Geggjaðar villibráðasósur
Villibráðarsósa„mömmusósa“
- 4 dl gott villibráðarsoð
- 1-2 dl rjómi
- 1 tsk gráðostur
- 1-2 msk rifsberjahlaup
- salt og nýmalaður pipar
- sósujafnari
Setjið allt saman í pott, hleypið suðunni upp og þykkið með sósujafnara. Smakkið til með salti og pipar. Hentar vel með villibráð.
Villisveppasósa
- 250 g ferskir blandaðir villisveppir eða 30 g þurrkaðir villisveppir
- 170 g Flúðasveppir, skornir í báta
- 3 msk olía
- 2 dl portvín
- 1 dl brandí eða koníak
- 1 msk nautakraftur
- salt og nýmalaður pipar
- 3-4 dl rjómi
- sósujafnari
Leggið þurrkaða sveppi í bleyti í volgt vatn í 20 mínútur, ef þið notið þá, og sigtið vatnið síðan frá. Látið alla sveppina krauma í olíu í potti í eina mínútu. Bætið þá portvíni, brandíi og nautakrafti saman við og kryddið með salti og pipar. Sjóðið niður um ¾. Hellið rjóma út í og þykkið með sósujafnara. Þessi sósa hentar vel með öllu.
SÓSURÁÐ ÚLFARS FINNBJÖRNSSONAR
- Þegar eggjasósur eins og hollandaisesósa og béarnaisesósa skilja sig má ná þeim saman á eftirfarandi máta.
a) Þeyta eina eggjarauðu í skál yfir volgu vatnsbaði og hella svo sósunni sem er skilin varlega í mjórri bunu saman við eggjarauðuna og þeyta vel á meðan.
b) Setja 2-3 msk af súpu í skál og hella svo sósunni sem er skilin í mjórri bunu varlega í súpuna og þeyta vel á meðan. - Ef sósan verður of sölt er lítið annað hægt að gera en að bæta í hana soði eða rjóma og þykkja hana síðan aftur. Saltið alltaf súpur og sósur í lokin. Soð verður saltara eftir því sem það er soðið meira niður. Passið ykkur á tilbúnum kjötkrafti, hann er oft mjög saltur.
- Ef uppstúfið brennur er fljótlegra og betra að laga nýtt en að reyna að laga það brennda.
- Ef sósan verður of þykk má þynna hana með soði eða rjóma. Ef sósan er of þunn er hún bara þykkt aðeins meira með t.d. sósujafnara.
- Það er algjört bann að laga sósuna ef maður er í fýlu, vondu skapi eða illa fyrirkallaður. Það finnst á sósunni. Maður verður að hafa góðan tíma og brosa allan tímann. Þá brosir sósan á móti og verður ægilega góð.