#MeToo kvenna í menntageiranum

Frásagnir kvenna innan menntageirans
Eftirfarandi eru reynslusögur fyrrverandi og núverandi starfskvenna úr skólum og menntastofnunum. Reynslusögurnar eru ólíkar og fjalla um allt frá grófri kynferðislegri áreitni til mismununar sem erfiðara getur verið að festa fingur á. Gerendur í sögunum eru ýmist yfirmenn, samstarfsmenn, fyrirlesarar, iðnaðarmenn eða foreldrar nemenda – og þolendur eru konurnar sjálfar og stundum samstarfskonur þeirra eða nemendur. Nokkrar greindu frá áreitni af hálfu nemenda en þær frásagnir birtast ekki hér vegna þess hve viðkvæm slík mál eru í meðferð. Áberandi mynstur í sögunum er ráða- og úrræðaleysi
stjórnenda þegar tilkynnt er um ósiðlega og óásættanlega háttsemi. Þetta leiðir til þess að gerendur geta haldið áfram uppteknum hætti yfir lengri tíma og valdið ómældum skaða, ekki síst gagnvart nemendum. Við ítrekum því það sem fram kemur í yfirlýsingu okkar, við krefjumst skýrra verkferla til að takast á við kynbundna áreitni og ofbeldi, við krefjumst fræðslu og aðgerðaráætlunar. Við krefjumst umbóta!
#1
Ég starfaði einu sinni við framhaldsskóla þar sem kennari nauðgaði nemanda, utan skólatíma.
Skólastjóra var gert viðvart en kennarinn var ekki kærður fyrir verknaðinn. Stjórnendur voru
sammála um að maðurinn yrði að hætta störfum við skólann. Skólastjóri kallaði kennarann til sín
og gaf honum kost á að segja upp störfum. Niðurstaða fundar þessara tveggja karla var að
kennarinn sagði upp undir því yfirskyni að hann ætti við veikindi að stríða. Hann fékk að senda
tölvupóst á starfsfólk skólans þar sem hann tilkynnti að hann hefði sagt upp störfum og væri að
leita sér lækningar. Að sjálfsögðu uppskar kennarinn mikla samúð og var óánægja með það að
maðurinn hefði sagt upp störfum, nær hefði verið að hann færi í veikindaleyfi. Þetta mátti maður
hlusta á á kennarastofunni, vitandi hver hin raunverulega ástæða var. Þar sem maðurinn var ekki
kærður taldi skólastjórinn að sér og okkur væri óheimilt að svo mikið sem gefa það í skyn hver
raunveruleg ástæða fyrir uppsögninni væri. Þetta þýðir að maðurinn er með „óflekkað mannorð“
og hefur síðan starfað sem framhaldsskólakennari við fleiri en einn skóla. Enn þann dag í dag
verður mér illt við tilhugsunina um þennan mann við kennslu unglinga.
#2
Fékk, upp úr þurru, senda óumbeðna typpamynd frá karlkyns samstarfsfélaga í leikskóla, seint um
kvöld. Fannst það óþægilegt og vissi ekki hvernig eða hvort ég ætti að bregðast við. Gerði ekkert.
Næst þegar ég hitti hann í vinnunni var ég mjög meðvituð um þetta og það truflaði mig. Hann virtist
ekki pæla hið minnsta í þessu og framkoma hans var á engan hátt öðruvísi en áður. Þó ég hefði séð
á honum typpið, án þess að vilja það.
#3
Þegar ég var nýútskrifuð fékk ég fína vinnu í góðum skóla. Á fyrsta skemmtikvöldi með nýja
samstarfsfólkinu segir skólastjórinn hátt og snjallt við mig, og hóp samstarfsfélaga minna, að ég hafi
fengið starfið vegna góðra og stórra brjósta. Mjög vandræðalegt fyrir mig, sérstaklega svona
nýútskrifuð og að reyna að líta fagmannlega út í nýja starfinu.
#4
Á mínum vinnustað fyrir nokkrum árum var maður sem réðst harkalega að samstarfskonu minni og
hún hætti í kjölfarið. Á þessum vinnustað var unnið þétt saman í sérdeild og þegar ég byrjaði að vinna
þar þá byrjaði hann á því að láta mig fá DVD mynd um konu sem var í sambandi við tvo karlmenn. Ég
varð hissa og hélt kannski að allir í deildinni hefðu séð þessa mynd (afsakið, ég var einum of bláeygð).
Síðan byrjaði hann að áreita mig kynferðislega og endaði með því að ég kvartaði við verkefnastjóra
sem sagði bara ekki neitt. Áreitnin hélt áfram og það var eins og honum leyfðist allt, en hans flokkur
stjórnaði borginni á þeim tíma. Ég varð fyrir miklu áfalli og fékk mikla áfallastreituröskun og áttaði mig
ekki almennilega fyrr en ég leitaði til Stígamóta. Þar fann ég alla þá hjálp, aðstoð og útskýringar sem
ég þurfti. Ég hafði farið á fimm fundi hjá mannauðsfulltrúa borgarinnar og sagt henni frá þessari reynslu
minni. Þegar lögfræðingur minn vildi fá fundargerðir þessara funda var henni sagt að þeim hefði verið
hent, fyrir utan síðasta fundinn sem ég átti. Eftir þetta mátti ég þola opinberar ofsóknir af hálfu þessa
manns, sem alltaf var að sýna vald sitt.
—–
Þessi sami maður elti mig inn á klósett á jólagleði og reyndi að kyssa mig. Maðurinn minn var
uppi. Þá kvartaði ég við skólastjóra en honum var aldrei veitt tiltal eða áminning enda vorum við
bara hluti af þeim konum sem hann hafði óáreittur komist upp með að áreita í gegnum árin.
#5
Fyrr á þessu ári var ég á árshátíð, þar sem fyrrum samkennari minn var og fyrrum nemandi (stelpa).
Samkennarinn fór að slá nemandanum gullhamra, hvað hún væri falleg og að hann hefði alltaf séð
hana fyrir sér verða módel. Mér fannst þetta í raun mjög óviðeigandi. Stúlkunni var svarafátt og mér
líka!
#6
Ég var skólaritari í grunnskóla og farsæl í starfi þangað til ráðinn var maður yfir skólavistuninni. Hann
virtist ágætur í fyrstu en svo var farið í árlega óvissuferð og þá hófst áreitnin. Hann káfaði stöðugt á
mér alla ferðina, hallaði sér upp að mér og faðmaði mig í tíma og ótíma. Ótrúlega ógeðslegt. Svo fór
ég út fyrir til að anda en þá kom hann á eftir mér, króaði mig af og sagði slepjulega að við værum
ekkert búin að kyssast það kvöldið. Ohh. Fæ enn hroll við að rifja þetta kvöld upp. Strax næsta
vinnumorgun klagaði ég hegðun hans til skólastjórans og skólastjórinn lofaði að tala við manninn en
tók fram að vegna þess að þetta hefði ekki gerst í skólanum á vinnutíma væru völd hans takmörkuð
varðandi að gera eitthvað fleira. Það má taka fram að ég var ein af fimm konum sem klöguðu hann
fyrir kynferðislega áreitni þetta sama kvöld. Maðurinn baðst afsökunar eftir að skólastjórinn talaði við
hann. Ég tók afsökunarbeiðnina gilda en gerði honum ljóst að mér þætti hann hafa óþægilega nærveru
og ég óskaði ekki eftir henni. Eftir þetta sýndi hann mér alltaf fjandskap, frekjugang og dónalega
framkomu, Hann var ógnandi og ruddalegur oft á tíðum og reyndi oft á þolrifin. Mér leið eins og snákur
væri laus í skólanum og var orðin ein taugahrúga þarna. Hann var liggjandi utan í flestum konum sem
unnu með okkur og hann virti engin mörk. Engin gerði samt neitt og andrúmsloftið var þrúgandi. Það
gekk svo langt að aðstoðarskólastýrunni, fannst hann svo óþægilegur að hún bað mig um að koma
inn til sín þegar ég sæi hann fara inn til hennar og sagðist koma fram til mín þegar hún heyrði hann
koma inn á skrifstofu til mín. ,,Við verðum að hjálpast að og veita hvor annarri stuðning þegar hann
birtist”, sagði hún. Hann var samt ekki látinn fara og fékk aldrei annað tiltal á meðan ég vann þarna.
Svo var hann farinn að hanga með unglingsstúlkunum og sýna þeim svona ágengni og slepjugang og
ég benti skólastjóranum á það og ég fann að hann var orðinn leiður á mér og taugaveiklun minni. Þá
ákvað ég að hætta, því ég vildi ekki vera þarna þegar eitthvað hræðilegt gerðist með nemendur. Ég
hætti og lét skólahjúkkuna vita af því að hann væri að daðra við unglingsstúlkurnar og hún lofaði mér
að fylgjast með þessu. Það kom svo í ljós að maðurinn var ekki bara kynlífsfíkill heldur líka í neyslu og
svo fór að hann hætti eftir að eitthvað kom uppá. Nú eru átta ár síðan og ég er enn með þetta á bakinu.
Maðurinn sem áreitti mig kynferðislega, lagði mig í einelti eftir að ég klagaði hann og hafnaði nærveru
hans, hann hrakti mig úr starfi. Ég veit núna að maðurinn var veikur en það situr í mér að skólastjórinn
leyfði þessu að viðgangast og gerði ekkert til að hjálpa mér eða stoppa þetta.
#7
Samstarfsmaður minn, karlmaður nokkrum árum eldri sýndi mér yfirgang og stjórnsemi í margs konar
formi um langt skeið. Þetta ástand hafði mikil áhrif á mig og fjölskyldu mína. Samstarfsmaðurinn virtist
vel tengdur út í samfélagið, vanur að stjórna og að fá sitt fram og settist oft á skrifstofu skólastjóra sem
var yngri. Ég bar ábyrgð á sameiginlegu verkefni en átti í vandræðum með að sitja fundi með honum
vegna stjórnsemi hans. Ég bað meira að segja um að verkefninu væri skipt í tvennt til að losna við
hann. Þeir sem vissu af þessu virtust átta sig á yfirgangi en þótt ég leitaði til trúnaðarmanna og
skólastjórnenda með málið var nánast ekkert tekið á þessu af alvöru.
Hér er ein saga (af mörgum) sem lýsir hvernig reynt var að horfa í gegnum framkomu sem var ekki í
lagi.
Ég sat með viðkomandi starfsmanni á fundi ásamt skólastjóra skólans. Samstarfsmaðurinn óð áfram
í hroka, fór með rangfærslur og gerði lítið úr mér og talaði niður til mín á fundinum. Mér var eiginlega
brugðið þegar ég sá að hvorki var gerð nein athugasemd við málflutning né hegðun hans. Eftir fundinn
hinkraði ég við hjá skólastjóra en samstarfsmaður minn fór. Þegar við vorum orðin ein spurði ég
skólastjórann, finnst þér í lagi hvernig samstarfsmaðurinn talar við mig? Skólastjórinn svaraði ekki
spurningunni. Ég spurði skólastjórann aftur, finnst þér í lagi hvernig samstarfsmaðurinn talar við mig?
Hann svaraði ekki heldur í það skiptið. Þá spurði ég skólastjórann í þriðja sinn, finnst þér í lagi hvernig
samstarfsmaðurinn talar við mig? Loksins í þriðja sinn sem ég spurði þessarar sömu spurningar
svaraði skólastjórinn henni og sagði: nei, auðvitað finnst mér það ekki í lagi. Ég skal senda honum
tölvupóst með athugasemdum. Ég sá aldrei sjálf þann tölvupóst.
#8
Ég átti ýmiss konar samskipti við einn yfirmannanna minna í menntakerfinu (hvorki skólastjóri né
samkennari) um árabil auk þess að fylgjast með samskiptum fleira fólks sem stendur mér nærri við
hann. Ég, ásamt fleiri konum, deildum á hann fyrir framgöngu í máli skólastjórnanda nokkurs sem var
„hrakin‟ frá störfum af honum og síðar kom að næsta stjórnanda sem einnig sagði upp. Allt um það,
hann varð að hverfa frá starfi sínu og fékk starf í yfirstjórn menntamála í landinu. Þar sótti ég um
sérfræðistarf og áður en fjallað var um umsóknir hafði hann lýst því yfir í heyranda hljóði að hann vildi
mig ekki, með tilheyrandi hnjóði um ókosti mína. Ég var talin jafnhæf þeirri sem ráðin var en er eldri
og reyndari.
Ég á nokkrar kunningjakonur sem hafa sagt mér og fleirum frá bæði viðreynslum þessa manns og
yfirlýsingum um gamlar og leiðinlegar konur (ekki síst í hópum undirmanna hans). Þessi maður missti
fína starfið en fékk annað sérfræðistarf í stoðkerfi stórs sveitarfélags svo hann getur haldið uppteknum
hætti áfram. Þessi maður mun hafa verið kærður fyrir einhvers konar áreitni gagnvart skjólstæðingi
(nemanda í grunnskóla) en ég veit ekki um lyktir þess máls.
#9
Atvikið átti sér stað á árshátíðardegi nemenda. Allir nemendur voru búnir að standa sig með stakri
prýði og nemendur, foreldrar og starfsmenn voru að drekka kaffi saman. Allt í einu sé ég að
skólastjórinn ræðst á einn kvenkyns umsjónarkennarann og kyssir viðkomandi á kinnina. Mér bregður,
trúi ekki að þetta sé að gerast og fæ hryllings hroll um mig alla og hugsa með mér að ég ætla ekki að
leyfa honum að ná að kyssa mig. Ég verð stressuð, á varðbergi og ætla ekki að láta hann ná að kyssa
mig. En allt kemur fyrir ekki, skólastjórinn nær að koma aftan að mér og kyssa mig á kinnina. Ég ætla
ekki að lýsa þeirri viðbjóðslegu tilfinningu sem fór um mig alla. Ég veit ekki til þess að skólastjórinn
hafi ráðist á karlkyns umsjónarkennarana og kysst þá eftir árshátíðina. Ég get þetta ekki og vil þetta
ekki.
#10
Vann í menntastofnun og þar voru karlar sem töldu það sem sjálfsagðan hlut að káfa á konum. Sem
dæmi má nefna deildarstjórann sem fann sér sífellt tækifæri til að koma inn á skrifstofuna mína, loka
og standa óþægilega nálægt mér á meðan hann bað mig um að leita af einhverju ómerkilegu í tölvunni,
notaði hvert tækifæri til að taka utan um mig og kyssa óþægilega nálægt munninum. Rekstrarstjórinn
sem sló möppu í rassinn á mér ef hann gekk á eftir mér… ógeð!!!
#11
Fyrstu ár mín í kennslu var eldri karlkennari sem fannst í lagi að taka utan um mig, strjúka um mitti og
spyrja hvort ég hefði fitnað. Hann vildi jú hafa konur mjúkar. Mér fannst þetta óþægilegt en mórallinn
var að þetta væri nú bara hann X.
Sömu viðbrögð af minni hálfu nokkrum árum fyrr þegar kennari minn í Háskóla Íslands bauð mér heim
með sér eftir kennslu af því konan hans væri í útlöndum. Lét mig hafa það að mæta áfram í tíma og
hunsa kallinn.
Eða losna undan fulla karl kennaranum á dimissjón, eða…
Hversu eðlilegt er að vera orðin vön að hrista svona af sér á menntaskóla aldri?
Sem ung sjálfstæð menntuð kona alin upp á jafnréttisheimili lét ég þetta samt yfir mig ganga. Þetta
var bara það sem maður var vanur og lét ekki stoppa sig. Sorgleg aðlögun að umhverfinu en ég álasa
ekki ungu útgáfunni af mér.
#12
Ég var í jólagleðskap skólans þar sem mér eldri maður var sífellt að draga mig til sín og láta mig setjast
í fangið á sér. Allt kvöldið var hann að dónast við margar okkar og sérstaklega aðstoðarskólastjórann
sem honum fannst sýnilega mjög brjóstgóð.
#13
Ég hef sem betur fer aldrei lent í neinu ólöglegu. Ég er að jafnaði ófeimin að láta í mér heyra og láta
fyrir mér fara. Það hefur farið í taugarnar á mönnum, en líka fælt margan starfsfélagann frá. Þess
vegna kom það sjálfri mér á óvart hve óþægilega mikið það sló mig út af laginu þegar einn þeirra fór
að leita í mig. Ég var að vinna við framhaldsskóla þar sem hann m.a. kennir valfag sem ég er menntuð
í. Hann er 20 árum eldri en ég, ekki óþekktur í menningarlífinu og frekar mikill sérvitringur. Mér þótti
margir snubbóttir við hann, sérstaklega samstarfskonur mínar. Ég hef að jafnaði gaman að fólki sem
er öðruvísi en flestir – og eins og ég segi, hef áhuga á faginu sem hann kennir – svo ég spjallaði
einhverntíma við hann um það.
Þetta varð til þess að hann fór að koma til mín í tíma og ótíma til að tala. Fyrst bara um fagið. Hann
kom með greinar og annað til að sýna mér. Mér þótti það óþægilegt, en gat ekki alveg sett fingur á
hvers vegna. Ég tók eftir því að hann kom aldrei nema ég væri ein á vinnuherberginu. Svo var hann
farinn að bíða fyrir utan kennslustofur þegar ég kom út úr tíma. Labba “samferða” mér á
kennarastofuna. Talið færðist meira og meira yfir í líkamlega hluti. Hann hrósaði mér reglulega fyrir
útlit og var farinn að bjóða mér nudd og heimsóknir. Hann stóð stundum fyrir dyrunum, svo það var
erfitt fyrir mig að komast út úr stofunni.
Ég var hætt að nenna á kennarastofuna. Ég var hætt að sitja ein eftir í vinnuherberginu þegar aðrir
fóru. Ég var hætt við að fara með í starfsmannaferðina sem var framundan. Mér verður ennþá pínulítið
flökurt þegar ég hugsa um hann.
Ég er alin upp af femínistum kynslóðir aftur. Ég er alin upp í gettói í útlenskri borg, þar sem maður varð
vitni að ýmsu. Ég er mamma og hef gert mikið úr því að ala upp stráka sem skilja að misnota ekki
meðfætt vald sitt og stelpu sem lætur ekki kúga sig. Mamma mín gapti þegar ég sagði henni að ég
ætlaði að sleppa utanlandsferð kennara… útaf þessum litla, ómerkilega manni?!
Ég tók mér tak. Ef mér átti að finnast vinnan erfið eða leiðinleg átti það a.m.k. EKKI að vera í hans
höndum! Ég hætti að afsaka mig: „Ég hef ekki áhuga á að heyra þetta.‟ „Mig langar ekki að tala við
þig.‟ „Viltu gjöra svo vel að fara frá, ég vil komast framhjá.‟ Ég stóð upp og færði mig í hvert sinn sem
hann settist við sama borð og ég á kennarastofunni. En hann hætti ekki.
Einu sinni mættumst við í tröppunum.
Hann: „Það fer þér svo vel að hafa hárið svona upp.‟
Ég, á meðan ég reif hnútinn úr hárinu: „Ég hef ekki áhuga á að heyra hvað þér finnst.‟
Hann: „Þú ert svo mikil valkyrja. Það er svo mikið spönk í þér. Ég elska valkyrjur!‟
Þar með voru öll vopn slegin úr hendi mér. Ákveðni mín jók áreitið. Þá fór ég að tala við fólk í kringum
mig. Kom í ljós að þær voru fleiri sem hafði liðið illa vegna hans. Ég fór til skólastjórnenda. Hann kennir
þarna enn. Sömu áfangana. Mest valáfanga. Meirihluti nemenda hans eru strákar…
#14
Ég var að fara með nemendur mína í mat þegar ein (kona) sagði við mig að kokkurinn (karlmaður)
væri að velta því fyrir sér hvort ég fengi það reglulega. Kokkurinn brosti þegar hún spurði mig. Ég fór
hjá mér og hreinlega man ekki hvernig ég svaraði. Þegar ég verð vandræðaleg og veit ekki hvernig ég
á að bregðast við þá hlæ ég, sem ég gerði þarna. Mér leið ekki vel eftir þetta og sagði samstarfskonu
frá þessu og hún sagði að þetta þyrfti að tilkynna skólastjóra. Við fórum saman og hann efaðist um
orð mín. Sagði að það þyrfti jú að tala við þau „ef þetta var þá sagt.“ Ég sagði að ég væri ekki að búa
þetta til og samstarfskona mín varð líka reið, sagði að ég hefði ekki þorað að koma ein. Skólastjórinn
talaði við þau og konan var sú sem baðst afsökunar en ekki kokkurinn. Sú sagði reyndar í
afsökunarbeiðninni að ég hefði nú farið að hlæja og því hefði hún haldið að þetta væri alveg í lagi. Ég
sagði svo ekki vera, mér hafi þótt þetta mjög óþægilegt og sérstaklega þegar kokkurinn stóð þarna hjá
og brosti.
#15
Í starfsmannaferð erlendis var veskistöskunni stolið, seint um árshátíðarkvöld. Ég fæ lobbystrákinn til
að fylgja mér og opna fyrir mér þar sem lyklarnir voru í veskinu. Þar bíður samkennari á nærbuxunum,
upp í rúmi, án sængur, hvítvín bíðandi á borðinu. Eftir að ráðfæra mig við trúnaðarmann sagði ég
skólastjórnendum frá þessu sem töluðu við samstarfsmanninn, hann neitaði, sagði að ég hefði boðið
honum. Stjórnendum og trúnaðarmanni fannst ég ekki eiga völ á neinu nema kannski setjast niður
með manninum og fronta hann, þetta væri orð á móti orði. Einnig hafði ég skemmt fyrir trúverðugleika
mínum með því að trúa öðrum fyrir þessu. NB það voru vitni að þessu en ég er sú sem er unstable í
augum stjórnenda, eða það virkar þannig allavega.
#16
Í vinnuherbergi kennara sátu ég og þrír samstarfsmenn þegar einn ákveður að spyrja: „Jæja, segðu
okkur nú, ertu með silikon í brjóstunum?‟
Hinir tveir líta upp frá tölvunum og segja ekki neitt, en sitja og horfa á mig og bíða eftir svari.
#17
Sem kennaranemi var ég að ræða við leiðsagnarkennarann minn um hópinn sem ég var að kenna í
æfingakennslu. Þetta var kennsla í framhaldsskóla og ég minntist á hvað ég væri ánægð með að hafa
náð til ákveðins drengjahóps sem hafði verið áhugalítill í fyrstu.
Ekki stóð á svari hjá leiðsagnarkennaranum (karlmaður á miðjum aldri sem náði ekki til þessara
drengja): „Þeir eru bara allir skotnir í þér.‟ Mér brá svolítið en tókst þó að svara að ég teldi nú að
kennsluaðferðirnar og nálgun mín væri það sem skipti máli. Aftur heyrðist: „Nei nei, þeir eru bara
skotnir í þér.‟ Ekkert bros eða grín fylgdi þessu, eins og manninum væri bara fúlasta alvara. Á þessum
tímapunkti átti ég eftir að kenna hópnum nokkra tíma sem ég og gerði en það var ekki þægilegt að
hafa þetta í hausnum á meðan.
Þegar ég átti svo að skila skýrslu til bæði viðkomandi skóla og kennarans míns í háskólanum ákvað
ég eftir smá umhugsun að skrá þetta atvik með. Lét einnig fylgja að mér hefði þótt þetta afar
óviðeigandi framkoma sem hefði mögulega brotið einhverja. Ég veit ekki hvort það breytti einhverju en
ég þagði allavega ekki og það var ákveðinn léttir.
#18
Samstarfsmaður hefur spurt í skólaheimsókn erlendis hvort ég ætlaði að koma upp á herbergi að ríða.
Seinna sagðist hann alltaf vera að horfa á rassinn á mér á kennarastofunni og í þó nokkur skipti gerði
hann rassinn á mér að umræðuefni, að ég yrði að kaupa mér þröngar buxur því hann gæti þá hugsað
um mig þegar hann rúnkaði sér. Svo þegar hann frétti að ég væri að hitta mann sem hann kannast við
tilkynnti hann mér á gangi skólans hvað sá væri nú heppinn að fá að negla mig.
Sá sami frétti að ég hefði sagt frá þessu og hefur síðan þá hunsað mig markvisst.
Ég er nýbúin að tilkynna þetta og bíð svo bara með hnút í maga.
#19
Samkennari sem margoft hafði sagt dónalega hluti við mig og káfað „óvart‟ á rassi og brjóstum í
gegnum árin, greip eitt sinn um bæði brjóstin á mér inni á kennarastofu, kleip fast og sagði: „Góðan
daginn!‟ Samstarfskona okkar varð vitni af þessu og við urðum báðar svo kjaftstopp að við sögðum
ekkert. Samt finnst mér svona líkamlegt og augljóst kynferðisáreiti skárra en þegar dansað er á þessari
gráu línu þar sem erfitt er að svara fyrir sig án þess að fá tilbaka, „hva voða ertu viðkvæm, ég var nú
bara að grínast‟ eða „ég meinti þetta nú ekki svona, ekkert má nú segja.. ‟ Sitja svo sjálfur uppi með
efann og óþægindatilfinninguna sem grefur undan öryggi bæði manns sjálfs og því umhverfi sem
maður þarf að vera í með þessum aðila. Þess vegna finnst mér #metoo svo mikilvægt.
#20
Ég fór í heimsókn á leikskólann þar sem ég vann, með litla nýfædda strákinn minn. Þar unnu tveir
ungir strákar með mér. Annar þeirra hafði talað opinskátt um hversu kynæsandi ég væri þegar ég var
ólétt. En þarna á kaffistofunni var það fyrsta sem ég fékk að heyra að ég væri með flott brjóst. Þeir
hefðu sko fengið að sjá það á mynd og bentu mér á vegginn þar sem við blasti útprentuð mynd af mér
með splunkunýja strákinn minn í fanginu og það sást í brjóstið mitt. Móðir mín sem þekkir
leikskólastýruna hafði sent henni myndina, stolt af afkomendum sínum. Ég var ekki svekkt yfir því að
myndin hengi þarna þó það hefði verið óþarfi en að þessir strákkjánar sem voru að vinna á
„kvennavinnustað“ skyldu horfa á hana í kynferðislegum tilgangi fannst mér vont.
#21
Fyrir mörgum árum var ég að vinna á menntastofnun með nokkuð mörgum konum en fáum körlum.
Einn karlinn var þekktur innan ákveðins hóps í samfélaginu, vinsæll og skemmtilegur og naut
athyglinnar sem hann fékk frá konum. Þetta var giftur maður með þrjú ung börn. Ég var í nýju sambandi
sjálf og kærastinn var mikið að vinna í burtu. Þessi maður virtist vera með það á hreinu hvenær ég hitti
kærastann eftir langa fjarveru því hann spurði mig oft eftir að við höfðum hist hvort við hefðum tekið á
því alla nóttina eða hvort ég væri þreytt og svo framvegis. Ég hló nú bara að þessu þá en á
jólaskemmtun sem var makalaus fór hann svo alveg yfir strikið. Hann flögraði um á milli þeirra kvenna
sem honum leist á og settist svo hjá mér um kvöldið og sagði að ég væri langfallegasta konan á
svæðinu. Mér fannst þetta mjög óviðeigandi af manni í sambandi að láta svona en þakkaði bara fyrir.
Seinna um kvöldið fórum við nokkur saman á bar. Ég stóð við röðina á barnum í stuttum kjól og var
að panta drykki þegar hann kemur aftan að mér þrýstir sér að mér og fer með hendina á bólakaf undir
allt og beint í klofið á mér. Ég frýs en næ svo að hreyta í hann og ýta honum frá mér. Ég tala ekki við
hann um kvöldið meira, en á mánudeginum biður hann mig afsökunar sem ég meðtek enda ómögulegt
að vinna með fólki í leiðindum. En hann heldur áfram að daðra við aðrar konur sem honum lýst á, á
þessum vinnustað. Nýlega hitti ég mann sem er að vinna með þessum manni og hann barst í tal og
ég spyr hann hvernig hann sé. Kunningi minn segir að hann sé vaðandi í ungu stelpunum og notfæri
sér fornu frægð sína. Það er sorglegt að hugsa til þess að ennþá 13 árum seinna sé hann að áreita
konur á vinnustað.
Þetta er mitt framlag í þetta átak, enda líður mér betur að finna þessu einhvern farveg.
#22
Það er ekki langt síðan að ég var með námskeið í grunnskóla.
Á fyrri hluta námskeiðsins mættu nýliðar skólans og á seinni hlutann mættu þeir sem höfðu starfað
lengur við skólann og höfðu áður hlustað á efni námskeiðsins. Ég hafði samt byggt námskeiðið þannig
upp að flestir ættu að geta fundið eitthvað nýtt og/eða miðlað sín á milli. Ekki voru samt allir sem mættu
í seinni hlutann sáttir við að þurfa að mæta og flestir létu það í ljós með þátttökuleysi en einn karlmaður
í hópnum sýndi það með yfirlætislegu yfirbragði í minn garð og athugasemdum um innihald
námskeiðsins og það sem aðrir höfðu fram að færa.
Í einu verkefnanna var hópnum skipt í fjóra hópa inni í kennslustofnunni og hver þeirra fann sér stað í
stofunni til að vinna verkefnið. Hópurinn sem maðurinn með yfirlætið var í, kom sér fyrir við
kennaraborðið þar sem tölvan mín var. Ég hreyfði mig á milli hópanna en stóð annars í miðri stofunni.
Á tölvunni minni voru glærurnar með fyrirmælum verkefnisins. Þegar ég þurfti að skipta um glæru og
gekk að tölvunni á kennaraborðinu kom maðurinn fótunum fyrir uppi á kennaraborðinu og þegar ég
nálgaðist hagræddi hann sér þannig að ég þyrfti að rétta höndina yfir klofið á honum og þegar ég gerði
það eins og engin væri fyrirstaðan leit hann glottandi á mig. Ég lét sem ekkert væri, skipti um glæru á
tölvunni og greip um leið símann minn sem var við hliðina á tölvunni og ég get notað sem fjarstýringu
á glærusýningar. Næst þegar ég þurfti að skipta um glæru notaði ég símann og horfði fast á karlinn
og glotti til hans.
#23
Á vinnustaðnum sem um ræðir voru sumar konur teknar fyrir, aðrar ekki, en aldrei karlmenn. Það var
gerræðisleg stjórnun, mikil valdníðsla, talað niður til kvenna á fundum og alltaf gengið framhjá konum
við ráðningu á stjórnunarstörfum, t.d. deildarstjórastöðum. Launapotturinn var algjört leyndarmál og
þær konur sem ég var í sambandi við fengu ekkert eða örfáar krónur úr þessum launapotti.
Yfirmaðurinn var ráðinn í gegnum klíku á sínum tíma og átti sinn frændgarð í stjórn bæjarins, þannig
að hann var ósnertanlegur einvaldur, þrátt fyrir óteljandi kvartanir og að margar mjög hæfar og góðar
konur hættu, brynnu út og færu í önnur störf eða nám. Það þarf bæði að endurskoða eða innleiða nýja
verkferla í ráðningum og eins verkferla til að taka á svona málum sem snúa að áreitni, einelti eða
mismunun kvenna innan menntakerfisins.
#24
Ein ástæða fyrir því að ég hef ekki tjáð mig hér er vegna þess að ég hef einungis orðið fyrir
kynferðislegri áreitni og ógnandi hegðun, sem ég var reyndar mjög óttaslegin yfir, frá foreldrum. Og
þar hef ég alltaf reynt að virða trúnað, út fyrir gröf og dauða. Mér fannst einhvern veginn betra að
hegðunin væri gagnvart mér en ekki starfsmönnum mínum eða börnunum, en þá var það líka ég sem
þurfti að takast á við það alein og gerði það með því að forðast að vera ein með ákveðnum feðrum.
#25
Lenti í ítrekaðri áreitni af hendi skólastjóra sem endaði með því að ég sagði upp. Fjöldi annarra kvenna
hefur sömu sögu að segja af þessum manni, formlegar kvartanir hafa verið lagðar fram en ekkert gerist
og hann situr óhultur í sinni valdastöðu þar sem hann er þekktur fyrir að ráða til sín fallegar konur, að
því er virðist til að viðhalda spennu í eigin lífi. Illa falið leyndarmál sem allt bæjarfélagið veit af.
#26
Ég var þá deildarstjóri í leikskóla. Deildarstjórar fá ekki úthlutað símum svo mér fannst (á þessum
tíma) ég þurfa að gefa foreldrum upp símanúmerið mitt til öryggis vegna þess hve mikið við fórum úr
húsi með krakkana.
Einn pabbinn var svo hringjandi í mig í tíma og ótíma. Alltaf einhvert erindi en ekkert sem kallaði á að
hann þurfti að hringja í mitt einkanúmer eða ná í mig á núinu. Hann toppaði þetta svo alveg þegar
hann hringdi í mig í sumarfríinu bara til að spjalla.
Hann stoppaði alltaf mjög lengi við í lok dags til að spjalla, ekki um barnið sitt og starfsfólk í
leikskólanum voru farin að tala mikið um þetta “samband okkar á milli” sem mér var farið að finnast
mjög óþægilegt. Hann gekk allt of nærri mér og virti ekki mörkin milli kennara og foreldris.
#27
Ég leitaði til skólastjóra vegna atviks sem snerist um upplifun mína og óöryggistilfinningu gagnvart
nemendum. Hann brást ókvæða við og hreytti í mig ónotum eins og hans er von og vísa. Þegar ég var
á leið út í göngutúr til að reyna að jafna mig, með tárin í augunum, spurði kvk skólastjórnandi mig hvað
hefði komið fyrir. Ég sagði henni að það væri ekki verra en vant er; að skólastjórinn tæki því illa ef
maður kæmi með alvarleg mál inn á borð til hans og hreytti í mann ónotum. Ég fór út að ganga, náði
ekki að jafna mig og fór bakdyramegin inn í stofuna mína, hágrátandi. Ég lokaði – en læsti ekki –
hurðinni á eftir mér, settist við tölvuna og ákvað að reyna að dreifa huganum. Átti að fara að kenna
eftir fimm mínútur. Skólastjórinn kom inn í kennslustofuna. Ég gaf honum skýrt stopp merki með hægri
höndinni minni og sagði honum að ég gæti ekki, treysti mér ekki og vildi ekki tala við hann vegna þess
að ég þyrfti frið til að jafna mig áður en ég færi að kenna eftir nokkrar mínútur. Hann hlustaði ekki, kom
lengra inn í stofuna og nær mér. Ég gaf honum aftur skýrt stopp merki með hægri höndinni og sagði
aftur það sama við hann. Hann virti ekki skilaboðin mín, kom enn nær og fór að tala um það við mig
að kvk stjórnandinn hefði sagt sér að ég hefði tekið þessu sem hreytingi en það hefði ekki verið hans
ætlun. Ég var í uppnámi og sagði honum, að ég væri búin að fá nóg af hreytingi frá stjórnendum,
ásökunum frá þeim og að hann kenndi alltaf öðrum um. Hann virti það að vettugi og þvingaði mig til
að taka í höndina á sér og sagðist vera að biðja mig afsökunar. Ég tók í hönd hans en leit í hina áttina,
fannst ég ekki eiga mér undankomuleið, var króuð af og þrátt fyrir skýr skilaboð með orðum og
líkamstjáningu. Mér fannst hegðun skólastjórans ógnandi og hömlulaus og atvikið allt virkilega
þungbært og særandi. Að þessu loknu kenndi ég í 80 mínútur, þrátt fyrir tilfinningalegt uppnám. Atvikið
hefur aldrei verið rætt.
#28
Þegar ég 25 ára og byrjaði að kenna við grunnskóla, var þar kennari sem ávallt var með kynferðislega
tilburði við nýja kennara, í orði og verki, og jafnvel við nemendur. Þetta var vinsæll kennari og því hlógu
bara allir af þessu… og gera enn. Ég vildi ekki taka þátt í þessu og var hann því fljótur að setja mig út
af sakramentinu. Sem umsjónarkennari unglinga fékk ég kvörtun frá stelpum og foreldrum þeirra vegna
umsagna sem hann gaf þeim vegna verkefna. ,,Þú ert björt mey og hrein” þýddi að allt var rétt. ,,Þú
ert mín allra besta kærasta” merkti að honum líkaði vel við nemandann! Kvenkennarar í skólanum sem
ekki vildu taka undir niðrandi brandara um konur voru húmorslausar.
#29
Sumar hér inni tala um að vera lausar við áreitni í þessu starfi. Ég starfaði sem kennari í 11 ár og get
sagt að kynferðisleg áreitni hafi haft áhrif á starf mitt þó mér finnist það sem ég lenti sjálf í auðveldara
en áreitni karlkennara gagnvart nemendum. Sú áreitni og hvernig brugðist var við henni situr í mér.
Það var m.a. einn kennari sem átti til að tosa í g-streng og brjóstahaldara stelpnanna og láta smella í.
Ég ræddi þetta við hann og skólastjóra en það var ekkert gert með það. Þetta þótti honum fyndið og
notaði frasann um að það mætti orðið ekkert í dag og að karlkennarar lægju alltaf undir svona dómum
vegna kynferðis (sem er alls ekki reynsla mín því flestir þekkja mörkin vel). Sá sami sat oft með stelpur,
oft með veikan félagslegan bakgrunn, í fanginu og okkur samkennurum þótti það óþægilegt þó við
sæjum hann aldrei gera neitt við þær. Einu sinni kom umsjónarnemandi minn til mín og sagðist aldrei
aftur ætla í tíma til hans því hann hafði strokið henni þannig í tíma. Alltaf lét ég stjórnendur vita en
hann komst lengi upp með þetta. Það var annars konar mál gagnvart dreng sem hafði þau áhrif að
hann hætti störfum hjá þeim skóla sem ég vann í.
#30
Mig langar að segja frá áreitni sem ég varð fyrir að hálfu foreldris í leikskóla sem ég vann í. Daginn
sem þetta hófst var sparifatadagur í skólanum. Ég kem inn í fataklefann og sé að það er verið að sækja
einn drenginn. Faðir hans var á hækjum sér að tala við drenginn þegar ég kem æðandi að. Ég byrja á
að segja við drenginn að hann sé aldeilis heppinn að pabbi komi að sækja hann svona snemma
þennan daginn. Þá stendur pabbinn upp smellir kossi beint á munninn á mér um leið og hann segir:
„Nei hæ ástin mín, mikið ertu fín í dag.“ Ég sem verð aldrei orðlaus hvítnaði upp og gekk inn á deildina
án þess að segja orð. Vinkona mín varð vitni að þessu og sagði að hún hefði aldrei fyrr séð mig
orðlausa.
Eftir þetta reyndi ég að forðast manninn eins og ég gat, hljóp fram af deildinni þegar ég sá hann koma
og stóð í felum frammi á gangi. Mig meira að segja dreymdi það eina nóttina að hann hefði verið
fenginn til að koma í leikskólann og hjálpa mér með lestrarkennsluna og farið svo í sleik við mig. Mér
leið ekki vel eftir þann draum.
Einn daginn var ég svo að aðstoða barn við að reima skóna. Sat á kolli og hallaði mér fram. Ég finn
þá skyndilega að einhver er að strjúka mér fimlega um mjóbakið. Ég þorði ekki að hreyfa mig og gat
ekki ímyndað mér hver þetta var. Lét mér detta í hug að þetta væri fyrrverandi maðurinn minn að koma
með dóttur okkar í skólann. Ég stend svo upp og sé sama mann og hafði kysst mig áður standa yfir
mér. Ég verð svo hissa að það eina sem ég gat sagt var: „Varst þetta þú?“ Hann glotti og labbaði í
burtu. Ég hélt áfram að fela mig restina af skólagöngu barnanna.
Það erfiðasta við þetta fannst mér að mæta ekki skilningi allra samstarfsfélaga þegar ég ræddi þetta
mál. Mjög margir hlógu og sögðu að hann væri nú svo myndarlegur að þetta hlyti að vera í lagi.
#31
Ég hef starfað sem leikskólakennari í sex ár og að hluta sem stjórnandi. Á þeim tíma hef ég orðið fyrir
áreitni frá utanaðkomandi aðilum s.s. iðnaðarmönnum sem finnst bara ekkert að því að slá í rassinn á
manni á vinnustaðnum. Einnig er algengt að talað sé niður til manns eins og maður hafi ekki hundsvit
á öðru en að snýta börnum og skeina. Í starfinu þarf ótal oft að losa stíflur, negla nagla, laga tölvur,
skrúfa hillur, skápa, laga leikföng o.s,frv. verkvitið hefur verið talið alveg ágætt enda er ég alin upp af
smið og lærði ýmislegt verklegt snemma.
Það er ekkert eðlilegt að áætla að þar sem að ég vinn á leikskóla að þá get ég ekkert, að þá kunni ég
ekkert. Ég er kennari og ég er stolt af því. Ég hef góðan faglegan grunn til að byggja mitt starf á, og
metnað til að gera vel. Ég á að geta mætt í vinnuna án þess að verða fyrir áreitni og án þess að það
sé talað með lítilsvirðingu niður til mín. Við eigum það öll skilið.
#32
Ég var verkefnastjóri í félagsmiðstöð, hef verið verkefnastjóri í þremur félagsmiðstöðvum. Starfið mitt
heyrir ekki undir skólann en er unnið í nánu samstarfi við skólann. Ég hef ekki lent í áreitni af mínum
samstarfsmönnum þó ég hafi vissulega fundið fyrir því að vera ung kona í samskiptum mínum við
skólastjórnendur sem allir voru kallar. Ég hef aftur á móti heyrt ótal oft sögur frá unglingsstelpum af
óviðeigandi hegðun karlkynskennara í garð þeirra. Þegar ég hef rætt þessa hluti við skólastjórnendur
hef ég fengið að vita að unglingsstelpur séu svo dramatískar. Í eitt skipti var um að ræða kennara sem
hafði áður verið rekinn úr starfi fyrir óviðeigandi hegðun gagnvart nemanda en að sjálfsögðu var hann
rekinn fyrir eitthvað allt annað og gat fengið vinnu óáreittur hvar sem er. Í eitt skipti var um að ræða
vinsælan og frægan kennara sem hafði gert margt gott fyrir skólann sem fékk að kenna óáreittur þrátt
fyrir kvartanir, sem hafa verið að berast frá því kærastinn minn var í skólanum. Í öllum skiptum var gert
lítið úr þessari upplifun nemenda, það var nefnilega ekki rétt að eyðileggja mannorð góða kennara.
#33
Vinsæll aðili sem ferðast á milli skóla með forvarnarfræðslu biður t.d. kennara að vera ekki viðstaddir fræðslu til unglinga því þá muni unglingarnir ekki þora að spyrja mikilvægra spurninga. Gott og vel, en þegar þessi aðili kom með fræðslu til míns barns gerðist eftirfarandi: Það var orðið þungt loft og heitt inni í stofunni, einn strákur spyr hvort hann megi ekki fara úr peysunni og vera á hlýrabol sem hann var í undir, tveir aðrir strákar fara líka úr peysunum. Fyrirlesarinn segir með tóni sem ekki var hægt að misskilja „Vilja ekki einhverjar stelpur líka fara úr að ofan?“ Minn strákur sem þarna var segir að andrúmsloftið hafi orðið mjög skrítið og stelpum og strákum liðið vandræðalega og þarna var enginn kennari viðstaddur til að grípa inn í.
#34
Starfsmannagleði. Nokkrir fóru í bæinn, þar á meðal ég og aðstoðarskólastjórinn. Skemmtum okkur konunglega, þræddum bari og hittum fólk. Hann í sambandi og það sama á við um mig. Deildum leigubíl heim, sem ég taldi frekar eðlilegt til að spara kostnað og við ágætis félagar. Nokkrum mínútum áður en við vorum komin fyrir utan heimilið mitt þá leggst hann á öxlina á mér, rennir hendinni inn á bringuna mína og stefnir á brjóstið á mér, ég rétt næ að koma hendinni minni á milli, hann reynir að komast framhjá henni, en ég hagga minni ekki frá. Ég stífna upp, verð dauðskelkuð og get mig hvergi hreyft, eina sem ég get einbeitt mér að er að halda hendinni hans frá brjóstinu mínu og að telja niður sekúndurnar í að bíllinn renni í hlaðið heima hjá mér svo ég geti stokkið út og sloppið úr þessari prísund.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu