Sif Garðarsdóttir – 50 ára

Blómin springa út og þau svelgja í sig sól
Sumarið í algleymi og hálft ár enn í jól.
Í hjarta okkar gleðjumst við og syngjum lítið lag
því Sif okkar Garðars … á afmæli í dag.

Við potta sína stendur snót og bruggar lítinn seyð
og skenkir okkur öllum – við drekkum hann í neyð
En þegar hún ber kökur inn við kætumst allar þá
því kræsingarnar fljóta –  ég verð í þær að ná

Og ekki vantar móttökur að heldri manna sið
og mamma gamla mætir hér lík‘í afmælið.
Við syngjum, allar kátar og fögnum hér í dag
Því Sif er orðin fimmtug – húrra, húrra, húrra!

Fimmmenningaklíkan

 

Og hér er ræðan sem ég flutti í afmælinu

Sif Garðarsdóttir 50 ára

hver hefði trúað þessu? Þegar ég hitti Sif fyrst, í 1. C í MK þá var ég nú svo sem ekkert að velta því mikið fyrir mér hvort ég, þú, Sif eða einhver annar bekkjarfélagi minn myndi líta út þegar hann yrði 50 ára, og ekki var maður að velta því fyrir sér hvort maður myndi sjálfur ná þeim háæruverðuga aldri. Persónulega er ég ekkert farin að velta því fyrir mér enda mjög langt í land með það hjá mér.

Einhverri hér inni, sem hefur þekkt mig lengur en nokkrar mínútur, getur kannski þótt það skrýtið að ég var ekki alltaf svona frökk og fús til að tjá mig við alla og um allt. Nei þegar ég mætti í 1.C í MK var ég feimin, fótboltastelpa sem hafði lítið til málanna að leggja. En svo kynntist ég Sif!

Já, þessi ræða á ekki að snúast um mig heldur um Sif enda á hún afmæli – er orðin hálfrar aldar gömul. Sif hefur nefnilega aldrei verið feimin og inní sér og ég lærði það fljótt að ef ég ætlaði að ná fótfestu í 1. C þá yrði ég að kjást við þessa stelpu úr Vesturbæ Kópavogs. Það gerði ég á þann eina hátt sem ég kunni – ég slóst við hana.

Já, í alvöru – en samt auðvitað bara í gamni. En við hættum að slást daginn þegar ég skellti henni á bakið og sveiflaði henni yfir mig þannig að hún lenti á borðaröðinni fyrir framan. Eftir þann dag urðum við vinkonur. Líklega hef ég skammast mín smá fyrir að hafa náð að feykja henni svona léttilega yfir mig og hún hefur sennilega talið það öruggara að hafa mig góða svo þetta atvik endurtæki sig ekki.

Í MK varð líka til fimmmenninga klíkan ógurlega. Í henni erum Sif og Arna úr vesturbænum, ég og Soffía úr austurbænum og svo fimleikasnótin, litla barnið, Hrund sem er auðvitað ekkert annað en villingur úr Breiðholtinu.

Við höfum oft velt því fyrir okkur fimmmenningarnir hvernig á því stóð að við urðum vinkonur og satt best að segja erum við ekki alveg vissar um það. Enn skrýtnara er þó að við skulum hafa haldið vinskapnum svona vel og þétt eftir menntaskólann því eins og alkunna er þá fór Sif ekki með okkur í útskriftarferðina til Rimini og höfum við hinar fjórar verið óþreytandi að segja henni sögur úr þeirri ferð. Reyndar er þetta orðið þannig að Sif er farin að segja okkur sögur frá Rimini, svo oft hefur hún heyrt þær.

Það er dálítið fyndið að standa hér í fimmtugsafmæli og segja þrjátíu ára gamlar sögur en ég má til með að rifja upp söguna úr biðröðinni í Hollywood þegar kviknaði í Sif. Já, þær voru fáar heitari í biðröðinni í Hollywood þetta kvöld. Reyndar var Sif ekki svona heit þegar hún mætti í röðina, heldur þvert á móti, hún var svo köld að einhverjir gæjar sáu sína sæng útreidda og sendu á hana flugeld til að hita hana hressilega upp. Og ég skal segja ykkur það að Sif með flugeld fastan í kápunni sinni í röðinni við Hollywood er eitthvað sem aldrei verður toppað.  Það er gott að geta hlegið að þessu eftir á og sem betur fer varð Sif ekki mikið meint af þessu atviki.

Já vinátta okkar Sifjar hefur staðið traustum fótum, enda er vinátta okkar stundum eins og ástar og haturssamband samlyndra hjóna. Vináttu samband okkar er ekki alltaf dans á rósum en á endanum náum við þó alltaf vel saman og okkur þykir ósköp vænt hvor um aðra. Sif er enda traustur vinur, orðhvöss á stundum, hún stendur fast á sínu en á til djúpa samúð þegar þannig stendur á og því hef ég sannarlega fengið að kynnast og fyrir það þakka ég.

En eitt eigum við Sif þó sérstaklega mikið sameiginlegt. Við erum báðar skáld. Hún er skáldið víðfræga, Boggi í brunni en ég er ýmist Ingó megabeib eða Dollý dulræna, eftir því hvernig landið liggur.

Þessar tvær – megabeibið og sú dulræna – ákváðu að slá saman í lítinn ljóðabálk Sif fimmtugri til handa.

Blómin springa út og þau svelgja í sig sól
Sumarið í algleymi og hálft ár enn í jól.
Í hjarta okkar gleðjumst við og syngjum lítið lag
því Sif okkar Garðars … á afmæli í dag.

Við potta sína stendur snót og bruggar lítinn seyð
og skenkir okkur öllum – við drekkum hann í neyð
En þegar hún ber kökur inn við kætumst allar þá
því kræsingarnar fljóta –  ég verð í þær að ná

Og ekki vantar móttökur að heldri manna sið
og mamma gamla mætir hér lík‘í afmælið.
Við syngjum, allar kátar og fögnum hér í dag
Því Sif er orðin fimmtug – húrra, húrra, húrra!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu