Hver þarf samfélagsmiðla þegar við höfum Bensó?

Nýtt ár, 2017, þýðir að það eru liðin 28 ár síðan ég gerðist Hólmari um stund.

Já haustið 1989 mætti ég vestur í Hólm, blaut á bak við eyrun – ætlaði að skrifa eins og eina BA ritgerð í sagnfræði um leið og ég reyndi mig við að leiðbeina 10 ára bekk, 4. bekk. Þar voru snillingar eins og Una Péturs, Bergþór, Röggurnar, Stebbi Sigga Júl og Jóhanna Heiðdal, bara svo minnst sé á nokkra. En svo kom á daginn að ég átti hreint ekki bara að kenna þessum snillingum, nei unglingarnir biðu mín líka Ragna Freyja, tvíburarnir Hafþór og Sævar, Þorgeir Ingiberg, Finnur Sig og Þórey Thorlacius. Þeim átti ég að kenna sitt lítið af hvoru, m.a. dönsku – og ég sem hélt að Hólmarar myndu vera góðir við mig! Hvernig átti ég á 26. aldursári að geta fetað í fótspor goðsagnar eins og Stellu dönskukennara?

Já og til að toppa þetta allt þá var seinna árið mitt í Hólminum stofnuð framhaldsdeild við skólann og þá bættust við Jónína móðir Hafþórs og Sævars, Rósa mamma Þorsteins Ólafssonar og auðvitað stálpuðu unglingarnir eins og Jenný Steinars, Siggeir Pétursson og Alda Páls. Þau voru næstum því jafnaldrar mínir og með mömmu sína í stofunni! Þar fannst Lúðvíg skólastjóri, sjálfsagt með dyggri aðstoð frá Gunna Svanlaugs, að ég væri örugglega góð í að kenna dönsku, sögu, félagsfræði og sálfræði. Ég maldaði í móinn til að byrja með og benti þeim góðfúslega á að ég hefði aldrei lært sálfræði þannig að ég gæti nú tæplega farið að kenna hana í framhaldsdeildinni! En þeir létu ekki segjast, ég myndi fá góða aðstoð frá Akranesi og þetta yrði ekkert vandamál.

Ég bendi á að þarna var komið var ekki búið að finna upp internetið, hvað þá samfélagsmiðla, þannig að aðstoðin frá Skaganum fólst í tveimur fundum á hvorri önn og sjálfsagt 2-3 símtölum við vel menntuðu framhaldsskólakennarana þar.

En einhvernvegin tókst mér að komast í gegnum þessa tvo vetur sem ég kenndi í Stykkishólmi. Þeir voru ómetanlegir enda lét ég ekki staðar numið við að kenna við grunnskólann og framhaldsdeildina. Ég var auðvitað plötuð í leikfélagið líka, þar sem ég lék í Saumastofunni og eignaðist mín fyrstu barnabörn Jón Þór Sturluson og Önnu Sigrúnu Baldursdóttur í leikritinu Amma þó. Þar fyrir utan þótti tilvalið að fela mér að stjórna félagsmiðstöðinni í frítímanum mínum.

Já það er þroskandi og gott að koma úr sollinum í henni Reykjavík og kynnast lífinu í Hólminum, þó mér hafi stundum þótt samfélagið þar vera helst til nálægt mér. Ein góð dæmisaga: Vinafólk mitt kom óvænt í heimsókn. Þau vissu ekki hvar ég bjó svo þau stoppuðu á Bensó og spurðu um Ingibjörgu dönskukennara. Jú hún býr í blokkinni á Skúlagötu. Ok sögðu þau, veistu hvort hún sé heima? Það stóð ekki á svari, nei hún er ekki heima, hún er oft hjá systur sinni inná Silfurgötu en þær voru að fara út í Helgafellssveit. Noh, það var ekkert annað hugsuðu vinir mínir úr borginni en spurðu þó, veistu nokkuð hvenær þær koma til baka? Þær eru nú venjulega ekki lengi, koma eftir kannski einn og hálfan til tvo tíma.

Hver þarf samfélagsmiðla þegar svona upplýsingar fást á Bensó?

Ps. BA ritgerðin er enn óskrifuð – kannski þarf ég að koma mér aftur í Hólminn til að klára hana!

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu