Dollý spáir fyrir árinu 2009

Undanfarin 3 ár hef ég hitt vinkonu mína og beðið hana um að spá fyrir um komandi ár. Stundum hittir hún naglann á höfuðið, stundum ekki.

 

Nýtt útlit Dollýar

Það var með hálfum huga sem ég lagði af stað til Dollýar vinkonu minnar, nú í lok desember, enda hafði viðskilnaður okkar síðast ekki verið eins og ég hefði kosið. Allt árið hef ég ætlað að hringja í hana og athuga hvort henni hafi orðið meint af svefninum á gólfinu en það eru sjálfsagt margir sem kannast við að árið er liðið áður en maður nær að snúa sér í hring. Áramót eru framundan og enn legg ég í hann til vinkonu minnar, til að fá hana til að spá fyrir um framtíðina.

Það var slagveður úti þegar ég mætti. Ég sá að það var búið að setja nýjar gardínur fyrir gluggann og þeir voru ríkulega skreyttir í tilefni hátíðanna. Á dyrabjölluna var komið nýtt nafn, Dulfríður Jósefína Hansdóttir, en undir nafninu og innan sviga var nafnið sem ég þekki -Dollý. Það kom á mig létt glott þegar ég sá nafnið hennar á prenti enda er konan aldrei kölluð sínu rétta nafni.

Rödd hennar var glaðleg í dyrabjöllukerfinu og hún tók á móti mér opnum örmum. Dollý var breytt, hárið á henni var með huggulegasta móti og ég er ekki frá því að hún hafi farið í ígræðslu. Í raun má segja að Dollý sem heilsaði mér undir lok ársins 2008 sé öll önnur og huggulegri kona en sú sem ég hef heimsótt undanfarin áramót. „Elskan mín, velkomin,” sagði hún og var greinilega búin að sötra einhverjar prósentur um daginn. „Ekki láta þér bregða við draslið en sú lettneska kemur ekki fyrr en á morgun, ef hún er þá ekki flúin land, blessunin.”

Í góðu sambandi 2008

Íbúðin hennar er breytt í meira lagi og ég missi út úr mér „Kom Innlit Útlit í heimsókn til þín Dollý?” Spurningin vekur upp ofsahlátur hjá Dollý sem slokknar skyndilega og hún hreytir út úr sér „Nei, það helvítis pakk vil ég ekki sjá innan minna veggja. Þetta hef ég allt skipulagt sjálf með aðstoð góðs fólks. Ég hef verið í góðu sambandi við bankaliðið á árinu. Þeir hafa hreinlega staðið í biðröðum fyrir utan dyrnar hjá mér og beðið mig um að segja til um afkomu bankanna, þeirra sjálfra og þeirra nánustu. Því betur sem ég hef spáð, því betri laun hef ég fengið frá þeim. Þetta hefur því ekki allt verið eins og ég hef séð það.” Það er ekki laust við að ég sjái glitta í kvikindislegt glott á andliti Dollýar þegar hún segir mér þetta. „Þessir sakleysingjar féllu fyrir hverri spá og þó ég varaði þá við því að trúa öllu sem þeim er sagt og að fara nú varlega út í myrkrið og nóttina, þá las ég það og heyrði í fréttum að þeir höfðu bara hlustað á jákvæðu tíðindin en heyrðu ekki orð af því neikvæða né því sem ég sagði við þá á leiðinni út. Annar skil ég það ekki enn af hverju þeir komu til mín blessaðir, en báru ekki erindi sitt upp við einhvern hagfræðing eða aðra sem hafa vit á þessum fjármálum. En ég gat gert upp íbúðina og nágrannar mínir halda að ég hafi unnið í happdrætti eða lottó! Því fer nú fjarri!”

Ris og fall

Kreppan er Dollý, rétt eins og öðrum, hugleikin en ég sé á henni að staða mála fær mjög á hana. Hún verður heldur kreppt í andlitinu og augun skjóta hreinlega gneistum.

Dollý fer ekki leynt með hvernig hún gerði upp íbúðina sína. En henni dettur ekki í hug að þó hún hafi verið bankamönnum leiðarljós í gjörðum þeirra þá beri nún nokkra ábyrgð á falli bankanna. Hún segist ekki hafa komið nálægt risinu og því ber hún ekki ábyrgð á fallinu.

Dollý skellti sér fram í eldhús og hellti uppá rótsterkt expressó fyrir okkur báðar. Hún bragðbætti sitt með göróttum drykk sem hún tók uppúr stórum rauðum kassa en ég afþakkaði pent, minnug koníaksins sem ég svældi í mig um síðustu áramót. „Jæja ljúfan, vildir þú ekki vita eitthvað um framtíðina?” Ég játti því og var það eins og við manninn mælt, vinkonan fékk hörkusvip á andlitið og hún horfði djúpt í augun á mér. „Ég spáði þessu í fyrra, öllum þessum hörmungar skelfingum. En það hlustaði enginn, eða kannski hefur þú ekki verið nógu öflug að koma þessu á framfæri. Reyndu nú að koma þessu til fólksins.” Ég lofaði því og spurði Dollý hvernig efnahagur íslensku þjóðarinnar yrði á næsta ári. „Þetta verður erfitt. Ákaflega erfitt, en þú þarft ekki að hafa neina dulræna hæfileika til að sjá það fyrir. Fyrri hluti ársins verður öllum erfiður en það verða alþingiskosningar snemma árs og breytingar verða miklar í stjórnmálunum. Menn munu hverfa af þingi í óþökk og það verða mikil uppgjör milli manna í kjölfarið. Menn ausa út úr sér leyndarmálum sem mest þeir mega og margt af því sem sagt verður hefði betur legið kyrrt, það á ekki allt erindi í eyru almennings.

Kosningar í vor

Krepputal mun algjörlega falla í skuggann og alþjóðasamfélagið mun horfa á af undrun og furðu. Menn sem við þekkjum, að við teljum vel, verða afhjúpaðir og íslenska þjóðin verður rúin trausti um tíma.” Hér bölvar Dollý ótæpilega og verður það ekki eftir henni haft og um leið lemur hún þéttingsfast í borðið svo rótsterkt kaffið sullast út um allt. Mér til undrunar stekkur Dollý á fætur, nær í tusku og þurrkar af borðinu.

Þegar þrifin eru yfirstaðin róast Dollý og segir með hægð: „Þjóðin mun læra að meta lífsins gæði uppá nýtt. Handverksmenn fá aukið vægi og sóun síðustu ára er sem betur fer fyrir bí. Þetta var orðið alltof mikið sukk á okkur, skelfilegt sukk. Því miður eru Íslendingar fljótir að gleyma og þeir sem halda staðreyndum á lofti verða margir hverjir úthrópaðir sem kverúlantar og fúllyndir einstaklingar sem hvergi eiga sér samastað í hinu pólitíska litrófi. Annars verður það svo að litir regnbogans munu ekki duga til að skýra frá þeim fjölda framboða sem koma fram fyrir alþingiskosningarnar. Því miður mun það verða gömlu fjórflokkunum til happs og fjöldi atkvæða munu falla dauð. Í framboðstjörninni mun synda heill her af hæfileikaríkum smáfiskum sem finna sér ekki flöt til þess að mynda eitt öflugt framboð og ágreiningur um aukaatriði verður til þess að þeir bjóða fram í sitt hvoru lagi. Því fagna aðeins þeir sem setið hafa við kjötkatlana hingað til.”

Spillingin leynist víða

Dollý stóð upp og blandaði sér annan bolla af kaffi og bætti út í hann. Hún bauð mér dýrindis súkkulaði sem hún geymdi í ísskápnum og ég sá glitta í afganga af ókennilegum fugli í skápnum hjá henni. „Þú varst að tala um spillingu meðal þekktra einstaklinga, eru þetta stjórnmálamenn eða?” spyr ég. „Stjórnmálamenn, embættismenn, viðskiptajöfrar … þeir finnast allsstaðar sukkararnir og eiginhagsmunapotararnir. Þeir hafa flutt gríðarlegt fjármagn úr landi og njóta aðstoðar úr innsta hring. Ég sé engin nöfn í því sambandi en eru þetta margir einstaklingar. Erlendir aðilar mun skoða þetta mál en þeir sem hafa hingað til hafa verið að skoða þessa hluti eru ekki hæfir til þess lengur sökum tengsla og krosstengsla við hina og þessa. Þetta er ótrúlegur grautur, ótrúlegur!” segir Dollý og dæsir hressilega.

„Annars verður þetta ekki endilega betra í útlöndum. Menn úti um víða veröld eru staddir í sömu hringiðunni og við erum í hér uppi á Íslandi en það er okkur til happs (ef happ skyldi kalla) að Íslendingar hafa ótrúlega aðlögunarhæfileika, við erum harðdugleg þjóð og höfum löngum unnið lengur og meira en grannar okkar. Það hjálpar okkur og við verðum búin að fá viðspyrnu í efnahagnum á haustdögum. Þaðan í frá mun okkur miða hægt og rólega uppá við á sama tíma og nágrannar okkar munu berjast við hrun af sama toga og við urðum fyrir í haust. Þar verður erfiðara að snúa ofanaf málum. Við munum á ný fara að njóta virðingar fyrir dugnað okkar og harðfylgi og sem betur fer munum við viðurkenna og vita af bjálkanum í okkar eigin auga áður en við bendum á flísina í augum náungans.”

Náttúruhamfarir fyrir austan

Ég sé að það dimmir yfir minni konu er hún rýnir ofaní kaffibollann sinn. „Ég hafði sem betur fer rangt fyrir mér um flóðin á árinu sem er að líða, ég hef ekki trú á að það hafi verið jarðskjálftarnir fyrir austan fjall sem ég sá. Þessi sýn sækir mjög að mér. Þetta er eitthvað fyrir austan, mér finnst þetta vera skriðuföll en það getur líka verið flóð. Það er dimmt yfir þessu, því miður, því miður!” Það er ekki laust við að ég heyri rödd hennar bresta þegar hér er komið og á borðið fellur vatnsdropi sem af himnum ofan, eða úr auga hennar. Hún lítur skyndilega upp og horfir beint í augu mér. „Þetta helvítis krepputal, ég nenni ekki að velta því fyrir mér lengur! Það getur hver sem er séð það fyrir hvað gerist. Alþýða manna mun rísa upp og við munum sjá hluti sem ekki hafa sést hér um áratuga skeið. En mikið andskoti sem menn eru fljótir að gleyma.” Hér verður Dollý sem steinrunnin í framan, horfir beint í augu mín og segir mér að skrifa orðrétt niður eftir sér. Ég bendi henni á upptökutækið og hún segir hægt og skýrt: „Elsku vinir takið ykkur nú til við að safna úrklippum, ummælum stjórnmálamanna, viðskiptajöfra, útrásaraumingja og annarra sem halda að þeir geti leikið á okkur … aftur. Leggið nöfn þessa fólks á minnið og hafið þau við höndina þegar það ætlar að bregða upp helgislepjusvipnum, ekki láta það gerast að þetta lið komist aftur til valda.”

Kvikmyndaleikstjóri slær í gegn

Enn stendur Dollý upp og blandar sér expresso með ábæti, sest niður en hefur nú skipt um gír. „Árið 2009 mun verða gott fyrir menningarlífið, sem mun þrífast sem aldrei fyrr. Margir munu hafa meiri tíma en oft áður til þess að framkvæma hugverk sín, hvort sem er á vettvangi tónlistar, myndlistar eða leiklistar. Rithöfundar munu fara mikinn á árinu og íslenska þjóðin verður dugleg að taka á móti hugverkum þessa fólks. Leitað verður eftir kröftum kvikmyndaleikstjóra erlendis, og hann mun gera vel í sínum störfum. Það mun þó ekki koma í ljós fyrr en á árinu 2010.

Einnig munu dansarar fara mikinn, en þar sem ég er ekki vel fróð um dansara þá get ég ekki séð hvaða danstegund þetta er … konurnar eru þó í það minnsta heldur fáklæddar fyrir minn smekk. Ein bók mun vekja sérstaka athygli á árinu, bæði hér heima og erlendis og hún mun verða verðlaunuð í bak og fyrir. Mönnum ber þó ekki saman um gæði hennar og á meðan einir hefja hana upp til skýjanna munu aðrir telja hana stolna og samsetta úr mörgum ritverkum fyrri tíma. Þetta verður ógurlegt fár undir lok ársins þegar menn gera upp bókaárið.”

Vonir við kvennalandsliðið

Dollý stendur á fætur einu sinni enn og ég sé á henni að hún er ekki sátt við að fá ekki stærri kaffibolla úr nýju kaffivélinni sinni. Þegar kaffivélin neitar henni um meira kaffi lemur hún þéttingsfast í hana, bölvar hressilega og skammast yfir þessu nýtískudóti og setur góðan slurk úr flöskunni í rauða kassanum í bollann sinn, tekur síðan nokkrar baunir úr kaffivélinni og mylur þær út í drykkinn þar sem þær fljóta ofaná gulum vökvanum.

Hugur Dollýar stendur nú til annarrar áttar og hún verður heldur þungbúin í framan.„Þetta verður ekkert sérstakt íþróttaár hjá okkur Íslendingum. Það verður svo mikill niðurskurður í íþróttafélögunum að okkar besta íþróttafólk leitar enn frekar til liða erlendis þar sem litið verður á íslensku leikmennina sem einskonar útsöluvöru. Þetta ástand verður til bölvunar fyrir deildirnar hér heima og mörg félög munu verða á algjöru flæðiskeri staddar. Vonir landsmanna verða þó bundnar við kvenfólkið í fótboltanum og það verður fylgst vel með þeim. Liðið mun koma mjög á óvart i keppninni og utanaðkomandi þættir munu verða þeim hagstæðir, stjörnurnar munu vaka yfir þeim. Þær vinna ekki til verðlauna en munu standa sig vel engu að síður, mér finnst þær munu komast á annað stig.”

Hér er ég farin að sperra eyrun, enda fylgist ég vel með kvennalandsliðunum í fótbolta og hef gert lengi. Dollý spáði fyrir um að liðið myndi komast í úrslitakeppnina í fyrra og það var ekki laust við að það hýrnaði yfir mér við þennan spádóm.

Gordon Brown sóttur til saka

En Dollý nennti ekki að eltast lengi við íþróttirnar, það kom löng þögn í eldhúsið, stöku sinnum heyrði ég rymja í kerlingunni en ekkert af viti kom uppúr henni. Hugur hennar var nú farin til útlanda. „Meira fárið á Englendingunum, þeir eru í dýpri vanda en þeir þora að viðurkenna og enn hefur Vilhjálmur Karlsson ekki sagt frá syni sínum (sem nú er kominn á annað ár). Gordon Brown mun hrökklast frá völdum um mitt ár og verður sóttur til saka fyrir misferli í störfum sínum sem forsætisráðherra. Einhverjir aðrir minni spámenn munu fylgja með og það verða gríðarleg mótmæli um Bretlandseyjar allar. Mikið verður óttast um byggð í afskekktum héruðum sem hafa farið illa út úr kreppunni og munu fá afleiður hennar af fullum þunga í sitt efnahagslíf.

Annars er þetta óþolandi, þetta orðbragð sem ég hef áunnið mér á árinu. Afleiður er orð sem ég hafði ekki hugmynd um hvað merkir. Mótmæli notaði ég afar sjaldan og kreppa hefur verið fjarri mér um áratuga skeið. Þessi andskotans orð hef ég lesið í blöðum og tamið mér í umgengni minni við þessa bankagaura sem hafa heimsótt mig á árinu. Þeir

eru þó hættir að koma blessaðir, mér skilst þeir séu fluttir úr landi. Ég man vel eftir kreppunni uppúr seinna stríði, það voru ömurlegir tímar, en þó voru þeir þannig að ég minnist þeirra með hlýju. Samstaðan og viljinn til að gera vel við náungann, þó af litlum efnum væri, er eitthvað sem Íslendingar geta tekið sér til fyrirmyndar í dag. Og munu reyndar gera á árinu 2009.

Götubardagar í Bretlandi

Það mun ekki verða þannig í Bretlandi, þar mun allt sjóða uppúr, ég sé götubardaga, virki og vígi, elda og reyk, blóð, svita og tár. Ömurlegt, ömurlegt. Það græðir enginn á slíkri framkomu. Norðurlandabúar verða hógværari en þetta mun lenda verst á Dönum sem ekki hafa undirbúið sig nógu vel og margir þar í landi munu hljóta þunga dóma almennings. Það munu þó ekki margir sæta ábyrgð eða verða dæmdir formlega fyrir aðild sína að hruni efnahagslífsins. Það er dökkt ský yfir mikilli byggingu á meginlandi Evrópu. Þar verður hart tekist á og einhverjar þjóðir munu segja sig úr bandalagi þjóðanna og það veikir sambandið verulega. Það verður mikið um mannaskipti í þessu húsi og einhverjir lenda í höndum lögreglu. Græðgin, græðgin er fljót að koma mönnum um koll.”

Bjartsýni með Obama

Skyndilega birtir yfir Dollý, sælubros færist yfir andlit hennar um leið og hún sýpur hraustlega úr kaffibollanum sínum. „Þetta er allt annað líf vestur í Bandaríkjunum. Þar mun heil þjóð öðlast nýtt líf eftir að hafa mátt sæta því að vera athlægi heimsins með Bush sem forseta. Obama verður ákaflega farsæll forseti, en það verður gerð atlaga að honum og ekki síður Clinton sem ég sagði að færi með honum í Hvíta húsið. Líklega verður sótt að honum strax á fyrri hluta ársins en hann sleppur naumlega frá ofbeldismönnum sem vilja honum illt. Bandaríkjamenn fara ekki varhluta af efnahagskreppunni en skynsemi í Hvíta húsinu og festa Obama verður þess valdandi að hrunið þar verður ekki eins djúpt og ætla mætti. Það fylgir bjartsýni þessum manni. Hann mun draga verulega úr kostnaði vegna hernaðar í Austurlöndum nær og verður sú ráðstöfun til þess að þjóðir þar um kring leitast við að jafna deilumál sín á milli, án aðildar Bandaríkjamanna eða NATO.”

Ekki af völdum Davíðs

„Þetta andskotans krepputal, ég ætlaði ekki að festast í því,”segir Dollý skyndilega og fær aftur harðneskjulega svipinn á andlitið. „Það er ótrúlegt hvað þetta hefur mikil áhrif, samfélagið allt verður gegnsósa af þessum fjára og ég sé ekkert annað. Veðurfarið á árinu verður heldur ekki til þess að létta á andlegri hlið þjóðarinnar. Sumarið verður vætusamt með afbrigðum og þó það verði ekki mikið um snjókomur í vetur verður veður svo rysjótt að það eykur áhrif þunglyndis á þá sem eru veikir fyrir. Þess mun sjá skýr merki, skýr merki,” segir Dollý sem andvarpar þungt og grípur um höfuð sér. Mér sýnist sem það sé að slokkna á henni en næ að spyrja hana um forsetann okkar og Davíð, sem voru henni svo hugleiknir í fyrra. „Þessir bjánar,” stynur hún upp. „Þú verður að fara að senda þeim spánna í ábyrgðarpósti. Davíð átti að hlusta á mig fyrir tveimur árum og stíga til hliðar og Ólafur átti ekki að bjóða sig fram aftur. Sjáðu bara í hvaða stöðu þessir fornu fjendur væru nú, ef þeir hefðu farið að mínum ráðum. Þeir gætu staðið glaðhlakkalegir fyrir utan þetta allt og bent til hægri og vinstri, austur og vestur, norður og niður og sagt ég sagði það, ég sagði það! Þess í stað sitja þeir í súpunni og hafa sjálfir kynt undir henni. Það er orðið hressilega heitt undir þessum köppum og þeim mun hlýna verulega á árinu 2009.

Davíð verður rekinn úr Seðlabankanum með skömm og Ólafur verður undir þungri pressu að segja af sé embætti. Hvorugur mun þó láta sér segjast. Davíð mun fara mikinn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú í upphafi árs og segja þar frá ýmsu því sem hann þykist vita um ástæður bankahrunsins. Það mun mælast vægast sagt illa fyrir innan ríkisstjórnar, sem í framhaldinu víkur honum úr starfi og boðar til kosninga. Davíð mun fá mikla hvatningu til að bjóða sig fram í nafni Sjálfstæðisflokksins og ekki halda að hann skorist undan því, nei vina mín hann mun taka þeirri áskorun. Það verður til þess að margir hverfa úr flokknum og efna til sérframboðs en Davíð mun berja sér á brjóst og segja að hann hafi alls ekki klofið flokkinn, heldur vísað honum veginn, bent honum á ljósið! Hann kann að orða þetta blessaður!

Dorrit flytur úr landi

Ólafur Ragnar mun ekki segja af sér sem forseti Íslands, en frami hans og virðing mun þverra verulega bæði hér heima og erlendis. Settar verða hömlur á ferðalög hans og dregið verður verulega úr kostnaði við forsetaembættið, sem er kominn langt úr hófi fram. Þetta verður til þess að Dorrit mun búa að meira eða minna leyti í Englandi. Það mun fara ákaflega illa í þjóðina sem telur að þessi draumadóttir sín sé þar með að svíkja sig. Í fyrsta sinn mun hún hljóta óvægna gagnrýni á störf sín og málsmetandi menn munu ekki skafa utan af áliti sínu á henni.”

Óvæntur formaður framsóknar

Skyndilega bregður Dollý hönd að enni sér og þurrkar þaðan lítinn svitadropa, en það er ekki laust við að hún brosi. „Þessar elskur vita ekkert hvaðan á þær stendur veðrið.” Ég stari á hana með eitt spurningamerki í andlitinu. „Framsóknarmennirnir ljúfan, frammararnir. Þeir eru við það að þurrkast út og Guðni á eftir að fara mikinn þegar hann lýsir starfsemi fyrrum félaga sinna í flokknum. Guðni, þessi ljúflingur, hann fer hreinlega hamförum og það verður hlustað á hann víða. Hann veit lengra en nef sitt hann Guðni. Dauðateygjur flokksins verða snemma árs, nýi formaðurinn kemur öllum á óvart, sérstaklega sínum eigin flokksmönnum. Það verða ekki mörkuð skýr skil milli flokksins og annarra flokka á árinu og það mun kosta þá mikið í þingkosningunum. Trúin á flokkinn er lítil sem engin en eins og hjá mörgum öðrum eru ennþá til nokkrir dyggir kjósendur, sem ekki hafa kosið annað um ævina, og svo á þetta fólk nána ættingja. En engir eru þetta ættarhöfðingjar skal ég segja þér, engir ættarhöfðingjar!”

Geir og Ingibjörg of hrekklaus

Ég sé að það er farið að draga af drottningunni, svo ég stend upp og sæki flöskuna úr rauða kassanum. Þá sé ég að þetta er koníak af dýrustu gerð, en þar sem lítið er eftir í flöskunni skelli ég afganginum í bollann hjá Dollý og myl nokkrar kaffibaunir út í. Spyr hana því næst um afdrif Geirs og Ingibjargar á árinu.

„Þú mátt ekki misskilja mig ljúfan, þetta er hið besta fólk, það eru góðar árur í kringum þau bæði. En þau eru full hrekklaus og þeim hættir til að treysta fólki um of. Þau mega helst ekki treysta neinum nema sjálfum sér og þá mun þeim farnast ágætlega. Þau verða bæði áfram á þingi og fá ágæta kosningu í vor en það er verulega af þeim dregið, blessununum. Geir mun eiga í erfiðleikum með að hafa stjórn á Davíð innan flokksins og honum mun hefnast fyrir það. Ingibjörg á að sama skapi í vandræðum með eitthvað af sínu nánasta fólki, mér sýnist vera mikill kvennaher í kringum hana sem veður dálítið á og margir munu pirrast verulega út í þá fylkingu. Það kann ekki góðri lukku að stýra og í fyrsta sinn á hennar stjórnmálaferli, velur hún ranga leið fyrir sig og flokkinn. Þetta verður erfitt ár fyrir nöfnu þina, afar erfitt ár.”

Hér slokknaði hreinlega á vinkonu minni en í þeirri mund sem ég var að bregða hönd hennar yfir öxlina á mér heyri ég dyrnar opnast og kona af útlendu bergi brotnu gægist inn um dyrnar. Þarna var Lydia komin, lettneska ræstingarkonan hennar Dollýjar. Hún kynnti sig kurteislega á ágætri íslensku og var fljót að taka undir hinn arm vinkonunnar og aðstoðaði mig við að koma henni inní rúm. Mér skildist á henni að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem hún aðstoðaði Dollý í rúmið svona um miðjan dag. En hún sagði að hún borgaði vel og væri ekki kræsin á hvort hún skúraði daglega eða léti duga að gera það öðru hvoru.

„Dollý mjög góð kona, hún bjarga mér alveg núna,” sagði sú lettneska og brosti út að eyrum er ég slökkti á upptökutækinu og gekk út í myrkrið. Vindurinn var genginn niður og sæmilegur hiti í lofti, kannski tákn um ylinn sem mun koma í íslenskt efnahagslíf undir lok næsta árs. Hver veit?

Spáin fyrir árið 2009

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu