Ljómandi gott andasalat – andabringusalat
Um daginn fékk ég eðalgóða gesti í mat. Hingað mættu þrír vinnufélagar mínir og eiginkona eins þeirra. Tilefnið var að ég hef ákveðið að bjóða öllum mínum vinnufélögum í tilraunaeldhús til mín á árinu 2013 og var þetta fjórði hópurinn sem mætir.
Að þessu sinni var önd meginþemað í kvöldverðinum. Fyrst fengu þau Pekingönd sem þau vöfðu sjálf inní kínverska pönnuköku og borðuðu með vorlauk, agúrku og Pekingandasósu.
En á eftir fengu þau andasalat, sem var hið raunverulega tilraunaeldhús kvöldins því hinn réttinn hef ég eldað a.m.k. tvisvar sinnum áður.
Andabringusalat Dollýar
- 2 andabringur
- Lambhagasalat
- Rukolasalat
- 3 plómutómatar
- 1/2 rauð paprika
- 1/2 box íslensk jarðaber
- 1/2 box innflutt bláber
- 1/2 granatepli
Ég byrjaði á því að skera rendur í fituna á andabringunum, svona tígla þannig að fitan ætti auðvelt með að renna úr henni við eldun. Þvínæst makaði ég vel af Five spice kryddi sem ég átti til í skápnum hjá mér en ég keypti það í austurlensku búðinni á Laugaveginum fyrir um 2 árum síðan. Þetta voru síðustu droparnir af því góða kryddi.
Bringurnar marineruðust í kryddinu í hálfan sólarhring.
Þegar ég eldaði þær þá setti ég þær á blússandi heita en þurra pönnu með skinnið niður og lét þær malla í ca 3 mínútur áður en ég lækkaði hitann og lét þær liggja á skinninu í um 5-10 mínútur til viðbótar – passið bara að skinnið brenni ekki. Þegar skinnið er orðið stökkt og fínt þá hellti ég andafitunni af pönnunni, sneri bringunum við og leyfði þeim að malla á pönnunni í um 10 mínútur til viðbótar. Gætið að því að þá á pannan að vera komin niður í meðalhita.
Salatinu blandaði ég saman að hætti hússins og þegar andabringurnar voru tilbúnar leyfði ég þeim að hvílast í um 10 mínútur áður en ég sneiddi þær í þunnar sneiðar og raðaði á salatið.
Þetta var ekki bara fallegt heldur líka guðdómlega gott salat.
Bon appetit!