Dollý spáir fyrir árinu 2018

„Hvurn andskotann ertu að bjóða mér uppá kona,“ sagði Dollý um leið og ég hellti í glasið hennar. „Þetta er eins og einhver fjárans landabrugg!“

Ég hafði keypt handa henni dýrindis hveitibjór frá Belgíu, Hoegaarden, sem ég komst uppá lagið með að drekka þegar ég var í Hollandi sl. sumar. Hún hrækti bjórnum út úr sér og spurði hvort ég ætti ekki eitthvað almennilegt? „Jú ég á Carlsberg,“ sagði ég og þorði ekki að segja henni frá Erdinger bjórnum sem ég átti í ískápnum. „Hvað er þetta eiginlega kona, drekkur þú ekkert almennilegt?“ Það var þá fyrst sem mér datt í hug að segja henni frá víninu í skápnum mínum, Reyka vodka, Grand Mariner, Gin flöskunum og Glengoyne viskíinu sem ég var nýbúin að kaupa. Það hýrnaði heldur betur yfir henni, hún þáði hjá mér glas af viskíinu, fékk sér sopa, stundi og hallaði sér aftur í rauða hægindastólnum mínum.

Aldrei þessu vant kom Dollý í heimsókn til mín í Kópavoginn. Hún dáðist að íbúðinni og var ánægð með hvernig við höfðum komið okkur fyrir. „Þetta er bara huggulegt,“ endurtók hún í sífellu þegar hún skoðaði öll herbergin, salernið, eldhúsið en hún saup hveljur þegar ég opnaði í búrið gegnt innganginum. „Ji, dúdda, mía, hvað ertu með hér?“ spurði hún og muldraði svo í barminn „draslið“. Ég leiddi spurninguna hjá mér, bauð henni til stofu og uppá annan drykk.

Þegar hún hafði jafnað sig og var búin að fá áfyllingu á glasið sitt, lygndi hún aftur augum og spurði „hvernig gekk í fyrra?“

„Þér gekk upp og ofan,“ sagði ég sannleikanum samkvæmt. „Þú hafði að hluta til rétt fyrir þér með stjórnmálin á Íslandi, en Gunnar Bragi er ennþá vinur Sigmundar Davíðs“

„Það breytist,“ greip hún frammí fyrir mér.

„En það er rétt að Björt framtíð þurrkaðist út þegar þeir fóru út úr ríkisstjórninni.

Náttúruöflin hafa verið óútreiknanleg á árinu 2017, eins og þú spáðir fyrir um, og það má segja að þau hafi fundið sér nýjan farveg þegar gos virðast hafa orðið undir Vatnajökli, án vitundar okkar. En það var lítið um skriðuföll.“

Ég leit upp þegar ég sagði henni aði hún hafi algjörlega klúðrað íþróttaspám sinni, kvennalandsliðinu gekk ekki vel á EM í Hollandi og körfuboltalandsliðið reið ekki feitum hesti frá Finnlandi. FH dalaði verulega og hvorki KR, Breiðablik né Stjarnan voru nærri meistaratitli. Og Martin Hermannsson er ekki á topp 10 lista íþróttafréttamanna yfir bestu íþróttamenn ársins.“

„Þeir vita ekkert í sinn haus,“ hnussaði í Dollý. „Hættu þessu nú, förum að snúa okkur að árinu 2018,“ sagði hún og otaði að mér hálftómu glasinu.

Erlent

„Ég ætla að byrja á fíflinu í Hvíta húsinu,“ hnussaði Dollý og velti svo viskýsopanum sem hún hafði fengið sér upp í munni sér. „Hann er ólíkur ostum, viský, rauðvíni og konum … verður bara verri og verri eftir því sem hann verður eldri. Já og vitlausari. Honum tekst þó ekki að draga bandarísku þjóðina í stríð því, ótrúlegt en satt, Kínverjar munu halda aftur af karlfauskinum og einhverjir valdamenn í Wasington spila ótrúlega stórt hlutverk bak við tjöldin. Þeirra hlutur verður ekki gerður lýðnum ljós fyrr en eftir dag trompettsins Trumps.

Bandaríska vísitalan, Dow Jones eða hvað hún heitir, mun hækka fram eftir ári og Trump mun þakka sér fyrir það alveg fram á mitt sumar þegar vísitalan lækkar aftur og Trump finnur sökudólg í Suður Ameríku! Það verður vegið mjög að Trump og hann hvattur mjög til að segja af sér en mér sýnist hann muni standa allar slíkar atlögur af sér og verða ennþá forseti þegar árið 2019 tekur við. Það verður kosið til þings í henni Ameríku og demókratar munu vinna stórsigur. Það gerir verkefni Trumps í Hvíta húsinu talsvert erfiðar en hann er þrjóskari en asni …“ Þarna skellti Dollý uppúr „Þrjóskari en asni, hann er asni maðurinn … hahhaha“

Dollý snýtti sér í ermina eftir hláturskastið, leit í kristalskúluna sína og mér sýndist ég sjá tár á hvarmi.

„Elísabet Englandsdrottning fellur frá á árinu, um það leyti sem menn fer að gruna að Karl prins sé kominn með elliglöp. Það verður því mikið fár í Samveldinu og órói meðal þegnanna. Karl verður krýndur konungur en Vilhjálmur mun gegna megninu af skyldum hans fljótlega eftir krýninguna. Þetta verður ákaflega umdeilt í Bretlandi og brotthvarf þeirra úr ESB fellur algjörlega í skuggann.

Í Frakklandi mun forsetinn setja blátt bann við notkun snjallsíma í skólum og verður úr að foreldrar munu marsera að forsetahöllinni í þúsundatali og krefjast þess að hann aflétti banninu. En  forsetanum er ekki hnikað, hann stendur við ákvörðunina og það mun koma í ljós að skólastarf verður allt léttara og betra á eftir. Mörg Evrópuríki munu fylgja í kjölfarið en þó munu smáríki eins og Ísland þrjóskast við lang inní þriðja ártuginn.

Það verða gríðarlegar náttúruhamfarir á árinu, fornfrægt eldfjall mun spúa eldi og brennisteini, en ég sé ekki alveg hvort það verður Vesúvíus, Etna, Krakatá eða Laki hér heima á Íslandi. En það verður gríðarlegt eldgos sem ekki mun fara framhjá neinum jarðarbúa. Náttúruöflin beita sér af áður óþekktum krafti, höfin eru að drukkna í plasti og hæð sjávar hækkar jafnt og þétt. Flóð verða gríðarleg í sunnanverðri Evrópu og í Miðaustur Asíu verður mikið manntjón af völdum náttúrunnar. Ríkisstjórnir flestra ríkja SÞ munu sjá nauðsyn þess að gera meira til að draga úr skaða manna á náttúruna en andstaða Trumps í Hvíta húsinu mun koma í veg fyrir að eitthvað verði um efndir.

Kanadamenn munu komast í fréttirnar fyrir gríðarlegt vísindaafrek eða uppgötvun af einhverri sort. Rætt verður um að þeir verðskuldi Nóbelsverðlaun en þegar líður frá kemur í ljós algjört tilgangsleysi uppgötvunarinnar og litið verður á þetta sem svikamillu.

Menning

Eftir nokkur mögur ár verður árið 2018 risastórt á kvikmyndasviðinu. Mynd sem heitir 12 fræknir, eða eitthvað í þá áttina, verður gríðarlega umtöluð en hún slær þó ekki út endurgerðinni á Mary Poppins, sem flestir álíta guðlast af verstu sort vestur í henni Hollywood. Já og The Post mun fá Óskarinn fyrir bestu mynd árið 2018.“

– Hér var ekki laust við að Dollý glotti bak við tennurnar og skellti sér ögn á lær um leið og hún otaði að mér glasinu og hreytti úr sér „Meira!“

„Mikið djöfull verður þetta leiðinlegt ár í Afríku, eintómir þurrkar, ættflokkadeilur og menn hamast við að ganga af hver öðrum dauðum. Þú mátt kalla mig það sem þú vilt en stundum held ég að það þurfi fleiri hvíta menn í hana Afríku, þó ekki sé nema til að halda friðinn!“ Ég sé á svipnum á henni að hún skammast sín næstum fyrir að segja þetta og henni er mikið niðri fyrir. Hún skellir enda í sig sopa en og er löngu hætt að velta hverjum sopa um í munni sér.

„Eitt munu þó Afríkumenn gera sem vekur heimsathygli, Nígería fylgir Argentínu uppúr riðlinum á Heimsmeistaramótinu í fótbolta. Já Ísland situr eftir með Króötum og um stundarsakir munu Nígeríumenn eiga gríðarlega marga stuðningsmenn um veröld alla.

Ísland

Í janúar verður ótrúlega mikið um veikindi, svo mikið að talað verður um þennan mánuð eins og spænsku veikina, 100 árum fyrr. Meira en helmingur skólabarna verða heima veik og það verður erfitt að manna heilbrigðisstofnanir sökum veikinda starfsfólks. Þetta verður gríðarlega erfitt og ríkisstjórnin mun þurfa að grípa til úrræða sem aldrei áður hefur verið beitt. Þetta fer þó allt vel en eldra fólk, og þeir sem eru veikir fyrir munu ekki allir koma heilir út úr janúarpestinni 2018.“ Það er þungt yfir Dollý þegar hún segir þetta, hún laumast í símann sinn og leitar uppi símanúmer heilsugæslunnar, slær því inn á minnismiða og bókar tíma í flensusprautu 2. janúar 2018!

Stjórnmál

„Það verður friður í stjórnmálunum, bæði er það vegna þess að þjóðin hefur ákveðið að þjappa sér saman vegna pestarinnar í janúar og vegna viðbragða ríkisstjórnarinnar sem þykja frumleg, ákveðin og skila tilætluðum árangri. Ríkisstjórnin heldur örugglega velli og vegur ríkisstjórnarflokkanna verður mikill í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Að auki munu Píratar láta að sér kveða út um allt land og þeirra hlutur verður stærri í sveitarstjórnum en áður hefur verið meðal hinna óhefðbundnu flokka. Annars sé ég það ekki að mikið líf verði vegna sveitarstjórnarkosninganna. Nokkrar hneykslunarsögur verða dregnar upp á yfirborðið í tengslum við #MeToo byltinguna og mun það verða til þess að bæjarstjóri í þokkalega stóru sveitarfélagi þarf að draga framboð sitt til baka. Að öðru leyti finn ég ekki miklar áherslubreytingar tengdar kosningunum.

Menningin

Þetta verður gott ár fyrir menninguna á Íslandi. Það ólgar þar undir niðri og við munum sjá sannkölluð gos á árinu 2018, fagurlega skreytt gos þar sem ungir og efnilegir listamenn munu njóta sín og uppskera eins og þeir hafa sáð. Þetta á ekki síst við í leiklistinni og líka meðal sagnamanna, sögumanna sem ekki eru beint rithöfundar en tala ákaflega fallegt og skýrt mál, líklega í útvarpi. Útvarpið mun njóta meiri virðingar vegna menningarþáttar síns en það hefur notið hingað til og yngri kynslóðin mun fara að njóta þess meira en áður að hlusta á talað orð í stað tónlistar.

Íþróttir

Þú ert búin að vera að bíða eftir þessu – er það ekki?“ Spyr Dollý og horfir djúpt í augu mér.

„Auðvitað, en ekki hvað, þú veist mér finnst gaman að fylgjast með íþróttum og mig grunar að árið 2018 verði stórt ár fyrir Ísland,“ segi ég

„Hvað þykist þú vita,“ hreytir Dollý í mig „viltu ekki bara koma með þessa spá sjálf fyrst þú þykist vita svona miki?“

„Ha, nei – nei nei, fyrirgefðu, ég tók bara svona til orða,“ segi ég og er nokkuð brugðið við viðbrögðin.

„Já gættu að því hvað þú segir kona. Orð hafa áhrif. Þú getur varpað gríðarlegri sprengju út í kosmósið ef þú gætir ekki orða þinna.“ Dollý var orðin rólegri og rýndi í kúluna sína. „Árið 2018 verður reyndar ekkert sérstakt íþróttaár fyrir Íslendinga, kröfurnar eru orðnar svo miklar að við ætlumst til þess að komast uppúr riðlinum á HM, að Ólafía Þórunn vinni risamót í golfi og Gylfi Sigurðsson verði kjörinn besti fótboltamaður á Englandi. Það mun ekki gerast, a.m.k ekki árið 2018. En fótboltalandsliðinu mun engu að síður ganga ágætlega á HM, þeir vinna Króatíu en tap gegn Nígeríu og Argentínu skilja strákana og þjóðina eftir í sárum. Sorgin mun vara í um 12 klukkustundir og svo tekur þjóðin gleði sína á ný og skiptist í flokka milli Argentínu eða Nígeríu. Engar áhyggjur Þjóðverjar verða heimsmeistarar.

Veður

Hér heima verður knattspyrnusumarið undirlagt af HM sem er leiðinlegt því veðrið sumarið 2018 verður alveg dásamlegt. Þurrkar munu þó hrjá bændur og þurfa þeir að fara út á tún til að vökva svo uppskeran eyðileggist ekki. Veðrið á Íslandi árið 2018 verður kalt fyrstu þrjá mánuðina, milt þá næstu, hlýtt í júlí og ágúst, milt í september, október og nóvember en svo skellur veturinn á af fullum krafti með gríðarlegu fannfergi og veðrum sem við eigum ekki að venjast.

Ferðaþjónustan mun halda áfram að blómstra, þvert á allar spár, og enn eitt lágjalda flugfélagið sendir hingað ferðamenn sem eiga erfitt með að finna sér gistingu við hæfi. Það verður æ algengara að við fáum fréttir af ferðamönnum sem koma hingað til lands upp á von og óvon hvort þeir fái gistingu eða ekki. Menn taka bara áhættuna og banka uppá hjá næsta manni og beiðast gistingar.

Náttúran

Veðrið verður bærilegt, kalt og hlýtt til skiptis, en minna um úrkomu en oft áður. Eldfjöllin okkar láta á sér bæra og þó ég hafi spáð því í mörg ár að Katla láti til sín taka þá finnst mér eins og það verði ekki árið 2018 – það er of mikið jafnvægi yfir því ári – ef hún fer af stað þá verður það seint á árinu, en líkast til ekki fyrr en 2019. Hekla aftur á móti, hún gæti sent frá sér litla spýju sem lokkar enn fleiri ferðamenn til landsins. Túristagos par excellence,“ segir Dollý og slær um sig með viskýglasinu. Hún er greinilega komin á flug og ég gæti þess að trufla hana ekkert.

„Náttúran verður samt ekkert alltof góð við okkur þegar á heildina er litið. Jörð mun skjálfa við Borgarfjörð og bændur kvarta undan þurrkum. Í mars verður talsverð ófærð víða um land og heilu byggðarlögin lokast inni. Þetta kallar á enn frekar umkvartanir og heimamenn hamast á þinginu að ausa meira fé í Vegagerðina. Mér er það lífsins ómögulegt að skilja að fólk sem býr á stöðum sem geta frekar auðveldlega einangrast skuli verða alveg óðir þegar það gerist. Já ég er að hugsa um Eyjamenn,“ sagði Dollý og gjóaði augunum í áttina til mín. „Hann þarna, bæjarstjórinn, verður enn eina ferðina alveg brjálaður og fær loks í gegn að ný ferja kemur til Vestmannaeyja, hún getur bara ekki alltaf siglt til Landeyjahafnar því þar hefur ekkert breyst. Hann mun því halda áfram að kvarta, en ég veit ekki hversu lengi, ég bara sé ekki svo langt!

Frægir

Hver er frægur, og hver ekki? Ég get bara ekki svarað því,“ sagði Dollý og ég samsinnti því. „Mér finnst t.d. Silla tromm mjög fræg, en aðrir hafa ekki hugmynd um hver hún er! Svona er lífið, það sama á við um þessa svokölluðu snappara, hver er frægur snappari? Á ég að spá fyrir um það? Nei þeir sem eru frægir, eru frægir hjá fleirum en þeim sem eru örfáum árum yngri en ég. Ég er að tala um Helga Björns, Björn Jörund, Andreu Gylfa og Jóhönnu Guðrúnu. Þau eru fræg og þau munu eiga það sameiginlegt að koma öll með slagara sumarið 2018. Mögulega mun eitt þeirra herja á Júróvisjón í vor en mér finnst þó að þangað muni fara ung stúlka með alveg frábært lag, sem Evrópumenn kunna engan vegin að meta. „Það sem einum þykir púkó, finnst öðrum kannski smart“ sagði gamall kærasti minn hér einu sinni og mér finnst það bara gott mottó. Maður á ekki alltaf að dæma aðra.

Leikarastéttin er brotin og vantraust ríkir innan hennar eftir upplýsingar úr #MeToo byltingunni. Þar verður gert mikið til að hreinsa út og hausar munu fjúka. Sjálfstæður leikhópur mun setja upp sýningu þar sem glefsað verður niður í sögur þeirra sem deilt hafa sögum sínum og verður uppselt á hverja sýninguna á fætur annarri.

Baltasar Kormákur mun ekki hafa hátt á árinu 2018, hann er hins vegar að undirbúa stóra mynd, risastóra mynd, sem mér sýnist að muni fara í framleiðslu árið 2019 eða 2020.

Logi Bergmann verður stór stjarna á skjánum einu sinni enn því Morgunblaðið kaupir sjónvarpsstöðina ÍNN og þar mun Mogginn hasla sér völl hægt og bítandi þannig að Vodafone sem var að kaupa 365 mun naga sig í handarbökin fyrir kaupin.

Stórtíðindi

Það verða nokkur stórtíðindi á árinu. Ein tengjast sveitarstjórnarkosningunum og #MeToo byltingunni já og biskupinn yfir Íslandi mun verða enn og aftur að sitja undir ámæli vegna vanrækslu í ofurlaunuðu starfi sínu. Svo mikið að menn fara að hugsa um hvernig hægt verður að koma henni úr embætti. Kirkjur landsins munu a.m.k. nötra vegna þessa. Þriðju stórtíðindin eru jarðhræringar, líklega gosið í Heklu. Já þetta þrennt mun standa uppúr.“

Persónulegt

Ég sé að það er farið að draga aðeins af minni konu og hún er farin að leggja höfuðið full langt til vinstri í rauða stólnum. Það er komin værð yfir hana og lengra er milli sopa úr viskíglasinu góða.

„Má bjóða þér vatnssopa?“ spurði ég varfærnislega en uppsker bara urr frá Dollý um leið og hún grípur í glasið sitt og hvæsir á mig „meira! Áttu ekki eftir að fá persónulegu spána?“

„Jú,“ hvísla ég um leið og ég set botnfylli í glasið hennar.

„Þú giftir þig á árinu – komst mér aðeins á óvart en það er erfitt að sjá 11 mánuði fram í tímann því ég ætlaði að spá brúðkaupi hjá þér á árinu 2018. En í staðinn verður þú með veislu, brúðkaupsveislu. Ekki of stóra – ekki of litla og einhverjir verða móðgaðir að hafa ekki verið boðið. Þar fer konan hans Gumma Ben fremst í flokki, það er aldrei hægt að gera henni til geðs svo ég myndi alls ekki bjóða henni neitt!“ segir Dollý og það glampar í augum hennar.

„Árið verður þér í heildina gott, þú ferðast með þinni og þið spilið golf. Þér líður vel í vinnunni þinni og vinnunni þinni líður vel með þér. Þetta verður gott ár og gott veri með þér barnið mitt.“

Dollý hjarnaði aðeins við, leit á mig, bað um kaffi og sagðist ætla að sitja í smá stund enn og spjalla. Það væri svo fjári kalt úti.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu