Sterka tómatkjötsúpan
Í dag var komið að tilraunaeldhúsi eftir langa bið. Ég hef reyndar gert nokkrar tilraunir frá því ég setti hér inn tilraunaeldhús síðast en það hefur bara ekki heppnast nægilega vel þannig að ég var ekkert að deila því með ykkur. En tilraunaeldhús kvöldsins var hreinlega dásamlegt!
Innihald:
- Lambakjöt, magurt skorið í litla bita
- Púrrulaukur
- Laukur
- Dós með söxuðum tómötum í ristuðum hvítlauk (Roasted Garlic)
- Gulrót
- Sæt kartafla
- Kartöflur
- Grænmetiskraftur
- Salt
- Pipar
- Turmerik
- Paprikuduft
- Lárviðarlauf
- Sterkur tómatkraftur
- Olía til steikingar
- Vatn
Ég átti nokkuð drjúgan lambaskanka í frysti sem ég afþýddi og úrbeinaði. Fitusneyddi kjötið alveg og skar það í frekar litla bita. Því næst sneiddi ég niður hálfan púrrulauk (hvíta hlutann) og skar lítinn lauk þunnt. Þá skar ég niður eina gulrót, 3 litlar kartöflur (afhýddar) og bita af sætri kartöflu.
Ég byrjaði á því að svissa laukinn í potti í ca 1 matskeið af olíu. Þá tók ég laukinn uppúr pottinum og bætti örlítið við olíuna og setti kjötið útí. Þegar kjötið var brúnað setti ég laukinn aftur útí, va 1 ltr. af vatni, tómatdósina, niðursneidda gulrót, kartöflur og sæta kartöflu. Þá kryddaði ég með því sem ég taldi upp hér að ofan og setti beinið af lambaskankinum með í pottinn til að fá meiri kjötkraft í súpuna.
Þegar þetta hafði mallað í ca. 15 mínútur smakkaði ég og fannst vanta smá bit í súpuna þannig að ég splæsti í hana sterku tómatmauki sem ég hafði keypt í Búdapest og er ætlað í gúllash súpu. Ef þetta er ekki til á þínu heimili má setja smá chilli duft eða skera niður chilli til að skerpa aðeins á súpunni.
Þá lét ég þetta malla í dágóðan tíma eða þar til kartöflur og gulrætur voru soðnar.
Dásemdin ein!
ps. ég set viljandi ekki inn stærðir, þetta þarf hver og einn að finna hjá sér, en ég notaði 1 gulrót, 3 kartöflur, bita af sætri kartöflu, hálfan púrrulauk, einn lítinn lauk, 2 lárviðarlauf, 1 Knorr grænmetiskraft, ca. 1,4 ltr. af vatni, teskeið af túrmerik, pipar og salti, 1/2 tekskeið af sterka tómatkraftinum