja á endanum en þó ekki um alla heimsbyggðina. Vírusinn mun vera til víða um heim í 2-3 ár til viðbótar og gera usla öðru hvoru. Það mun reyna mikið á þolinmæði almennings og siðgæði stjórnmálamanna og hvoru tveggja mun á bila á árinu 2021. Þá mun viðskiptasiðferði togast á við glæpamenn sem gera hvað þeir geta til að komast yfir bóluefni og reyna að græða á því, sérstaklega í löndum sem hinir hrokafullu kalla vanþróuð. En lífið hér uppi á Íslandi mun smátt og smátt falla í eðlilegt horf þó það muni ekki verða að fullu komið til framkvæmda fyrr en undir lok árs 2021. Fólk mun ekki treysta neinum sem ekki ber grímu á almannafæri og það mun koma upp hneyksli þar sem einstaklingur falsar skírteini sem sýna fram á að viðkomandi sé ekki útsettur fyrir veirunni. Siðleysið ríður ekki við einteyming og ástand eins og við höfum búið við á árinu 2020 hefur alið nokkra slíka af sér.

Stórsigur Framsóknarflokksins

Árið 2021 er kosninga ár og þar sé ég Framsóknarflokkinn vinna stórsigur. Honum hefur tekist merkilega vel að lifa í gegnum stjórnarsamstarfið með Bjarna og Katrínu og þau Sigurður, Ásmundur og Lilja njóta almennt mikils trausts innan stjórnsýslunnar. Það traust nær þó ekki alveg út til almennings sem verður alveg búið að gleyma Akranesi og Ásmundarsafni þegar kosningar fara fram í september. Katrínu verður refsað fyrir linkindina í garð þeirra sem ekki telja sig þurfa að fylgja þeim reglum sem almenningi hafa verið settar. Þá kemur upp eitthvert hneykslismál þar sem upp kemst um að einstaklingar vinveittir stjórnvöldum fá að fara fram fyrir í bólusetningarröðinni. Það gerir þó ekkert til því Kári í DeCode og Gísli í Controlant tryggja Íslendingum óheftan aðgang að bóluefni gegn því að 90% þjóðarinnar verði bólusett og sett í rannsókn til hagsbóta fyrir heiminn allan. Úr slíkri rannsókn koma ekki niðurstöður fyrr en undir lok árs og þar skiptir mestu máli að einstaklingar í ákveðnum blóðflokki eru alls ónæmar fyrir veirunni og þola bóluefnið alls ekki. Magnaðar niðurstöður sem sýna líka að Íslendingar eru miklu meiri Írar en Norðmenn. Já Melkorka lifir enn með þjóðinni.

Samfylkingin mun ná að auka fylgi sitt nokkuð og gerir harða atlögu að ríkisstjórnarborðinu en Katrín, Bjarni og Sigurður hafa bundið ansi þétt um sína hnúta og þau munu halda ótrauð áfram næstu fjögur ár. Sigurður mun þó fá mun meiri fram innan ríkisstjórnarinnar en hann hefur nú og mér sýnist hann taka við forsætisráðherrastólnum. Katrín verður fjármálaráðherra og Bjarni tekur við atvinnuvegaráðuneytinu. Honum mun hreint ekki leiðast það.

Náttúruöflin

Veðrið á Íslandi á árinu 2021 verður rysjótt. Sumarið verður með eindæmum gott um allt land og svo gott reyndar að hótelin þakka fyrir að ferðamannastraumurinn er ekki kominn á sama stað og árið 2019. Íslendingar halda áfram að ferðast innanlands eins og þeir gerðu 2020 og njóta þess mun meir og betur en þá. Þeir reyna þó að fara í ferðalög erlendis og árið 2021 verða það ekki skíðagarpar sem munu bera pödduna aftur til landsins, það verða golfarar að koma úr ferðalögum sem munu ná að smita út frá sér þó í mun minna mæli en skíðafólkið gerði í upphafi árs 2020. Fyrstu fjórir mánuðir ársins 2021, verða þungbærir víða um land, snjóar verða með eindæmum miklir og mikillar þreytu mun gæta á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Síðustu tveir mánuðir ársins 2021 verða mjög vindasamir og Suðausturlandið mun finna fyrir því svo um munar.

Jarðhræringar verða allnokkrar og munu finnast víða á byggðu bóli. Þær munu þó ekki verða til mikils skaða en íbúar á Reykjanesi og Suðurlandi verða skelkaðir um tíma.

Flóðin sem ég hef spáð síðustu ár komu sannarlega á árinu 2020, á Flateyri, Seyðisfirði og í Noregi. Því miður heldur þetta flóðaástand áfram á árinu 2021. Breytingar á loftslagi og veðurfari orsaka mikil flóð sem enginn mannlegur máttur mun ráða við og enginn mun sjá fyrir. Við höfum verið heppin til þessa en gæfan verður okkur ekki eins hliðholl árið 2021. Og Hekla mun gjósa undir lok árs, einstaklega fallegu túristagosi, akkúrat þegar þjóðarbúið þarf á því að halda.

Íþróttirnar

Íþróttalífið á Íslandi mun bíða nokkra hnekki á árinu 2021, íþróttamennirnir okkar hafa misst úr nokkra mánuði og hafa hlaupið í eitthvað annað en form – eins og þú,“ sagði hún og hló framan í mig um leið og hún potaði glasinu í áttina að mér og heimtaði meira viský. „Ég, ég sko …“ sagði ég en sneri mér svo að viský flöskunni, gaf Dollý og setti lögg í glas handa sjálfri mér.

„En þrátt fyrir það þá munu íslenskir íþróttamenn njóta meiri virðingar erlendis en mörg síðustu ár og þá skiptir sko engu máli hvað ég segi! Ég þoli ekki íþróttir og mér er alveg sama því Arsenal verður ekki enskur meistari árið 2020-2021 frekar en Liverpool.

Útlönd og kóngafólk

– Erlendis gerist það sem ég hef spáð síðustu 5 ár eða svo, Elísabet víkur sæti Á Englandi. Það er þó ekki til að Karl sonur hennar geti tekið við enda veit hún sem er að hann mun aldrei ráða við verkefnið. hún er hins vegar orðin nokkuð fullorðin blessunin, hún verður ekkja á árinu og hún hreinlega vill ekki vera drottning án prinsins síns. Prinsinn rétt missir af 100 ára afmæli sínu og hún ákveður á 95 ára afmæli sínu að hengja upp kórónuna og biður þing og þjóð um leyfi til að Vilhjálmur Karlsson taki við af henni. Þjóðin verður frá sér numin af fögnuði en Boris Johnsson, forsætisráðherra og þingið allt sýnir mikla þvermóðsku og neitar drottningunni um þetta. Það mun fá mikið á hana og hún íhugar að hætta við að víkja.

Í Danmörku mun kórónupaddan ná í kórónuna á Margréti Alexöndru Þórhildi Ingiríði og verður það henni mjög þungbært. Svo að henni verður um tíma ekki hugað líf. Danir eru nú þegar byrjaðir að huga að valdaskiptum og Friðrik krónprins mun taka við mjög mörgum að skylduverkum móður sinnar á árinu 2021.

Svíar, sem að margra mati hafa farið illa að ráði sínu á árinu 2020, munu ekki ná sér almennilega á strik á árinu 2021. Þeir hafa reitt konung sinn til reiði og það boðar aldrei gott. Þar verður ólga undir niðri í samfélaginu og þjóðernishópar munu gera sig gildandi í þjóðfélagsumræðunni þar. Með allnokkrum árangri.

Norðmenn eru í sárum eftir skriðuföllin í lok árs og þar verður gríðarleg almenn reiði í garð sveitarstjórna fyrir að hafa leyft byggingar í mörgum mjög þröngum fjörðum sem þar er að finna. Hús eru reist í brekkum sem eru í nánast 30 gráðu halla og eiga á hættu að skolast niður eftir fjallshlíðinni hvenær sem er. Þetta verður stórmál þar en hverfur þó í skuggann af miklu hneykslismáli innan bankageirans þar. Einhverjir hafa verið að smyrja hressilega sinn eiginn bita með olíupeningunum þeirra og ef Norðmenn eiga erfitt með eitthvað þá er það að tapa peningum í hendur glæpamanna!

Ammmeríka

Eigum við að færa okkur til Ameríku?“ spurði Dollý og ég kinkaði kolli og horfði spyrjandi á hana hvort hún vildi meira viskí. Hún hristi höfuðið, fékk sér dreitil og hélt áfram.

– Í Ameríku fagna menn því að Biden sé kominn til valda, en það sést þó fljótlega að hann, ólíkt forverum sínum, treystir mjög á varaforsetann Kamölu Harris. Það er líka skynsamlegt af honum því heilsa hans verður ekki uppá það besta og Kamala Harris mun í fyllingu tímans verða fyrsta konan til að gegna stöðu forseta Bandaríkjanna. Já, þú heyrðir það fyrst hér!!“ Dollý skelli hló og fannst greinilega mikið til sín koma. „En Ameríka er ekki alveg tilbúin fyrir Biden og Harris, þrátt fyrir allt. Þjóðin er í sárum og kórónan hefur farið mjög illa með hana. Þar verða uppþot sem aldrei fyrr og þrátt fyrir Svört líf skipta máli hreyfinguna þá eru margir lögregluþjónar enn hræddir við hörundsdökka borgara og fleiri uppákomur munu verða. Þetta verður erfitt ár fyrir Bandaríkjamenn því fyrir utan allt þetta þá mun Trump ekki taka því þegjandi að flytja úr Pensylvaníu stræti 1600 og hækka forgjöfina á sama tíma!

Þjóðverjar eru í vandræðum, miklum vandræðum. Foringi þeirra til margra ára Angela Merkel pakkar niður og í hennar stað kemur karl sem ekki hefur farið mikið fyrir til þessa, Hans van Videl. Hann er óskaplega sjarmerandi og flottur karl, en í ljós kemur að langafi hans var framarlega í Nasistaflokknum. Það verður honum bæði til happs og vandræða því margir álasa honum en nýnasistar fagna honum sem frelsara. Það verður þó ekki fyrr en á árinu 2022 sem í ljós kemur hvernig hann muni reynast þýsku þjóðinni.“

Fræga fólkið

„Ætlar þú ekkert að spá fyrir um fræga fólkið,“ leyfði ég mér að skjóta inní þegar mér þótti nóg komið af utanríkispólitík. Ég hefði betur sleppt því – hún skellti glasinu sínu í augnhæð hjá mér og sagði „Meira!“

„Auðvitað ætla ég að tala um fræga fólkið – eða í það minnsta fólkið sem heldur að það sé frægt. Frægir á Íslandi eru auðvitað maurar í hinu alþjóðlega samhengi. Ekkert annað en maurar, segi ég, mauuuuuurar!“

Ég hellti viskí í glasið hennar og setti smávegis í glasið mitt – þetta var jú 15 ára gamalt skoskt viskí sem var hreinlega ekki á allra færi að drekka. „Hvar fékkstu þessa flösku?“ spurði ég.

„Ég veit ekki hvað þig varðar um það en þetta er flaska sem hann Björgólfur gamli gaf mér 2007. Mér fannst tilvalið að draga hana fram í haust þegar Þórólfur lokaði mig inni í þriðja sinn.“ Ég var ekki frá því að sjá blik í auga hennar þegar hún minntist þessa tíma en hún sneri sér aftur að kristalskúlunni sinni og  muldraði „Frægir segir þú, frægir.“

– Jú þessir frægu koma við sögu á árinu 2021 eins og margir aðrir ófrægir. Egill Einarsson, Gilzenegger, verður með uppsteit fyrri part árs og nær að vinna sér eitthvað til ófrægðar. Femínistar verða brjálaðir eins og alltaf og vilja opinbera aftöku. Þeim verður þó ekki kápan úr því klæðinu því Egill hefur nokkuð til síns máls, aldrei þessu vant. Hann verður að auki faðir í annað sinn árið 2021 sem er gleðiefni. Blessaður drengurinn!

Hvernig voru jólin án þín?

Víðir Reynisson verður ítrekað beðinn um að fara í framboð til Alþingis en hann þvertekur fyrir það. Þetta fer ekki hátt en mun þó spyrjast út á síðum slúðurblaðanna. Friðrik Ómar mun hins vegar ekki skorast undan og verður í baráttusæti fyrir Viðreisn á Norðurlandi eystra. Hann verður varaþingmaður og þykir ansi efnilegur sem slíkur. Svala Björgvins mun finna sér nýjan kærasta á árinu og Anna Mjöll Ólafsdóttir líka. Þá munu söngvararnir Hreimur Örn og Jónsi í Svörtum fötum finna ástina á árinu. Nafni þinn, Ingó veðurguð, mun reyna fyrir sér nokkuð víða en finnur á endanum ástina í örmum sér mun eldri konu og verður ótt og títt á síðum gulu pressunnar. Hann mun eiga mikinn jólasmell sem hann kallar Hvernig voru jólin án þín?

Af einstaka íþróttamönnum er það að segja að fyrsti íslenski knattspyrnukarlinn mun koma út úr skápnum á árinu. Það vekur athygli í u.þ.b. 10 daga en eftir það þykir það ekki til nokkurrar frásagnar. Elísabet Gunnarsdóttir verður ráðin landsliðsþjálfari kvenna og Eric Hamrén verður henni til aðstoðar um leið og hann aðstoðar Arnar og Eið Smára.

Leikarar fara mikinn á árinu eftir vægast sagt magurt ár 2020. Hilmir Snær mun eiga magnaða endurkomu ásamt Ingvari E. Sigurðssyni og leikkonurnar Þórey Birgisdóttir og Berglind Halla slá í gegn á leiksviðinu. Aníta Briem mun snúa aftur til Hollywood og slá í gegn í þáttaröð sem Netflix framleiðir. Það verður einhver urgur í fólki vegna þeirra leikara sem eru að snúa aftur eftir MeToo byltinguna en þrátt fyrir allt þá heldur lífið áfram og þó mennirnir hafi ekki hlotið uppreist æru þá eru þeir mættir aftur á fjalirnar að leika einhverja aðra en sjálfa sig og syndir þeirra verða geymdar um sinn.“

Ég fann að það var aðeins farið að draga af vinkonu minni og spurði hana hvort hún vildi bæta einhverju við. Aldrei þessu vant leit hún á mig mildum augum og sagði „Nei – ekki að sinni elsku vinkona. Takk fyrir komuna og Guð geymi þig!“

„Takk sömuleiðis elsku Dollý og ps. Guðný fann ástina og röddina á árinu eins og þú spáðir“ 😉

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu