Þú gafst mér allt
Í dag var ég við útför Sigrúnar Sveinsdóttur, eiginkonu Gulla Júl fyrrum vinnufélaga míns og vinar. Þar sá Guðrún Árný um alla tónlist og hún lék við lok athafnar sérstaklega fallegt lag sem hún samdi við ljóð Hrafnhildar Viðarsdóttur, Þú gafst mér allt. Mig langar að deila lagi og texta með ykkur.
Ef rödd mín hefði vængi, þá flygi hún til þín
og myndi hvísla í eyru þín hve sárt ég sakna þín.
Þú kenndir mér á lífið, þú sýndir mér svo margt
þú huggaðir og verndaðir ef lífið var of hart.
Þú kenndir mér að syngja, þú dansaðir við mig
ef slæmir draumar herjuðu var nóg að faðma þig.
Þú kenndir mér að trúa á mig er sjálfstraustið var lágt
þú faðmaðir og hughreystir þegar ég átti eitthvað bágt.
Þú kenndir mér að syngja, þú dansaðir við mig
ef slæmir dagar herjuðu var nóg að faðma þig.
Þú gafst mér allt sem þurfti til að lukkan væri mín
það eina sem ég lærði ekki er að lifa án þín.